Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Farsæl brjóstagjöf

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Það er enginn fæddur með þá kunnáttu hvernig best er að leggja á brjóst, það krefst þjálfunar sem kemur fljótt á fyrstu vikunum. Rétt lagt á brjóst og rétt grip er mikilvægt. Bæði tryggir það næga mjólkurframleiðslu og kemur í veg fyrir vandamál. Brjóstamjólkin inniheldur öll þau næringarefni sem barnið þarfnast. Hún er fullkomin fæða fyrir barnið og aðlagast breyttum þörfum þess jafnóðum og barnið vex.  

Þegar brjóstagjöfin er komin vel á veg er hún auðveld og ánægjuleg fyrir flestar mæður, börn þeirra og fjölskylduna alla. Stuðningur þeirra sem standa móðurinni næst skiptir máli til að brjóstagjöfin verði árangursrík og ánægjuleg. Þar er makinn að sjálfsögðu í lykilhlutverki. 

Ef upp koma vandamál í tengslum við brjóstagjöfina er ýmis ráð að finna í kaflanum um brjóstagjafavandamál.

Makinn getur líka haft áhuga á brjóstagjöfinni og því að annast barnið sitt. Hann er að aðlagast nýju hlutverki og mynda tengsl við barnið. Barnið þarfnast samveru við báða foreldra.

Þegar barnatennur koma upp þarf að huga að tannhirðu. Næturgjafir eru brjóstabarni mikilvægar, sérstaklega fyrstu sex mánuðina og jafnvel lengur. Í kjölfar tanntöku er mikilvægt að bursta tennurnar vel áður en barnið fær síðustu gjöf fyrir nóttina og svo aftur strax að morgni þar sem flest brjóstabörn sofna út frá brjóstagjöf og yngri brjóstabörn drekka nokkrum sinnum yfir nóttina. Skán sem myndast á tannyfirborði þarf að hreinsa af þar sem munnvatnsframleiðsla er í lágmarki að nóttu til eykur það til muna hættu á tannskemmdum ef aðgát er ekki höfð varðandi tannhirðu barna. 

Hér getur þú lesið um getnaðarvarnir sem henta á meðan barn er á brjósti.

Kostir brjóstagjafar

Brjóstagjöf hefur marga kosti sem rétt er að benda á:

 • Með móðurmjólkinni fær barnið vörn gegn sumum sýkingum, t.d. bráðri eyrnabólgu, sýkingum í meltingarvegi og í neðri hluta öndunarfæra. 
 • Lengri brjóstagjöf eingöngu er verndandi fyrir offitu hjá börnum og unglingum.
 • Brjóstamjólkin er alltaf fersk og við rétt hitastig.
 • Næturgjöfin er auðveldari og það þarf ekki að fara fram úr um miðjar nætur til að hita mjólk.
 • Brjóstagjöfinni fylgir enginn þvottur eða sótthreinsun pela og hún kostar ekki peninga.
 • Þegar byrjunarörðugleikar eru úr sögunni er brjóstagjöfin yfirleitt notaleg samverustund fyrir móður og barn. 
Að leggja barn á brjóst

Þegar barn er lagt á brjóst er mikilvægt að vel fari um móður, að hún hafi stuðning við bakið og oft er gott að hafa púða undir handleggnum og vatnsglas við höndina. 

Barnið þarf að koma beint að móður, með magann að maga móðurinnar, og þétt upp að brjóstinu svo geirvartan snúi beint að munni barnsins. Rétt staða barnsins við brjósti er afar mikilvæg m.a. til að barnið nái góðu og réttu taki á geirvörtunni. Þannig nær það vel að sjúga nægju sína, en það örvar mjólkurmyndun.

Gæta þarf þess að hendur barns séu frjálsar. 

Margar mæður finna fyrir eymslum í byrjun brjóstagjafar en ef þær finna fyrir sársauka eftir að mjólkin er farin að streyma þá er það yfirleitt merki um að barnið grípi brjóstið ekki rétt.

Merki um svengd

Fyrsta mánuðinn er best að láta barnið ráða ferðinni og drekka eins oft og það vill, að minnsta kosti átta sinnum á sólarhring, eða eins oft og þörf er á. Því oftar sem barnið er lagt á brjóstið þeim mun meiri mjólk myndast. Þegar mjólkin er lítil er um að gera að leggja barnið oftar á brjóstið til að örva mjólkurframleiðsluna. Ef barnið þyngist eðlilega og vætir sex til átta bleiur á dag er það að fá nóg. 

Mikilvægt er að lesa í tjáningu ungbarns en ungbörn hafa sitt eigið merkjamál til að tjá þarfir sínar og líðan. 

Handmjólkun

Móðir þarf að gefa sér góðan tíma þegar hún handmjólkar brjóstin, láta fara vel um sig og slaka á. Hendur þurfa að vera hreinar og heitar.

Brjóstið er nuddað til að örva losunarviðbragðið. Móðir nuddar varlega í átt að geirvörtunni með hringlaga hreyfingum eða með því að strjúka með flatri hendi í átt að geirvörtu. Hægt er að handmjólka bæði brjóstin í einu. 

Góð ráð við handmjólkun:

 • Leggðu þumalfingur yfir brjóstið fyrir ofan brúna svæði geirvörtunnar og vísifingur undir. Fingurnir mynda stafinn C.
 • Þrýstu fingrunum fyrst inn að brjóstkassa og kreistu þumalfingur og vísifingur varlega saman.
 • Losaðu þrýstinginn og endurtaktu. Kreistu og slepptu til skiptis.
 • Gott er að finna takt sem líkir eftir sogtakti barnsins. 
 • Færðu fingurna til þegar mjólkin hættir að renna svo öll mjólkurhólfin tæmist.
 • Handmjólkaðu brjóstin í 3-5 mínútur til skiptis þar til lítil eða engin mjólk kemur. Gerðu ráð fyrir 20-30 mínútum í allt.

Hér má sjá myndband af handmjólkun.

Ráð til að örva mjólkurframleiðslu

Ef móðir leggur barnið sitt á brjóst í hvert sinn sem það virðist vera svangt mun mjólkurframleiðslan verða nægileg og mæta næringarþörfum þess. Það er ekkert óeðlilegt að sum ungbörn vilji fara á brjóst mjög ört.

Öll ábót, hvort sem er vatn, sykurvatn eða þurrmjólk, getur truflað viðkvæmt ferli brjóstagjafar. Þegar brjóstagjöfin er komin vel í gang og barnið nær að sjúga brjóstið vel er í lagi að byrja að nota snuð. 

Nokkur ráð til að örva mjólkurframleiðslu:

Auka tíðni brjóstagjafar

 • Bjóða bæði brjóstin í hverri gjöf. Gefa brjóst á 1 1/2 - 2 klst fresti yfir daginn og á 3 klst fresti á nóttunni, á meðan verið er að ná upp framleiðslu. Næturgjafirnar eru mikilvægar.
 • Tæma brjóstin eins vel og hægt er í hverri gjöf. Þegar brjóstin tæmast verður mjólkurframleiðslan hraðari.
 • Minnka/forðast snuðnotkun meðan verið er að örva mjólkurframleiðslu. 

Móðir þarf að hugsa vel um sig

 • Borða og drekka vel.
 • Hvíld og slökun, forðast streitu

Kengúrumeðferð

 • Húð við húð snerting. Barnið er lagt bert en í bleiu á bringu foreldris.

Handmjólkað upp í barn

 • Notað til að fá fram flæði þegar barn er hætt að drekka sjálft. Þumallinn er hafður efst á brjósti en hinir fingurnir undir, langt frá geirvörtu. Brjóstið er kreist hægt og rólega og þrýstingi er haldið þar til barnið hættir að drekka. Þá er takinu sleppt hægt og rólega

Brjóstanudd

 • Notað til að örva mjólkurframleiðslu, auka blóðflæði og minnka einkenni stálma. Brjóstin eru nudduð með því að pressa þau saman. Nuddað er undir brjóstunum eða gerðar hringlaga hreyfingar með báðum höndum á sama brjósti.

Mjólkun

 • Handmjólka eða pumpa eftir gjöf eða milli gjafa. Mjólka aðeins lengur eftir að rennsli stöðvast.

Ljósmóðir í síma 513-1700 alla virka daga milli 10-12