Ráðleggingar - fólk 60+

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Þegar komið er á efri ár er eðlilegt að smám saman dragi úr líkamlegri og andlegri getu. Regluleg hreyfing hægir á einkennum og áhrifum öldrunar og veitir líkamlegan og andlegan styrk.

Ávinningur reglulegrar hreyfingar á efri árum er meðal annars:

  • Aukinn styrkur og liðleiki
  • Úthald við leik og störf eykst
  • Betra jafnvægi
  • Minni hætta á byltum
  • Betri andleg líðan
  • Hjarta- og æðakerfið vinnur betur
  • Hægir á beinþynningu
  • Aukið sjálfstæði lengur

Þeir sem ekki hafa stundað hreyfingu lengi eða eiga erfitt með hana einhverra hluta vegna ættu að kynna sér möguleika hreyfiseðilsins eða leita ráðlegginga hjá fagfólki. Almennt er mikilvægt að fara rólega af stað og auka síðan smám saman við álagið eftir því sem getan eykst.  

  • Samanber opinberar ráðleggingar um hreyfingu ætti eldra fólk að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega. Heildartímanum má skipta í nokkur styttri tímabil yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn. 
  • Með því að hreyfa sig lengur eða af meiri ákefð er mögulegt að bæta heilsuna enn frekar. Til viðbótar er því æskilegt að eldra fólk stundi erfiða hreyfingu að minnsta kosti tvisvar sinnum í viku (20 – 30 mínútur í senn). 
  • Styrktarþjálfun er sérstaklega gagnleg rosknu fólki, meðal annars til að viðhalda hreyfifærni og stuðla að auknu gönguöryggi.

Þegar fólk hættir að stunda launaða vinnu skapast svigrúm í tíma sem tilvalið er að nota til að koma sér upp venjum sem fela í sér meiri hreyfingu. Með því móti er hægt að bæta bæði heilsu og góðum árum við lífið. Ekki er verra ef það er gert í góðum félagsskap og hlúa þannig einnig að félagslegri virkni og vellíðan. 

Í mörgum bæjarfélögum er boðið upp á leikfimi fyrir eldra fólk og víða eru gönguhópar og sundtímar sérstaklega fyrir eldra fólk. Það er um að gera að kynna sér hvað er í boði í þínu nærumhverfi og koma sér í hópinn. 

Ef færni er farin að skerðast er tilvalið að gera það að venju að gera stólaleikfimi heima. Þetta eru æfingar sem allir geta gert sem geta setið á stól.

Yfir vetrartímann þegar snjór og hálka eru þarf að huga að hálkuvörnum.

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.