Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Þvagleki

Kaflar
Útgáfudagur

Þvagleki (e. urinary incontinence) er algengt vandamál sem fáir leita sér aðstoðar með. Einkenni þvagleka felast í því að fólk hefur ekki fulla stjórn á þvaglátum. Að missa þvag hefur oft neikvæð áhrif á líðan fólks og getur valdið miklum óþægindum og kvíða. Félagsleg einangrun er vel þekkt afleiðing þess að fólk missi þvag. Ef áhyggjur vakna er ráðlagt að panta tíma hjá heimilislækni því margar leiðir eru í boði varðandi meðferð og úrræði. Það er mikilvægt að finna leiðir svo þvagleki hafi ekki neikvæð áhrif á lífsgæði fólks. 

Einkenni

Þvagleki kallast það þegar ekki er unnt að halda í sér þvagi og það byrjar að leka. Stundum finnur fólk ekki fyrir því að þvag sé að leka og í öðrum tilfellum finnur fólk fyrir lekanum en getur hvorki stöðvað hann né hægt á honum. Það er mismunandi hvort lekinn sé það mikill að föt blotni þegar þvagblaðran tæmist eða hvort það séu bara nokkrir dropar sem leka. Þvagleki getur byrjað hvenær sem er um ævina þó hann sé algengari með hækkandi aldri. Í flestum tilfellum er hægt að meðhöndla þvagleka og því er fólki hvatt til að leita sér aðstoðar hjá heimilislækni.  

Nánari upplýsingar

Þvagblaðra getur geymt 500-700ml af þvagi á hverjum tíma. Um leið og þvag fer yfir helming þess magns sem hún getur borið finnur fólk fyrir þvagþörf. Skynjarar í þvagblöðrunni senda boð til mænu og þaðan til heila um að blaðran fari að fyllast og það sé kominn tími á losun. Það eru tveir vöðvar sem halda þvagblöðrunni lokaðri. Ytri og innri lokuvöðvar. Sjálfvirk boð berast frá mænu til innri lokuvöðvans þegar blaðran er við það að fyllast og vöðvarnir verða slakari. Þá fer okkur að verða mikið mál.

Við eðlilegar aðstæður stjórnar fólk því hvenær ytri lokuvöðvinn slakar á og við getum haldið í okkur. Þegar við komumst á salerni slökum við á ytri vöðvanum og blaðran tæmist. Ung börn og þeir sem ekki hafa fulla stjórn á þessum ytri lokuvöðva missa þvag ósjálfrátt. 

Orsakir

Það getur verið erfitt að finna orsök þvaglekans þar sem þær geta verið vel faldar og af mismunandi toga. Sjúkdómar s.s. mænuskaði og taugasjúkdómar eru augljósar orsakir. Þá getur þvagrásin hafa orðið fyrir áverka t.d. vegna slysa eða eftir barnsburð.  

Greining

Læknir eða hjúkrunarfræðingur fær upplýsingar um þvaglekann svo unnt sé að veita rétta meðferð. Hér má nefna hversu oft þvagleki verður og hversu mikið magn lekur í hvert skipti. Einföld þvagprufa er oft tekin og send á rannsóknarstofu til að útiloka sýkingar. Hér má lesa um þvagfærasýkingar kvenna. Þá er oft gerð ómskoðun sem mælir það þvag sem situr eftir í blöðru eftir þvaglát.

Alvarleiki þvagleka er flokkaður eftir tíðni og magni:   

  • Lítill þvagleki: Fáir dropar á mánuði
  • Miðlungs þvagleki: Nokkrir dropar á hverjum degi
  • Alvarlegur þvagleki: Mikið magn af þvagi oft í viku 

Þekktar tegundir þvagleka

Bráðaþvagleki

Sjaldan nær fólk á salerni þegar um bráðaþvagleka er að ræða. Lítil eða engin stjórn er á ytri lokuvöðvanum og það byrjar bara að leka; stundum nokkrir dropar en það getur líka komið góð buna og blaðran tæmst án þess að nokkru verði við komið. Fólk með bráðaþvagleka getur ekki haldið í sér og missir þvag í tíma og ótíma. Þvaglátsþörf er mjög bráð og fólk drífur sig á salerni en margir finna ekkert fyrir þörfinni, það byrjar bara ósjálfrátt að leka. Bráðaþvagleki getur orðið hvort sem blaðran er vel full eða rétt eftir að hún hefur verið tæmd. Það er ekkert samhengi á milli þvaglátsþarfar og magns í blöðru.

Áhættuþættir bráðaþvagleka: þvagfærasýking, taugasjúkdómar, áfengisneysla, hreyfingaleysi.

Álagsþvagleki

Þegar þvagblaðran fyllist af þvagi eykst þrýstingurinn í henni. Þvagrásin nær ekki að halda blöðrunni lokaðri og lætur undan þessum þrýstingi. Allt álag á blöðruna og þvagrásina getur valdið því að þvag lekur úr blöðru. Hér má nefna hósta, hnerra, hlátur og það að standa upp eða gera eitthvað sem annars veldur álagi á blöðruna.

Álagsþvagleki byrjar venjulega með að nokkrir dropar eru að leka en með tímanum eykst það magn sem lekur í hvert skipti sem álag verður. Áhættuþættir álagsþvagleka: aldur, kyn, fjöldi fæðinga um fæðingarveg, streita og hreyfingaleysi.

Blandaður þvagleki

Þau sem hafa einkenni bæði bráða- og álagsþvagleka eru sagðir með blandaðan þvagleka.

Þvagleki af völdum tæmingarvanda

Það er vel þekkt að fólk eigi erfitt með að tæma þvagblöðru að fullu. Þá liggur þvag eftir í blöðrunni þegar fólk hefur lokið sér af á salerni. Þvagið sem eftir situr lekur stjórnlaust úr blöðru skömmu síðar, ýmist nokkrir dropar eða það mikið magn að föt blotna í gegn. Þetta getur jafnvel átt sér stað í hvert skipti sem farið er á salerni og þá þegar staðið er upp af salerninu.

Algert stjórnleysi á þvaglátum

Þvagblaðran getur ekki haldið neinu þvagi og það lekur stöðugt eða mjög reglulega frá henni.

Meðferð

Meðferð fer eftir tegund og alvarleika þvaglekans. Sé þvagleki afleiðing þekkts sjúkdóms eða kvilla þá er horft til þess sérstaklega svo unnt sé að finna lausn á vandanum. Alltaf er reynt að meðhöndla þvagleka með eins litlum inngripum og hægt er. Hér má nefna:  

  • Blöðruþjálfun: Felst í að fresta ferðum á salernið og reyna að halda í sér. Ekki fara um leið og þvagþörf gerir vart við sig. Með því að lengja tímann á milli þvagláta þenst þvagblaðran út og venst því að tæmast sjaldnar.  
  • Grindarbotnsæfingar: Eru mikilvægar til að styrkja ytri og innri lokuvöðva við þvagrás. Með því að ná betri stjórn á þessum vöðvum verður auðveldara að hafa stjórn á þvaglátum og halda í sér í lengri tíma. 
  • Lífsstílsbreytingar: Öll hreyfing og líkamsþjálfun er af hinu góða. Eftir barnsburð er mikilvægt að styrkja vöðva sem hafa orðið fyrir álagi á meðgöngu. Þá er öllum ráðlagt að draga úr koffín- og áfengisneyslu en ofneysla ýtir undir tíð þvaglát og þvagleka.  

Náist ekki lausn á þvagleka þrátt fyrir æfingar og þjálfun þá er lyfjameðferð skoðuð og í einstaka tilfellum skurðaðgerð.  

Hvað get ég gert?

Þvagleki getur valdið því að fólk sé hrætt við að mæta á mannamót eða fara í verslanir af ótta við bráða þvaglátsþörf og þvag byrji að leka. Vanlíðan og kvíði eru algengir fylgikvillar þvagleka og valda félagslegri einangrun. Fólk með þvagleka óttast það helst að komast ekki á salerni í tæka tíð og það blotni og aðrir finni þvaglykt. En góðu fréttirnar eru þær að margt er hægt að gera til að vinna bug á þessum kvilla og mikilvægt er að leita sér aðstoðar fyrr en seinna: 

  • Hægt er að panta tíma á heilsugæslustöð eða hjá þvagfæralækni til að fara yfir vandamál tengd þvagleka. Mikilvægt er að ganga sem fyrst úr skugga um að ekki sé um sýkingu að ræða eða sjúkdóm sem veldur þvaglekanum. Út frá þeirri greiningu sem fæst er hægt að ræða möguleika til að finna lausn á vandanum.  
  • Gott er að halda dagbók yfir vökvainntekt og þvagútskilnað og þvagleka áður en haldið er af stað til læknis. Þá er hægt í sameiningu að skoða mynstur og setja upp áætlun með blöðruþjálfun og grindarbotnsæfingum. 
  • Skoða úrvalið af innleggjum eða lekabindum (e. incontinence pads) í lyfjaverslunum og stórmörkuðum. Mismunandi tegundir eru til fyrir öll kyn. Þau hafa vatnsfælið lag sem dregur þvag frá yfirborðinu þannig að húðin helst þurr. Þá eru sum þeirra með þeim eiginleika að draga úr þvaglykt. Þessi lekabindi geta létt verulega líf fólks, dregið úr áhyggjum og kvíða. Venjulega dömubindi eru ekki hentug þar sem þau eru ekki gerð til að halda einhverju magni af þvagi.  
  • Sérstakar mjúkar þvagleka-nærbuxur fást víða. Þessar buxur eru rakadrægar, draga úr lykt og henta þeim sem hafa talsverðan þvagleka. Þær reynast sérstaklega vel á nóttunni og á lengri ferðalögum. Þær veita mikið öryggi í lengri ferðum eins og til dæmis flugferðum, gönguferðum, hjólatúrum og almennt fyrir alla hreyfingu. Þá er einnig hægt að fá  sundfatnað með lekabindum í, sem auðveldar fólki að stunda leikfimi, sund og aðrar vatnaíþróttir. 
  • Hægt er að fá netbuxur í flestum lyfjaverslunum til að halda lausum lekabindum á sínum stað. Þær eru til í mismunandi stærðum og unnt er að vera í hefðbundnum nærbuxum utan yfir þær til þæginda. 
Fyrir kynfæri kvenna
  • Unnt er að fá í lyfjaverslunum búnað sem virkar í raun eins og tíðatappar. Mjög auðvelt er að koma þessu fyrir í leggöngum og þar styður það við þvagrásina og kemur í veg fyrir álagsþvagleka. Þessi búnaður getur veitt vörn í allt að 12 klst og sést ekki frekar en tíðatappar. Kærkominn búnaður þegar farið er í lengri ferðir eða útivist stunduð.  
  • Laus þvaglekabindi einkum ætluð kynfærum kvenna eru til í mismunandi stærðum. Hægt er að fá lítil lekabindi sem henta þeim sem hafa lítinn þvagleka. Þessi lekabindi má líma inn eins og venjuleg tíðabindi í nærbuxur eða í netbuxur. 
  • Á markað eru komin æfingatæki sem þjálfa grindarbotnsvöðvana. Með því að styrkja þá er unnt að draga úr tíðni þvagleka. Sérstakt app veitir aðgang að tölvuleikjum sem hægt er að sækja í símann og nákvæmar leiðbeiningar fylgja þessum æfingum en þær snúast um að styrkja grindarbotninn.  
Fyrir kynfæri karla
  • Í lyfjaverslunum og stórmörkuðum má finna sérstök þvaglekabindi er henta kynfærum karla. Þau eru með límstrimli þannig að auðvelt er að festa þau í venjulegar nærbuxur en líka í netbuxur sem halda þá lekabindinu á réttum stað. Það er mikilvægt að bindið umlyki kynfærin og því skiptir máli að vera í buxum sem styðja vel við. Hægt er að vera í venjulegum nærbuxum utan yfir netbuxur.  Þessi lekabindi hafa reynst vel þeim sem hafa lítinn eða meðalþvagleka.  
  • Fyrir þá sem hafa meiri þvagleka en lítil laus lekabindi ráða við er ráðlagt að notast við sérstakar mjúkar þvagleka-nærbuxur sem minnst er á hér að ofan.

Í neyðartilfellum

Ef þvagleki verður skyndilegur, miklir verkir fylgja honum eða þvag blóðlitað skal hafa samband strax við heilsugæslu eða bráðamóttökur.

Finna næstu heilsugæslu hér.

Finna næstu bráðamóttöku hér.