Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Þvagfærasýking hjá körlum

Kaflar
Útgáfudagur

Bráð þvagfærasýking eða blöðrubólga (e. cystitis) er sýking af völdum baktería sem hafa komist upp þvagrásina og í þvagblöðruna.

Sýkingin getur verið bundin við þvagrás, þvagblöðru, blöðruhálskirtil eða í sumum tilvikum náð upp til nýrna. Þvagfærasýking greinist sjaldnar hjá karlmönnum því þvagrásin er lengri en hjá konum og því erfiðara fyrir bakteríur að komast upp í blöðruna. 

Einkenni

  • Sviði við þvaglát
  • Tíð þvaglát og mikil þvaglátsþörf
  • Dökkt og/eða gruggugt þvag
  • Illa lyktandi þvag
  • Kemur lítið þvag í einu, þvagleki eða þvagteppa
  • Næturþvaglát
  • Verkur á kynfærasvæði - verkur við það að sitja

Önnur einkenni sem geta einnig átt við sýkingu í nýrum:

  • Blóð í þvagi
  • Hár hiti og kuldahrollur
  • Verkur eða þyngsli neðarlega í kvið við blöðrustað eða verkur í mjóbaki

Orsök

Yfirleitt er um að ræða bakteríur frá endaþarmi þess sem sýkist sem komist hafa inn í þvagrásina og upp í þvagblöðruna. Líkur á þvagfærasýkingu hækka við:

  • Kynmök 
  • Nýrnasteina sem loka fyrir þvagleiðara 
  • Óhreinlæti á kynfærasvæði
  • Ónæga vökvainntöku
  • Skert ónæmiskerfi t.d. vegna lyfjameðferðar
  • Stækkun á blöðruhálskirtli eða aðra kvilla sem valda erfiðleikum með að tæma þvagblöðruna

Greining

Greining er gerð út frá einkennum og sögu. Stundum er þvag sent í ræktun eða gert strimilpróf á heilsugæslu.

Í þessum tilfellum er e.t.v. beðið um að skila þvagsýni (miðbunuþvag, helst morgunþvag). Hægt er að koma með þvagsýni á dagvakt heilsugæslunnar á opnunartíma.

Meðferð

Í sumum tilfellum fer sýking án meðferðar.

Í öðrum tilfellum eru gefin sýklalyf við þvagfærasýkingu. Einnig má taka verkjalyf og hitalækkandi lyf.

Hvað get ég gert?

  • Drekka vel
  • Viðhalda góðu hreinlæti
  • Hafa þvaglát eftir kynmök
  • Taka forhúðina frá fyrir þvaglát

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ef tvö af þremur ofangreindum einkennum eru til staðar er líklega um bráða þvagfærasýkingu að ræða.

Ef einkennin eru væg, er hægt að freista þess að blöðrubólgan lagist af sjálfu sér. Eins er hægt að leita til heilsugæslunnar og í sumum tilfellum fá lyfseðil í lyfjagáttina sem hægt er að leysa út ef einkennin versna.

Hafðu strax samband við hjúkrunarfræðing á heilsugæslustöð ef einkenni þvagfærasýkingar eru til staðar og eitt af eftirfarandi á við:

  • Hiti yfir 38°C eða verkur í síðu/baki
  • Blóð í þvagi
  • Útferð úr þvagrás
  • Hefur nýlega fengið meðferð við þvagfærasýkingu
  • Grunar að þú getir verið með kynsjúkdóm
  • Nýlega legið á sjúkrahúsi

Finna næstu heilsugæslu hér