Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Skaðleg áhrif áfengis

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Áfengi er sljóvgandi vímuefni sem hefur áhrif á miðtaugakerfið líkt og önnur vímuefni. Ýmsar aukakvillar fylgja neyslu áfengis bæði líkamleg áhrif á þann sem neytir þess en ekki síður áhrif á fjölskyldu, vini og samfélagið í heild.

Bannað er að selja áfengi fólki undir 20 ára aldri vegna þess hversu skaðleg áhrif þess eru á þann aldurshóp. 

  • Því yngra sem fólk er þegar það byrjar að neyta áfengis því líklegra er það til að misnota áfengi síðar á ævinni.
  • Áfengi hefur skaðleg áhrif á þroska ýmissa líffæra meðal annars á heilann.
  • Auknar líkur á vandamálum tengdum námi, skólagöngu og íþróttaiðkun. Skert minni og andlegt- og líkamlegt úthald.
  • Þeir sem neyta áfengis eru líklegri til að verða fyrir slysum.

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína

Skaðleg áhrif á líkamann

Rekja má fjölda alvarlegra sjúkdóma og heilsutjóns til áfengisneyslu.

Áfengisneyslu fylgir einnig víkkun æða, aukin þvaglát, aukin saltsýrumyndun í maga og breytingar í fituefnaskiptum.

Aukin hætta á krabbameini

Orsakasamhengi er á milli áfengisneyslu og ýmissa krabbameina. Það gildir um nokkur algengustu meinin, svo sem brjóstakrabbamein hjá konum og krabbamein í ristli og endaþarmi. Eitt af hverjum tíu tilfellum ristilkrabbameins tengist áfengisdrykkju.

Árið 2018 voru í Evrópu rakin um 180 000 tilfelli krabbameina og tæplega 92 000 dauðsföll í álfunni urðu vegna krabbameina sem til komu vegna áfengisdrykkju.

Örugg mörk áfengisnotkunar eru ekki þekkt. Sýnt hefur verið fram á að jafnvel hófleg notkun eykur áhættu fyrir krabbameini. Áhættan eykst eftir því sem notkunin er meiri.

Koma má í veg fyrir krabbamein og dauðsföll af völdum áfengis með því að draga úr áfengisneyslu.

Frekari upplýsingar má finna hér í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Samfélagsleg áhrif

Áfengi er engin venjuleg neysluvara og ber því að umgangast og ræða áfengi út frá þeim forsendum. Áfengisneysla er einn af leiðandi áhættuþáttum í heiminum fyrir slæma heilsu og ótímabær dauðsföll, sérstaklega í aldurshópnum 25-59 ára. Áfengisneysla hefur áhrif á fjölskyldu, vinnu, vini og aðra ókunnuga. Hún tengist ofbeldi, vanrækslu og misnotkun, sambandsslitum, afbrotum, ónæði, vinnuslysum og skertu vinnuframlagi. Konur verða meira fyrir áhrifum heima fyrir og ungar konur á aldrinum 18-29 verða fyrir mestum áhrifum vegna neyslu annarra.

  • Algengasti skaði annarra en þess sem drekkur kemur til vegna umferðaslysa. Farþegar eða aðrir ökumenn slasast eða látast vegna ölvaðs ökumanns.
  • Næst algengast er líkamlegt ofbeldi eða morð þar sem gerandi er undir áhrifum áfengis.
  • Einnig er lág fæðingarþyngd vegna áfengisneyslu móður algengur fylgikvilli.

Þær hörmungar sem fylgja skaðlegri áfengisneyslu eru mestar fyrir neytandann og fjölskyldu hans. Kostnaður samfélagsins er einnig gríðarlegur og margt saklaust fólk þjáist vegna áfengisneyslu ókunnugra.