MS sjúkdómur (e. multiple sclerosis) er langvinnur sjúkdómur í miðtaugakerfinu þar sem truflun verður á taugaboðum á milli heila og líkama. Einkenni eru breytileg milli einstaklinga. MS sjúkdómur er ekki smitandi.
Mýelín er einangrun utan um taugar líkamans og gerir þeim kleift að bera boð hratt og örugglega á milli staða. Í MS sjúkdómi verður bólga í miðtaugakerfinu og ónæmiskerfið skemmir mýelínið. Þá hægist á boðum eða boðleiðir rofna. Á skemmdarstaðnum geta myndast blettir sem kallast örvefir sem geta skilð eftir sig langvarandi einkenni. Þessir blettir geta oft sést með segulómun/MRI rannsókn.
Einkenni velta á því hvar bólgan er og hversu mikil hún er. Þess vegna eru einkenni ólík milli fólks og geta breyst með tímanum. Sumir fá væg einkenni af og til á meðan aðrir finna mikið fyrir sjúkdómnum og þurfa reglulegt eftirlit og stuðning. Sjúkdómurinn getur greinst á hvaða aldri sem er, en flestir greinast á aldrinum 20-40 ára.
Flestir geta haldið lífi sínu óbreyttu eftir greiningu.
Einkenni
Fyrstu einkenni:
- Doði, náladofi eða skyntruflun í einum eða fleiri útlimum
- Kraftminnkun eða vöðvaveikleiki í einum eða fleiri útlimum
- Hugræn einkenni (minnisskerðing, erfiðleikar með athygli og framkvæmdarstjórn)
- Hægðatregða - hjá fullorðnum - hjá börnum
- Kynlífsraskanir, þar á meðal leggangaþurrkur eða stinningarvandi
- Jafnvægistruflanir og truflun á samhæfingu hreyfinga (e. ataxia)
- Skert sjón og minnkuð litasjón (oftast í einu auga í senn)
- Sundl og svimi
- Tvísýni
- Vöðvakrampar, spasmar og vöðvastífleiki
- Þvagvandamál (tíð eða bráð þörf til að pissa eða þvagleki)
Önnur einkenni:
- Breyting á persónleika
- Erfiðleikar með tal
- Flogaköst
- Lömun í einum eða fleiri útlimum
- Sársaukafull skyntruflun (e. dysesthesia)
- Taugaverkir
- Þreyta (getur verið yfirþyrmandi)
Einkenni geta versnað tímabundið í hita, við sýkingu eða mikla þreytu og batna þegar líkaminn nær jafnvægi aftur. Tímabundin versnun er ekki endilega nýtt kast.
Þessi einkenni eru algeng og geta stafað af mörgum mismunandi sjúkdómum eða kvillum.
Þessi listi er ekki tæmandi.
Birtingamynd MS sjúkdóms:
Það eru þrjár megingerðir af MS sjúkdómi. Þær hafa mismunandi áhrif á fólk.
MS í köstum (e. Relapsing remitting MS):
Algengasta byrjunarformið. Köst eru ný einkenni eða versnun eldri einkenna sem þróast á klukkustundum til daga og vara oft í daga til vikur (a.m.k. 24klst). Eftir kast ganga einkenni oft til baka að hluta eða öllu leyti og batatímabil er á milli kasta.
Síðkomin versnun MS (e. Secondary progressive MS):
Einkenni eru stöðugt til staðar og versna smám saman. Getur komið í kjölfar MS í köstum.
Stöðug versnun MS (e. Primary progressive MS):
Einkenni aukast smám saman yfir mánuði eða ár, oft án kasta. Sumir upplifa þó einnig köst sem tímabundna versnun á einkennum. Þessi sjúkdómsmynd er sjaldgjæfari en hinar tvær fyrir ofan.
Orsaskir
Orsök MS sjúkdóms er ekki þekkt. Líklegt er samspil erfða og umhverfis. MS sjúkdómur er ekki arfgengur sjúkdómur.
Mögulegir áhættuþættir á MS sjúkdómi:
- Fólk á aldrinum 20-50 ára
- Fólk sem hefur greinst með einkirningasótt
- Kvenkyn
- Reykingar og nikótín notkun
- Ef bróðir, systir eða foreldri hefur greinst með MS sjúkdóm
Greining
Greining MS sjúkdóms fer fram hjá taugalækni. Markmiðið er að sýna fram á einkenni frá fleiri en einum stað, á fleirum en einu tímabili og útiloka aðrar skýringar.
Dæmi um rannsóknir:
- Sjúkrasaga
- Taugaskoðun
- Segulómun (MRI) af heila og/eða mænu
- Mænuvökvarannsókn (mænuástunga)
- Blóðprufur
Meðferð
Engin lækning er við MS sjúkdómi en nútímameðferð getur dregið úr bólgum og hægt á framvindu sjúkdómsins. Meðferð er einstaklingsbundin og fer til dæmis eftir einkennum, aldri, stigi sjúkdómsins og líkamlegri virkni.
Dæmi um meðferð:
- Lyfjameðferð: Hægir á framvindu sjúkdóms og minnkar köst.
- Meðferð við köstum: Yfirleitt barksterar í styttri tíma
- Einkennameðferð: Meðferð við verkjum, spösmum, stífleika, þvag- og hægðarvandamálum og öðrum daglegum vandamálum
Meðferð getur breyst með tíma og þörfum
Önnur gagnleg meðferð:
- Hugræn atferlismeðferð
- Kynlífsráðgjöf
- Sjúkraþjálfun
Hvað get ég gert?
- Stunda reglulega hreyfingu: Ganga, sund eða hjól. Styrktar- og teygjuæfingar tvisvar í viku
- Skipuleggja daginn: Forgangsraða verkefnum, taka stuttar hvíldir og spara orku
- Fá nægan svefn
- Borða næringarrík fæðu.
- Draga úr reykingum og/eða nikótíni. Minnka áfengisnotkun
- Andleg líðan: Leita stuðnings ef kvíði, þunglyndi eða álag sem hefur áhrif á daglegt líf. Draga úr streitu
- Taka lyf samkvæmt fyrirmælum læknis
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leita til heilsugæslu ef:
- Ný einkenni vara lengur en 24-48 klst
- Eldri einkenni versna eða trufla daglegt líf
- Grunur um sýkingu og MS-einkenni versna
- Aukaverkanir lyfja koma fram eða þörf er á endurmati á lyfjum
- Þungun er í undirbúningi eða þú ert barnshafandi og þarfnast lyfjaráðgjafar
- Þörf er á endurhæfingu eða mati á hjálpartækjum
Leita til bráðamóttöku ef:
- Skyndilegt og mikið máttleysi eða lömun í andliti, handlegg eða fæti
- Skyndileg sjónskerðing eða sjónmissir í einu eða báðum augum
- Mikill svimi eða jafnvægisvandi þannig að erfitt er að ganga eða standa
- Yfirþyrmandi höfuðverkur
- Erfiðleikar við tal, þvoglumæli
- Breytt meðvitund
- Hár hiti, mikill slappleiki, sérstaklega ef tekin eru ónæmisbælandi lyf
- Einkenni sem líkjast heilablóðfalli
Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku