Meningókokkasýking

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Heilahimnubólga og blóðsýking af völdum meningókokka baktería leiðir oftast til dauða ef ekki er brugðist skjótt við með greiningu og meðferð. Sjúkdómurinn er algengastur í börnum en getur komið fyrir á öllum aldri. Útbreiðsla hans er oft tilviljanakennd en hann getur stundum orðið að faraldri. Því er mikilvægt að fylgst sé náið með sjúkdómnum svo hægt sé að grípa til aðgerða ef fjöldi tilfella verður mikill.

Faraldsfræði
Sjúkdómurinn er alvarlegt heilsufarsvandamál á Íslandi, en hann hefur gengið í faröldrum á 15-20 ára fresti. Nú er tæpur aldarfjórðungur liðinn frá því að sjúkdómurinn gekk síðast í faraldri á Íslandi en það var árið 1976.

Ef sjúkdómurinn heldur sínu fyrra háttalagi má búast við faraldri hvenær sem er. Á undanförnum 10 árum hefur árlegt nýgengi sjúkdómsins verið á bilinu 5-11 tilfelli á hverja 100.000 íbúa. Dánartalan á Íslandi er 8,6% á sl. 17 árum. Það eru einkum þrjár gerðir af meningókokkum sem valda sjúkdómi en það eru gerð A, B og C. Hér á landi hafa einkum gerð B og C valdið sjúkdómi.
Eftir að bólusetning gegn meningókokkum C hófst á Íslandi hefur dregið verulega úr tíðni sjúkdómsins. Enn er ekki til bóluefni gegn meningókokkum B og hefur sú baktería því verið algengasta orsök meningókokkasjúkdóms hér á landi síðan 2002.

Einkenni sjúkdómsins
Einkenni sjúkdómsins geta verið lúmsk og í upphafi líkst venjulegri kvefpest eða flensu. Ungabörn veikjast oft með ósértækum einkennum eins og minnkaðri meðvitund , ertingu, höfnun á fæðu, ógleði eða niðurgangi og hita.

Sértæk einkenni eru hnakkastífleiki eða bungun á hausamótum ef þau eru enn opin og punktblæðingar (eða marblettir) sem lýsast ekki ef beitt er þrýstingi á þær. Síðkomin einkenni eru hátóna skrækir, meðvitundarleysi, höfuð fett aftur, lost og útbreiddir marblettir og blæðingar í húð.

Hjá eldri börnum og fullorðnum eru ósértæk einkenni höfuðverkur, ógleði og bak- og liðverkir. Sértæk einkenni eru hnakkastífleiki, ljósfælni, ruglástand og punktblæðingar eða marblettir

Heilahimnubólgu eða blóðsýkingu skal alltaf hafa í huga hjá barni með óútskýrðan hita og áberandi veikindi. Hnakkastífleiki er ekki alltaf til staðar og er því mikilvægt að líta eftir húðblæðingum eða marblettum. Ef saman fer hiti og húðblæðingar þarf sjúklingur að komast á spítala án tafar.

Meðferð
Nauðsynlegt er að meðhöndla sjúklinga með meningókokkasjúkdóm sem fyrst á sjúkrahúsi með sýklalyfjum. Þrátt fyrir öflugar nútímalækningar er dánartala sjúkdómsins há eða tæp 9% hér á landi.

Þegar einstaklingur greinist með alvarlega meningókokkasýkingu geta einstaklingar í nánasta umhverfi þurft á fyrirbyggjandi lyfjagjöf að halda;

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.