Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Meðgönguvernd

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Meðgönguvernd er barnshafandi konum/foreldrum að kostnaðarlausu. Hún er í höndum ljósmæðra og heimilislækna á heilsugæslustöðvum og samráð er haft við fæðingarlækna ef þörf er á.

Markmið með meðgönguvernd heilsugæslunnar er að:

  • Stuðla að heilbrigði móður og barns
  • Veita faglega umönnun, stuðning og ráðgjöf
  • Greina áhættuþætti og bregðast við þeim
  • Veita fræðslu um meðgöngu og fæðingu

Hver heilsugæslustöð sinnir þeim sem búsettir eru á þjónustusvæði stöðvarinnar, hafa heimilislækni á stöðinni og þeim sem óska eftir þjónustu stöðvarinnar.

Finna næstu heilsugæslu hér.

Víða eru námskeið í boði um undirbúning fæðingar og brjóstagjöf. Ljósmæður í mæðraverndinni veita nánari upplýsingar.

Skoðanir/viðtöl

Mælt er með að fyrsta skoðun/viðtal í mæðraverndinni fari fram við 8-12 vikna meðgöngu. Miðað er við að skoðanir séu um 10 hjá frumbyrju, en 7-10 hjá fjölbyrju. Venjubundin ómskoðun við 20 vikur er þá ekki talin með. Búast má við að fyrsta skoðun geti tekið allt að eina klukkustund. Aðrar skoðanir geta tekið 20-30 mínútur. Þarfir barnshafandi kvenna/verðandi foreldra eru metnar í fyrstu skoðun og endurmetnar í hverri skoðun.

Í hverri skoðun er rætt um almenna líðan og heilsufar, blóðþrýstingur er mældur og athugað er hvort prótein er í þvagi. Frá 16. viku er hlustað eftir hjartslætti fóstursins og frá 25. viku er fylgst með fósturvexti með að mæla hæð legbotn, frá lífbeini að legbotni. Við 36. viku er lega barnsins metin. 

Í meðgönguverndinni gefst tækifæri til umræðna og spurninga og veitt er fræðsla og ráðgjöf eins og við á hverju sinni, t.d. um mataræði, hreyfingu, skimanir á meðgöngu, fósturrannsóknir, þjónustu sem er í boði á meðgöngu, val á fæðingarstað, fæðinguna, bjargráð í fæðingu, fæðingarorlof, brjóstagjöf, sængurlegu og fleira.

Skimanir

Boðið er upp á fjölda skimana í mæðraverndinni. Tilgangur þessara skimana er að athuga hvort eitthvað komi í ljós sem gæti haft áhrif á heilsufar móður og barns á meðgöngunni.

Í upphafi meðgöngu er skimað er fyrir blóðleysi, lifrarbólgu B og C, HIVrauðum  hundum, sárasótt og rauðkornamótefnum. Einnig er skimað fyrir þvagfærasýkingu. Í ákveðnum tilfellum er skimað fyrir meðgöngusykursýki. Þessar skimanir eru gerðar með blóð- og þvagsýnatöku hjá móður.

Boðið er upp á ómskoðanir og aðrar fósturrannsóknir í samstarfi við Fósturgreiningardeild Landsspítalans eða aðrar stofnanir sem sjá um fósturómskoðanir. 

Í 16 vikna skoðun er gert ráð fyrir að skimað sé fyrir þunglyndi og kvíða.

Upplýsingar um réttindi í barneignarferli má finna hér