Berklaveiki er alvarlegur smitsjúkdómur af völdum berklabakteríu (e. Mycobacterium tuberculosis). Berklaveiki er tilkynningarskyldur sjúkdómur, sem merkir að læknum er skylt að tilkynna sóttvarnalækni hverjir veikjast af berklum. Þetta er gert til að unnt sé að hindra útbreiðslu smits. Á Íslandi greinast árlega um 10 einstaklingar með berklaveiki.
Einkenni
Helstu einkenni berklaveiki eru:
- Hósti
- Þyngdartap
- Slappleiki
- Hiti
- Nætursviti
- Kuldahrollur
- Lystarleysi
Berklabakterían sýkir oftast lungu og veldur þá langvarandi hósta, takverk, og stundum blóðhósta.
Berklar geta einnig lagst á önnur líffæri:
• Sýking í þvagfærum getur valdið tíðum þvaglátum og blóði í þvagi
• Sýking í beinum veldur bólgu og verkjum
Smitleiðir
Berklabakterían berst á milli manna með loftbornu smiti. Þegar berklaveikur einstaklingur hóstar berast bakteríur út í andrúmsloftið og aðrir geta andað þeim að sér og smitast. Í flestum tilvikum eru það aðeins þau sem eru í nánd við þann berklaveika sem smitast, til dæmis þau sem búa á sama heimili eða vinna innanhúss á sama vinnustað. Eingöngu berklaveikur einstaklingur er smitandi.
Greining
Til þess að ganga úr skugga um hvort einstaklingur hefur smitast af berklabakteríu er gert húðpróf. Í húðprófinu er sprautað í húðina á framhandlegg svolitlu magni af vökva sem inniheldur prótín, sem ónæmiskerfið þekkir, ef það hefur áður kynnst berklabakteríunni. Þeir sem svara húðprófinu jákvætt fara í röntgenmynd af lungum í kjölfarið og stundum blóðprufu, sem hjálpar til að skera úr um hvort um berklasmit sé að ræða eða ekki. Það tekur líkamann 8-12 vikur að kynnast berklabakteríunni áður en hann fer að kannast við prótínið í berklaprófinu. Af þessum sökum þarf stundum að berklaprófa tvisvar.
Meðferð
Berklar eru meðhöndlaðir með sýklalyfjum. Meðferðin er ákveðin í hverju tilviki fyrir sig. Það fer eftir því hvort viðkomandi er með berklaveiki eða hulduberkla hvernig hún er.
Berklaveikur einstaklingur með lyfnæmar bakteríur er gjarnan meðhöndlaður með fjórum berklalyfjum í 6 mánuði. Einstaklingur með hulduberkla fær varnandi meðferð til að koma í veg fyrir að berklaveiki leysist úr læðingi síðar á ævinni. Venjulega er meðhöndlað með einu berklalyfi í 6 mánuði en stundum með 2 lyfjum í 3 mánuði.
Mikilvægt er að klára meðferðina bæði við hulduberklum og berklaveiki.
Hulduberklar
Við smitun frá manni til manns berst bakterían í líkama þess sem smitast, en ónæmiskerfið kemur í flestum tilvikum í veg fyrir að fólk veikist. Segja má að þeir, sem hafa smitast af bakteríunni en veikjast ekki séu með hulduberkla (e. latent TB infection). Aðeins 10% þeirra sem smitast af berklabakteríunni fá berklaveiki síðar á ævinni. Það gerist ekki endilega strax eftir smitið. Fólk getur verið með hulduberkla í mörg ár og flestir ævilangt án þess að veikjast. Þeir sem eru með hulduberkla geta ekki smitað aðra.
Birtingarmyndir berkla eru þannig tvær. Hulduberklar eða leynd berklasýking og berklaveiki.
Til þess að koma í veg fyrir að berklabakterían dreifi sér og fólk veikist af berklum eru allir sem hafa verið í nánd við smitandi berklaveikan einstakling berklaprófaðir. Finnist fólk með hulduberkla sem taldir eru vera nýleg sýking er mælt með varnandi meðferð til að koma í veg fyrir að berklaveiki leysist úr læðingi síðar á ævinni.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að í dag séu 1/3 mannkyns með hulduberkla.
Forvarnir
Ekki hefur enn tekist að búa til berklabóluefni sem virkar. Besta aðferðin í baráttunni við berklana er að greina og meðhöndla fljótt og vel. Jafnframt að leita að smituðum meðal þeirra sem hafa verið í nánd við þann berklaveika og bjóða þeim varnandi meðferð.
Fólk á ferðalögum til landa þar sem nýgengi berklaveiki er hátt þarf að vera á varðbergi, ef þau eru innan um fólk sem sýnir einkenni um berklaveiki. Alltaf er hægt að láta berklaprófa sig þegar heim er komið.