Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Brjóstagjafavandamál

Kaflar
Útgáfudagur

Ef barnið tekur ekki brjóstið rétt eða það er ekki lagt nógu oft á brjóst geta komið upp vandamál s.s. sárar geirvörtur, stálmi og stíflaðir mjólkurgangar. Oftast er fljótlegt að leysa málið ef snemma er gripið í taumana. 

Ef vandamál koma upp er gott að leita ráða hjá starfsfólki ung- og smábarnaverndar eða hjá brjóstagjafaráðgjöfum. Beiðni um brjóstagjafaráðgjöf þarf að fylla út af ljósmóður, lækni eða hjúkrunarfræðingi. 

Finna næstu heilsugæslu.

Sárar geirvörtur

Sárar geirvörtur geta valdið miklum óþægindum við brjóstagjöfina. Ef barnið nær ekki að setja geirvörtuna nógu vel eða rétt inn í munninn er hætta á því að sár myndist. Því er þýðingarmikið að læra réttar aðferðir við að leggja barnið á brjóst til að minnka líkurnar á þessu vandamáli. 

Ef geirvörturnar eru aumar eða sár hafa myndast hjálpar að laga stöðu barnsins við brjóstið. 

Gott er að leggja barnið fyrst á brjóstið sem er betra. Einnig er mælt með því að leggja barnið á brjóst þegar það er rólegt en ekki æst og grátandi. Gott getur verið að bleyta geirvörtuna vel með vatni áður en barnið grípur hana. 

Hreinlæti er mikilvægt. Geirvörturnar eru þvegnar með volgu vatni fyrir og eftir gjöf. Látið lofta um þær um stund. Handþvottur er mjög mikilvægur.

Nota má rakagel (hydrogel) á geirvörtur til að auðvelda sárinu að gróa. Sár sem ekki grær á viku gæti verið sýkt og þarfnast meðferðar. 

Stíflaðir mjólkurgangar

Til að forðast stíflur og bólgur í brjóstunum er mikilvægt að móðirin láti sér ekki vera kalt, gangi ekki í fötum sem þrengja að brjóstunum og láti barnið drekka vel í hverri gjöf. Gott er að reyna að forðast álag og streitu og fá næga hvíld. 

Aumir þrymlar finnast í brjósti og svæði á brjóstinu geta verið rauð og aum. Venjulega eru þessi einkenni bara í öðru brjóstinu. Líkamshiti getur hækkað hratt og flensulík einkenni komið eins og beinverkir, höfuðverkur og slappleiki. 

Lausnir: 

 • Hvíld. Mikilvægt að leggja sig á daginn.
 • Reglulegt gjafamynstur. Ekki sleppa næturgjöfum.
 • Gott getur verið að breyta um stellingu barns á brjóstinu.
 • Leggja barnið oft á brjóst og láta barnið drekka jafnvel tvær gjafir í röð á því brjósti þar sem stíflan er.
 • Forðast þrönga brjóstahaldara og þröng föt. 
 • Ef einnota brjóstainnlegg eru notuð er gott að láta lofta vel um brjóstin á milli og skipta oft um innlegg. Einnig eru til innlegg úr ull og efni sem má þvo. 
 • Setja heita bakstra á brjóstið í 1-3 mínútur stuttu fyrir gjöf og kalda bakstra í 5-10 mínútur eftir gjöf.
 • Handmjólkun.
 • Verkjalyf.

Það tekur yfirleitt um einn sólarhring að vinna á stíflu. Stíflur í mjólkurgöngum þurfa ekki að leiða til sýkingar ef þær eru meðhöndlaðar á þessu stigi. 

Brjóstabólga með sýkingu

Viðkvæm eða sársaukafull rauð, glansandi svæði á brjóstum. Það getur fundist þrymill. Stundum er allt brjóstið rautt og þrútið. 

Oft fylgist hækkaður líkamshiti meira en 38,5°C og flensulík einkenni eins og beinverkir og skjálfti.

Ef flensulík einkenni eru til staðar og hækkaður hiti sem lagast ekki á 12-24 klst þá getur verið þörf á sýklalyfjameðferð. Það tekur yfirleitt um einn til tvo sólarhringa fyrir lyfin að verka og einkennin að dvína. 

Lausnir:

 • Hvíld og rúmlega með barninu.
 • Sýklalyfjameðferð og verkjalyf.
 • Leggja barn reglulega á brjóst.
 • Strjúka létt yfir sýkta svæðið á meðan barnið drekkur. 
 • Setja heita bakstra á brjóstið stuttu fyrir gjöf og kalda bakstra eftir gjöf.
 • Handmjólkun eða mjólkun í mjaltavél, en best er að barnið drekki sem mest sjálft.
Sveppasýking

Einkenni hjá móður:

 • Kláði, pirringur og húðflögnun á vörtubaug.
 • Eymsli og sársauki í byrjun gjafar, getur verið skerandi.
 • Fíngerðar sprungur á mótum vörtu og vörtubaugs.
 • Húðin útfrá geirvörtu verður rauð og bleik.

Lausnir:

 • Vinna þarf á móti kjöraðstæðum sveppavaxtar (raka, hita, myrkri).
 • Láta lofta um brjóstin - vera berbrjósta ef mögulegt er.
 • Skipta ört um innlegg (fjölnota eða einnota).
 • Þvo og þurrka geirvörtur eftir gjafir.
 • Handþvottur er mjög mikilvægur (sérstaklega við bleiuskipti/brjóstagjöf). 
 • Forðast bað með öðrum í fjölskyldunni.
 • Fatnaður sem kemst í snertingu við sýkt svæði þveginn daglega (60 °C) svo sem brjóstahaldarar og handklæði. 
 • Nota smokka við samfarir.
 • Lyf.

Einkenni hjá barni:

 • Hvít skán á tungu sem hverfur ekki milli gjafa.
 • Hvítir kringlóttir blettir sjást oft innan á kinnum, vörum eða á tanngómum.
 • Rauð útbrot á bleiusvæði.

Lausnir:

 • Sjóða eftir hverja notkun í 20 mínútur túttur, snuð, mexíkanahatta, mjaltavélahluta og annað sem kemst í snertingu við munn barns. 
 • Gott er að sleppa snuði á meðan sýkingin varir.
 • Túttum er skipt út vikulega, ef barn fær ábót með pela.
 • Nota má edikblöndu (1 bolla vatn + 1 msk. edik) til að strjúka af flötum sem barnið snertir mikið, s.s. leikföng, skiptiborð.
 • Ef einkenni eru væg má byrja með að þvo tungu og innan út kinnum barns með sódavatni tvisvar á dag í 2-3 daga (nota til dæmis svamppinna).
 • Lyf.