Heilahimnubólga

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Heilahimnubólga (e. meningitis) er sýking í himnum sem umlykja heila og mænu og hlífa þessum líffærum. Allir geta veikst af heilahimnubólgu en algengara er að sjúkdómurinn herji á börn, unglinga og ungt fólk. Heilahimnubólga getur verið mjög alvarleg ef hún er ekki meðhöndluð fljótt. Fram getur komið lífshættuleg blóðeitrun eða blóðþurrð og valdið varanlegum skaða á heila og taugum.

Bólusetning gegn haemophilus influenzae og meningókokkum C fækkaði snarlega heilahimnubólgu tilfellum meðal barna á Íslandi. Heilahimnubólga orsakast af bakteríu- eða veirusýkingum. Heilahimnubólga af völdum bakteríusýkingar er þó mun alvarlegri.

Einkenni

Læknir greinir heilahimnubólgu með skoðun, blóðprufu og ef til vill fleiri sértækari rannsóknum.

Ef grunur er um heilahimnubólgu á tafarlaust að leita til læknis. Vaktsími fyrir allt landið er 1700. Í neyðartilfellum hringdu í 112

Myndin sýnir glasapróf

  • Hiti yfir 38°C
  • Slappleiki
  • Höfuðverkur
  • Rauðleit, lítil útbrot sem hverfa ekki þegar glasi er velt yfir þau. Útbrot geta komið fram hvar sem er á líkama. 
  • Hnakkastífleiki
  • Ljósfælni
  • Syfja
  • Meðvitundarskerðing
  • Krampar
  • Ógleði og uppköst

Börn geta auk þess haft eftirfarandi einkenni:

  • Lystarleysi
  • Óróleiki
  • Hávær grátur
  • Stífleiki í líkama, almennur slappleiki og meðvitundarskerðing
  • Afmörkuð útbungandi húð ofarlega á höfði

Smitleiðir og greining

Helstu smitleiðir heilahimnubólgu eru:

  • Hnerri
  • Hósti
  • Bein snerting svo sem með kossum og handabandi
  • Þegar ýmsum hlutum á heimili er deilt til dæmis hnífapörum og tannburstum

Greining er gerð með því að taka sýni úr mænuvökva.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Hringdu í 112 eða farðu tafarlaust á bráðamóttöku sjúkrahúss ef einkenni eru svæsin.

Alltaf ætti að leita með börn á bráðamóttöku sé grunur um heilahimnubólgu. 

Hægt er að fá ráð hjá heilbrigðisstarfsfólki annað hvort á heilsugæslunni eða með því að hringja í vaktsímann 1700 utan opnunartíma.

Finna næstu bráðamóttöku.

Hvað get ég gert?

Í vægari tilfellum getur læknir metið að óhætt sé að dvelja heima til að ná bata. Oftast er þá um fullorðna að ræða sem jafna sig yfirleitt á heilahimnubólgunni án alvarlegra vandamála. Flestum líður betur á 7 til 10 dögum.

Mikilvægt er að huga að eftirfarandi heima:

  • Næg hvíld
  • Taka verkjalyf við höfuðverk eða almennum verkjum, til dæmis paracetamól sem fæst án lyfseðils í apóteki
  • Drekka vel af vökva
  • Ef um ógleði eða uppköst eru að ræða er gott að borða létt fæði og lítið í einu

Fylgikvillar

Heilahimnubólga getur leitt af sér ýmsa fylgikvilla sem geta verið varanlegir eða getur tekið tíma að losna við:

  • Varanlegt heyrnarleysi eða heyrnarskerðing 
  • Vandamál tengd minni og einbeitingu
  • Vandamál tengd hreyfingu og jafnvægi
  • Vandamál tengd líkamsstarfsemi eins og liðbólgur og nýrnavandamál

Forvarnir

Verndandi bólusetningar eru í boði gegn heilahimnubólgu í ung- og smábarnavernd heilsugæslunnar. Hér er um að ræða heilahimnubólgu af völdum:

  1. Haemophilus influenzae b eða Hib sem gefin er við 3ja, 5 og 12 mánaða aldur
  2. Meningókokka C sem gefin er við 6 og 8 mánaða aldur

Með tilkomu þessarra bólusetninga snarfækkaði tilfellum heilahimnubólgu hjá börnum á Íslandi.

Sjá fyrirkomulag barnabólusetninga á Íslandi 

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.