Mislingar

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Mislingar (e. measles) er veirusjúkdómur sem er mjög smitandi og einkennist af hita og útbrotum um allan líkamann. Sjúkdómurinn getur verið hættulegur sumum einstaklingum en besta forvörnin er bólusetning.

Einkenni

Einkenni mislinga koma fram um 10-12 dögum eftir smit og geta verið mismikil eftir einstaklingum. Þau byrja oft með flensulíkum einkennum þ.e.

  • Bólgnir eitlar
  • Hiti
  • Nefrennsli
  • Hósti
  • Höfuðverkur
  • Sviði í augum, roði og/eða vatnkennd augu

Á þriðja eða fjórða degi veikindanna koma í flestum tilfellum fram útbrot sem ná yfir allan líkamann og standa í 3-4 daga eða þar til sjúkdómurinn fer að réna.

Smitleiðir og meðgöngutími

Mislingaveiran er mjög smitandi og berst milli manna með úða frá öndunarfærum (t.d. hósta og hnerra). Veiran getur lifað og valdið smiti í allt að tvær klukkustundir eftir að hún berst út í andrúmsloftið.

Greining

Einkenni mislinga geta verið lík ýmsum öðrum sjúkdómum, rétt er að hafa samband við lækni til að fá staðfestingu á að um mislinga sé að ræða. Mislingar eru greindir með nefkokssýni sem tekið er á veirupinna

Meðferð

Sýklalyf gagnast lítið gegn mislingum þó getur verið nauðsynlegt að meðhöndla sýkingar sem eru afleiðingar af sjálfum sjúkdómnum með sýklalyfjum. Önnur meðferð lítur að hvíld, vökvainntekt og næringu.

Forvarnir

MMR bóluefnið gefur um 95% vörn gegn mislingum. Þátttaka á Íslandi í bólusetningu gegn mislingum hefur verið með ágætum á undanförnum árum eða tæplega 95%.

Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að halda áfram góðri þátttöku í bólusetningum því aðeins á þann hátt má halda þessum alvarlega smitsjúkdómi frá landinu. Börn eru bólusett 18 mánaða og 12 ára. Rétt er takmarka ferðalög með óbólusett börn til landa þar sem hætta er á smiti.

Fyrirkomulag barnabólusetninga.

Hvað get ég gert?

  • Hvíld og drekka vel af vökva
  • Taka inn hitalækkandi
  • Setja volgt vatn í bómul og fjarlægja varlega skorpur úr augum
  • Vera frá leikskóla, skóla eða vinnu í lágmark fjóra daga frá því að útbrotin koma fram. 

Finna næstu heilsugæslustöð hér.

Fylgikvillar

  • Eyrnabólga
  • Kviðverkir
  • Uppköst

Mislingar geta haft alverlegar afleiðingar ef þeir dreifast til annarra hluta líkamans, svo sem lungna eða heila. Dæmi um fylgikvilla:

  • Flog (krampar)
  • Heilahimnubólga
  • Lungnabólga
  • Sjónskerðing

Þessi vandamál eru sjaldgæf en sumt fólk er í meiri hættu. Þetta á við um börn og fólk með veikt ónæmiskerfi.

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.