Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Ráðleggingar - Eldra fólk

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Eldra fólk er breiður hópur hvað varðar aldur og færni. Þegar komið er á efri ár er eðlilegt að smám saman dragi úr líkamlegri og andlegri getu. Regluleg hreyfing hægir á einkennum og áhrifum öldrunar og veitir líkamlegan og andlegan styrk.

Þeir sem ekki hafa stundað hreyfingu lengi eða eiga erfitt með hana einhverra hluta vegna ættu að kynna sér möguleika hreyfiseðilsins eða leita ráðlegginga hjá fagfólki. Almennt er mikilvægt að fara rólega af stað og auka síðan smám saman við álagið eftir því sem getan eykst.  

  • Í hverri viku ætti að  hreyfa sig rösklega í minnst 150 – 300 mínútur. Einnig er hægt að hreyfa sig kröftuglega og þá í minnst 75-150 mínútur í viku, eða stunda blöndu af sambærilegu magni af rösklegri og kröftugri hreyfingu.
  • Styrktarþjálfun er sérstaklega gagnleg rosknu fólki, meðal annars til að viðhalda hreyfifærni og stuðla að auknu gönguöryggi.
  • Sem hluta af heildarhreyfingunni ætti minnst 2 daga vikunnar að stunda hreyfingu sem styrkir vöðva, bætir jafnvægi og eykur hreyfigetu. 
  • Með því að hreyfa sig lengur eða með meiri ákefð er mögulegt að bæta heilsuna enn frekar. Þannig má hreyfa sig rösklega í meira en 300 mín (5 klst.) á viku eða hreyfa sig kröftuglega í meira en 150 mín (2,5 klst.) á viku, en þó innan þeirra marka sem geta hvers og eins leyfir. Það bætir enn frekar þol, vöðvastyrk, liðleika, jafnvægi og beinheilsu og eykur líkurnar á hreysti á efri árum. Einstaklingsbundið er hvar efri mörkin liggja fyrir aukna hættu á meiðslum og ofþjálfun. 

Kyrrseta: Eldra fólk ætti að takmarka þann tíma sem varið er í kyrrsetu. Það hefur jákvæð áhrif á heilsuna að skipta út tíma í kyrrsetu fyrir hreyfingu af hvaða ákefð sem er, þar með talið lítilli ákefð.

Þegar fólk hættir að stunda launaða vinnu skapast svigrúm í tíma sem tilvalið er að nota til að koma sér upp venjum sem fela í sér meiri hreyfingu. Með því móti er hægt að bæta bæði heilsu og góðum árum við lífið. Ekki er verra ef það er gert í góðum félagsskap og hlúa þannig einnig að félagslegri virkni og vellíðan. 

Í mörgum bæjarfélögum er boðið upp á leikfimi fyrir eldra fólk og víða eru gönguhópar og sundtímar sérstaklega fyrir eldra fólk. Það er um að gera að kynna sér hvað er í boði í þínu nærumhverfi og koma sér í hópinn. 

Ef færni er farin að skerðast er tilvalið að gera það að venju að gera stólaleikfimi heima. Þetta eru æfingar sem allir geta gert sem geta setið á stól.

Yfir vetrartímann þegar snjór og hálka eru þarf að huga að hálkuvörnum.

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína