Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Sykursýki á meðgöngu

Kaflar
Útgáfudagur

Meðgöngusykursýki (e. gestational diabetes, GDM) er sykursýki sem greinist fyrst á meðgöngu.

Sykursýki er efnaskiptasjúkdómur sem einkennist af of háum blóðsykri sem stafar annað hvort af of litlu magni insúlíns í blóði eða af óeðlilegri virkni insúlíns í vefjum. Insúlín er hormón sem er framleitt í brisi.

Þegar kona er með meðgöngusykursýki framleiðir líkaminn ekki nóg af insúlíni til að mæta aukinni insúlínþörf á meðgöngu eða líkaminn nýtir ekki það insúlín sem er til staðar.

Meðgöngusykursýki skiptist í tvo flokka:
GDMA1: Þar sem breyting á mataræði og hreyfing dugar til að halda blóðsykri í viðunandi horfi.
GDMA2: Sem krefst lyfjameðferðar.

Áhrif á móður og barn

Sykur og önnur næringarefni flytjast til fóstursins um fylgjuna. Ef meðgöngusykursýki er ógreind og/eða ómeðhöndluð vex barnið óeðlilega mikið vegna of mikils framboðs af sykri og öðrum næringarefnum.

Eftir fæðinguna getur blóðsykur barnsins lækkað hratt. Slök blóðsykurstjórnun getur auk þess leitt til ýmissa sjúkdóma í nýburum. Lungnaþroski barna er verri og eru börnin þá í aukinni hættu að fá sýkingar.

Verðandi mæður sem fá meðferð við meðgöngusykursýki fá síður meðgöngueitrun og meðgönguháþrýsting en konur með ómeðhöndlaða meðgöngusykursýki. Börn þeirra fá síður axlarklemmu og tíðni fæðinga með keisaraskurði er lægri en meðal ómeðhöndlaðra.

Skimun

Í fyrstu skoðun hjá mæðravernd er metið hvort áhættuþættir eru til staðar og í framhaldinu mældur fastandi blóðsykur.

Finna næstu heilsugæslustöð hér.

Áhættuþættir

• Aldur móður er hærri 40 ára 
• Líkamsþyngdarstuðull hærri en 30
• Meðgöngusykursýki í fyrri meðgöngu
• Ef kona hefur áður fætt barn þyngra en 4500 grömm
• Skert sykurþol fyrir þungun
• Ef annað foreldri eða systkini er með sykursýki
• Konur af öðrum kynþætti en hvítum

Greining

Niðurstöður mælinga

Fastandi blóðsykur er 5 mmól/L eða minna. Niðurstöður blóðsykurmælingar eru innan marka og mælt með sykurþolsprófi við 24-28 vikur.
Fastandi blóðsykur er á bilinu 5,1 – 6,9 mmól/L. Greining meðgöngusykursýki.
Fastandi blóðsykur 7 mmól/L eða hærri. Greining meðgöngusykursýki eða sykursýki týpa 2.  

Hér er að finna ýtarlegt efni um greiningu og meðferð meðgöngusykursýki.

Sykurþolspróf

Prófið er framkvæmt að morgni eftir a.m.k. 10 tíma föstu. Mældur er fastandi blóðsykur og síðan blóðsykur eftir 1 og 2 klukkustundir, eftir að konan hefur drukkið sykurblöndu. Sykurgildið er mælt í blóði.
Ef eitt gildi er yfir mörkum þá greinist meðgöngusykursýki.

Meðgöngusykursýki er greind samkvæmt sykurþolsprófi ef:
• Fastandi gildi er 5,1 mmol/L eða hærra
• 60 mín gildi er 10,0 mmol/L eða hærra
• 120 mín gildi er 8,5 mmol/L eða hærra

Meðferð

Fyrsta meðferð við meðgöngusykursýki er fólgin í góðri næringarinntöku og líkamlegri hreyfingu.
Dugi það ekki til getur verið þörf á töflumeðferð eða insúlínmeðferð á meðgöngu.

  • Konur með meðgöngusykursýki sem er meðhöndluð með breytingu á mataræði og aukinni hreyfingu (GDMA1) eru í eftirliti í heilsugæslu, hjá ljósmóður og heilsugæslulækni.
  • Konur með meðgöngusykursýki sem þarfnast lyfjameðferðar (GDMA2) er vísað í áhættumæðravernd LSH þar sem áætlun er gerð um meðferð og eftirlit í samvinnu við Göngudeild sykursjúkra á Landspítala.