Rauðir hundar (e. Rubella) er veirusjúkdómur sem veldur oftast vægum einkennum hjá börnum en getur lagst þyngra á fullorðna. Í stöku tilfellum getur þessi veirusýking valdið liðbólgum og heilabólgu hjá heilbrigðum einstaklingum. Veikist kona af rauðum hundum á meðgöngu er hætta á alvarlegum fósturskaða einkum ef það gerist á fyrstu þrem mánuðum meðgöngunnar. Fósturskaði getur verið heyrnarskerðing, blinda, vansköpun, hjartagalli, vaxtarskerðing og jafnvel fósturlát.
Einkenni
Einkenni geta verið mismunandi eftir einstaklingum en algengustu einkennin:
- Rauð eða brúnleit útbrot sem byrja oft í kringum eyrun eða í andliti en breiðast síðan fljótt út um líkamann og geta nánast orðið að einni samfelldri hellu
- Vægur hiti
- Stækkaðir eitlar á hálsi
- Höfuðverkur
Einkennin ganga vanalega til baka á u.þ.b. þremur dögum. Þessi einkenni geta svipað til annarra veirusjúkdóma eins og mislinga og hlaupabólu. Dæmi eru um að sjúkdómseinkenni geta verið svo væg að viðkomandi verður þeirra ekki var.
Smitleiðir og meðgöngutími
Sjúkdómurinn berst með andrúmsloftinu (úðasmiti) á milli manna og geta liðið tvær til þrjár vikur þar til sjúkdómseinkenni koma fram. Sjúkdómurinn er mest smitandi þegar hann hefur náð hámarki en einnig er hann smitandi vikuna áður en útbrot koma fram og vikuna eftir að þau hverfa.
Greining
Hægt er að skera úr um hvort um rauða hunda er að ræða með því að taka strok frá hálsi eða með blóðsýni þar sem leitað er mótefna.
Meðferð
Engin sérstök meðferð er við sjúkdómnum önnur en sú að fólki er ráðlagt að hafa hægt um sig meðan sjúkdómurinn gengur yfir. Allir í nánasta umhverfi þess sem veikur er eru í smithættu hafi þeir ekki verið bólusettir gegn rauðum hundum eða fengið sjúkdóminn.
MMR bóluefnið gefur góða vörn gegn rauðum hundum.
Bólusetning gegn rauðum hundum hófst hér á landi árið 1977 hjá konum á barnseignaraldri sem ekki höfðu mótefni gegn veirunni en því fyrirkomulagi var hætt árið 2001.
Almenn bólusetning allra 18 mánaða barna hófst árið 1989 með MMR bóluefni. Endurbólusetning hófst síðan hjá 9 ára börnum árið 1997 en árið 2001 var aldur endurbólusetningar hækkaður í 12 ár.
Nafn á bóluefni: MMR-VaxPro. Bóluefni gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum (e. Measles, Mumps and Rubella, MMR) er í einni og sömu sprautunni.
Hvenær gefið: Bólusetja þarf tvisvar sinnum. Fyrri bólusetningin er gerð þegar barn er 18 mánaða gamalt en sú síðari við 12 ára aldur.
Virkni bóluefnis: Bóluefnið veitir mjög góða vörn gegn þessum sjúkdómum eftir tvær bólusetningar. Ekki er talin þörf á örvunarskammti síðar á ævinni.
Frábendingar: Bóluefnið á ekki að gefa í eftirfarandi tilfellum nema í samráði við lækni eða hjúkrunarfræðing:
- Grunur um ofnæmi fyrir bóluefninu eða einhverju innihaldsefni bóluefnis t.d.neómýcíni eða sorbitóli
- Hiti er yfir 38.5 °C
- Fólki með ofnæmi fyrir eggjum
- Fólki með virka ómeðhöndlaða berkla (TB)
- Fólki með skert ónæmiskerfi
- Fólki með ákveðna blóð- eða ónæmissjúkdóma
- Fólki með krabbamein/í krabbameinsmeðferð
- Fólki í lyfjameðferð t.d. á stera- eða ónæmisbælandi lyfjum
- Þunguðum konum eða konum með börn á brjósti.
Mæld eru mótefni gegn rauðum hundum á meðgöngu. Ef mótefni mælast ekki er ráðlagt að fá bólusetningu eftir fæðingu barnsins. Talið er fóstur geti skaðast sýkist móðurin á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Stúlkur sem bólusettar eru gegn rauðum hundum ættu að forðast að verða þungaðar á næstu þrem mánuðum á eftir.
Aukaverkanir: Almennt vægar. Börn geta í einstaka tilfellum fengið hita og jafnvel útbrot einhverjum dögum eftir bólusetningu. Þá getur stungustaður verið aumur og jafnvel rauður og þrútinn í nokkra daga.
Ef grunur um alvarleg ofnæmisviðbrögð skal leita tafarlaust til læknis.
Í mörgum löndum eru börn bólusett yngri fyrir þessum sjúkdómum en hér er gert. Ástæðan er sú að þar er notað annað bóluefni.