Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Hib bakteríusýking

Kaflar
Útgáfudagur

Haemophilus influenzae er hópur baktería sem eru flokkaðar eftir gerð þeirra. Haemophilus influenzae b eða Hib getur orsakað alvarlega sjúkdóma svo sem heilahimnubólgu, barkabólgu, lungnabólgu, blóðsýkingu og liðbólgur auk annarra vægari sýkinga sem geta þó verið þrálátar s.s. sýkingu í efri loftvegum, kinnholum og eyrnabólgum. Alvarlegustu sýkingarnar af völdum bakteríunnar eru barkabólga, blóðsýkingar og heilahimnubólga sem getur verið lífshættuleg og er það einkum sú tegund sýkingar sem fjallað er um hér.

Einkenni

Einkenni heilahimnubólgu af völdum Hib svipar til einkenna heilahimnubólgu af völdum annarra baktería eða veira.

Helstu einkenni geta verið:

 • Hiti
 • Höfuðverkur
 • Ljósfælni
 • Stífleiki í hnakka
 • Liðverkir
 • Uppköst
 • Minnkuð meðvitund
 • Krampar 
 • Óróleika hjá ungum börnum og minnkuð matarlyst

Blóðsýkingar af völdum Hib geta komið fram á öllum aldri. Barkabólga er algengust í aldurshópnum 5 – 10 ára. 

Smitleiðir og meðgöngutími

Haemophilus influenzae baktería berst oftast á milli manna með úða frá öndunarfærum (t.d. hósta og hnerra). Einstaklingar sem bera bakteríuna getað smitað aðra þrátt fyrir að vera einkennalausir.

Greining

Bakterían er greind með sýni frá sýkingarstað. Mikilvægt er að greina sýkingu af völdum haemophilus influenzae b fljótt svo hægt sé að hefja meðferð sem fyrst.

Meðferð

Helsta meðferð við haemophilus influenzae eru sýklalyf. Önnur meðferð lítur að hvíld, vökvainntekt og næringu.

Forvarnir

Bóluefni gegn Haemophilus influenzae b hefur verið í notkun síðan á níunda áratug síðustu aldar. Börn eru bólusett við 3ja, 5 og 12 mánaða aldur og gefur bólusetningin um 95% vörn. 

Þátttaka á Íslandi í bólusetningu gegn þessum sjúkdómum hefur verið með ágætum á undanförnum árum eða tæplega 95%. Foreldrar eru hvattir til að halda áfram góðri þátttöku í bólusetningum því aðeins á þann hátt má halda þessum alvarlega smitsjúkdómi frá landinu. Hægt er að gefa einstaklingum sem útsettir eru fyrir smiti viðeigandi sýklalyf í forvarnarskyni.

Fyrirkomulag barnabólusetninga

Finna næstu heilsugæslustöð eða bráðamóttöku hér.

Bóluefni

Bólusetning gegn Hib bakteríu er hluti af barnabólusetningu.

Bóluefni gegn barnaveiki, kíghósta, stífkrampa, mænusótt og Hib bakteríu (e. Diphtheria, Pertussis, Tetanus, Poliomyelitis, Haemophilus influenzae) er í einni og sömu sprautunni.

Hvenær gefið: Bólusefnið heitir Pentavac og er gefið við þriggja, fimm og tólf mánaða aldur.

Örvunarbólusetning er fyrst gefin við 4 ára aldur með bóluefninu Booztrix og aftur við 14 ára aldur með bóluefninu Booztrix polio eða Repevax.

Ráðlagt er að fá örvunarbólusetningu með bóluefninu Booztrix polio eða Repevax á 10 ára fresti eftir 14 ára aldur. 

Frábendingar: Bóluefnið á aðeins að gefa í samráði við lækni eða hjúkrunarfræðing ef: 

 • Grunur um ofnæmi fyrir bóluefninu eða einhverju innihaldsefni þess t.d. glútaraldehýði, neomycíni, streptomycíni eða polyxímíni B
 • Hár hiti eða bráðan sjúkdóm (t.d. eymsli í hálsi, hósta, kvef eða flensu)
 • Fólk er í ónæmisbælandi meðferð
 • Fólk hefur áður fengið alvarlegar aukaverkanir af bólusetningu 
 • Fólk er með virkan heilasjúkdóm
 • Skert ónæmiskerfi
 • Blóðflagnafæð eða blæðingarsjúkdómur er til staðar

Aukaverkanir: Almennt vægar. Börn geta í einstaka tilfellum fengið hita og jafnvel útbrot einhverjum dögum eftir bólusetningu. Þá getur stungustaður verið aumur og jafnvel rauður og þrútinn í nokkra daga.

Ef grunur um alvarleg ofnæmisviðbrögð skal leita tafarlaust til læknis.