Covid-19

Covid-19 er veirusjúkdómur sem SARS-CoV-2 veiran veldur. Þessi veira sem virðist eiga uppruna sinn í Wuhan borg í Kína, barst fyrst í menn úr dýrum en fór svo að berast manna á milli sennilega í lok árs 2019. SARS-CoV-2 veiran er úr fjölskyldu svokallaðra kórónaveira sem eru algengar kvefveirur. Ekki er til bólusetning gegn SARS-CoV-2 veirunni.

Í 80% tilvika eru veikindi ekki alvarleg en um 20% þeirra sem veikjast fá alvarlegri einkenni oftast á 4. til 8. degi veikinda. Þá getur fólk fengið lungnabólgu með öndunarerfiðleikum sem þurft getur að meðhöndla á sjúkrahúsi.

Börn virðast veikjast vægt af SARS-CoV-2 veirunni.

​Hér er að finna fræðsluefni fyrir börn um sjúkdóminn.

Áhættuþættir fyrir alvarleg veikindi

Covid-19 fer ekki í manngreinaálit og allir virðast í sömu hættu á að smitast.

Sumir eru í meiri hættu á að veikjast alvarlega en aðrir. Ljóst er að aldurinn er stærsti þátturinn. Þeir sem eru 60 ára og eldri eru í aukinni áhættu á að fá alvarleg einkenni. Hættan vex með hækkandi aldri. Auk þess telja menn að eftirfarandi sjúkdómar valdi aukinni hættu á alvarlegum veikindum af völdum covid-19:

 • Hár blóðþrýstingur
 • Hjartasjúkdómar
 • Sykursýki
 • Langvinn lungnateppa
 • Langvinn nýrnabilun
 • Krabbamein

Ef einhver þessara þátta á við þarf fólk að grípa til ráðstafana til að verja sig, þegar covid-19 verður orðið útbreitt í samfélaginu. 

 • Gæta vel að sóttvörnum. Þvo hendur oft og vel
 • Nota spritt á hendur þegar vönduðum handþvotti verður ekki komið við
 • Halda sig heima við, fresta öllum ónauðsynlegum heimsóknum
 • Forðast að fara á vinnustaðinn nema hann sér fámennur og smitvarna sé gætt þar
 • Forðast verslunarferðir

Nánari leiðbeiningar fyrir fólk sem er í áhættuhópum á vef Embættis landlæknis.

Einkenni

Helstu einkenni Covid-19 sjúkdómsins eru:

 • Hósti
 • Hiti
 • Bein- og vöðvaverkir
 • Þreyta og slappleiki

Greining

Til þess að ganga úr skugga um hvort um SARS-CoV-2 veiruna er að ræða þarf að taka strok úr nefi og hálsi þess sem hefur einkenni. Til þess að spara tíma, sóttvarnabúnað og draga úr smithættu eru þessi sýni tekin í bíl viðkomandi fyrir utan heilsugæslustöðvar eða í vitjunum heima hjá þeim sem ekki komast á heilsugæslustöð. Fólk kemur þá á umsömdum tíma og heilbrigðisstarfsmaður kemur út og tekur strokið í gegnum bílglugga. Ekki er hægt að greina smit í einkennalausum einstaklingi.

Greining og meðhöndlun er fólki að kostnaðarlausu þar sem um skráningarskyldan sjúkdóm er að ræða.

Hverjir geta fengið sýnatöku?

Einstaklingar með hita yfir 38,5°C, hósta og beinverki sem:

 • Koma frá áhættusvæðum
 • Eru í sóttkví
 • Eru í áhættuhópi sem er í aukinni áhættu fyrir alvarlegar sýkingar.
 • Heilbrigðisstarfsmenn sem sinna viðkvæmri þjónustu

Hvað á að vera lengi heima?

 • Fólk í sóttkví er 14 daga heima.
 • Ef fólk fær einkenni í sóttkví – þá heima í 2 vikur frá byrjun einkenna – eða a.m.k. eina viku eftir að einkenni hverfa.
 • Eingöngu sóttvarnarlæknir getur útskrifað úr sóttkví innan 2ja vikna – Neikvætt sýni í sóttkví fellir sóttkví ekki úr gildi.
  Aðrir sem eru ekki með staðfest smit en eru veikir: Vera heima í 2 daga eftir að einkenni hverfa.

Hvað get ég gert?

Til að hefta útbreiðslu veirunnar eins og kostur er hefur verið gripið til þess að setja fólk sem kemur til landsins eða hefur verið í tengslum við smitaðan einstakling í sóttkví, oftast á heimili sínu. Mikilvægt er að fara eftir ráðleggingum sóttvarnalæknis um sóttkví.

Það er til mikils að vinna að hefta útbreiðsluna þannig að ekki séu of margir veikir á sama tíma. Verkefnið verður viðráðanlegra ef við náum að hefta útbreiðsluna.

Þau sem veikjast af kvefi og öðrum öndunarfærapestum en eru ekki í áhættuhópi vegna SARS-CoV-2 veirunnar ættu að halda sig heima þar til þau hafa verið einkennalaus í tvo daga, til þess að smita ekki aðra.

Veikist fólk sem hefur grun um að það geti mögulega hafa smitast af SARS-CoV-2 á það að halda sig heima. Fara eftir leiðbeiningum um einangrun í heimahúsi og hringja í heilsugæsluna sína á opnunartíma. Ef um alvarleg einkenni er að ræða þarf strax að hafa samband við heilsugæslu eða í síma 1700 utan opnunartíma. Ekki fara á heilsugæsluna án þess að hringja.

Á þjónustuvefsjá Heilsuveru má finna upplýsingar um símanúmer og opnunartíma allra heilsugæslustöðva landsins á íslensku ensku og pólsku.

+ - Ráð heima

Þau sem greind eru með covid-19 eru sett í einangrun á heimili sínu og þeim ber að fara eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis um einangrun í heimahúsum.
Gæta þarf að eftirfarandi:

 • Hvílast
 • Drekka vel
 • Hreinlæti og sér í lagi handþvotti
 • Nota má paracetamol við vekjum og til að lækka hita ef þörf er á.

Ef þörf er á læknishjálp er það Landspítalinn sem hafa á samband við.

+ - Leitaðu til heilsugæslunnar

Ef einkenni versna eða vart verður við öndunarerfiðleika.

Öll sem hafa grun um að þau gætu verið með covid-19 eiga að hringja í heilsugæsluna sína á opnunartíma og fara eftir leiðbeiningum um einangrun í heimahúsum þar til gengið hefur verið úr skugga um hvort um SARS-CoV-2 smit er að ræða.

Einnig hægt að fá ráðleggingar hér á netspjallinu.

+ - Leitaðu til bráðamóttöku

Við alvarleg hratt versnandi einkenni og öndunarerfiðleika þarf að hringja í Landspitala í uppgefið númer eða 112 í neyð.

Smitleiðir og forvarnir

Covid-19 smitast með snertismiti eða dropasmiti. Þetta merkir í flestum tilvikum að sá sem smitast ber veiruna með eigin höndum í augu, nef eða munn og smitar þannig sjálfan sig. Oftast gerist þetta með því að hendurnar snerta smitaðan yfirborðshlut eins og hurðarhún, snertiskjái eða hluti sem margir snerta og svo fer fólk með hendurnar að andlitinu eða grípur eitthvað með fingrum og setur í munn sér.

Góð handhreinsun er mikilvægasta ráðið fyrir heilbrigða til að forðast smit. Handþvottur með vatni og sápu er æskilegastur ef hendur eru óhreinar, en hendur sem virðast hreinar en hafa komið við sameiginlega snertifleti s.s. hurðahúna, eða tekið við hlutum úr annarra höndum s.s. peningum eða greiðslukortum má hreinsa með handspritti.

Rétt er að forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með almenn kvefeinkenni, hnerra eða hósta.

Grímur nýtast best þegar þeir sem eru veikir nota þær en einnig þegar náið samneyti er óhjákvæmilegt, s.s. fyrir heilbrigðisstarfsmenn eða viðbragðsaðila í samfélaginu þegar þeir hlúa að veikum.

Við þrif eftir aðra, s.s. í veitingasölum eða á almenningssalernum ætti að nota einnota hanska en mikilvægt er að taka af sér hanska þegar slíkum verkum er lokið og þvo vel hendur. 

Sjá nánar á vefnum covid.is

Þessi grein var skrifuð þann 03. mars 2020

Síðast uppfært 23. mars 2020