Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Tennisolnbogi

Kaflar
Útgáfudagur

Tennisolnbogi (e. Tennis elbow / lateral epicondylitis) er ástand sem getur myndast í kjölfar of mikils álags á olnboga og úlnlið. Ofreynsla er á vöðva sem festir eru við olnbogann og notaðir til að rétta úr úlnliðnum.

Íþróttaiðkendur og fólk sem notar mikið sömu hreyfingar við atvinnu sína eru líklegri til að fá tennisolnboga. 

Einkenni

Verkur í kringum olnboga sem getur leitt bæði upp og niður handlegginn. Verkur versnar einkum þegar:

  • Handlegg er lyft eða hann beygður
  • Rétt er úr framhandlegg
  • Gripið er um fíngerða hluti eins og penna
  • Framhandlegg er snúið t.d. til að snúa hurðarhún eða opna krukku

Orsakir

Tennisolnbogi dregur nafn sitt af tennisíþróttinni en þetta er þekktur kvilli meðal fólks sem stundar tennis. Aðrar íþróttagreinar eins og badminton eða golf heyra líka hér undir en golfarar fá frekar verki innanvert í olnboga. 

Í flestum tilfellum myndast tennisolnbogi af ofnotkun vöðva sem fastir eru við olnboga og eru notaðir til að beygja úlnlið. Þegar álag verður á þessa vöðva geta myndast rifur í vöðvafestunni og bólga myndast. Þegar olnbogi er beygður á sama tíma og gripið er þéttingsfast utan um spaða eða verkfæri er hætta á tennisolnboga.

Greining

Tennisolnbogi er einkum greindur með skoðun og þreifingu á olnboga, framhandlegg og úlnlið. Verkur eykst þegar þrýst er á bólgið svæði og þegar teygt er á vöðvum.  

Færni er metin og áverkar skoðaðir ef einhverjir. Vakni grunur um taugaskemmdir í olnboga eða úlnlið er mælt með frekari rannsóknum, einkum ómskoðun eða segulómun.  

Meðferð

Oftast lagast tennisolnbogi án sérstakrar meðferðar. Að draga úr álagi á olnboga og úlnlið er mikilvægt til að ná bata.

Langvarandi bólgur geta valdið skemmd á beinhimnum og mjúkvef. Það getur tekið tíma að jafna sig en tennisolnbogi getur varað í 6 – 24 mánuði. 

Helstu þættir meðferðar:

  • Draga úr öllu álagi á meðan olnbogi er að jafna sig eftir ofnotkun 
  • Kæling í nokkrar mínútur, nokkrum sinnum á dag, kringum olnboga eða úlnlið
  • Verkjalyf eins og Parasetamól. Ef bólga er mikil er mælt með íbúprófeni sem er bólgueyðandi lyf
  • Sé ástand slæmt þarf fólk stundum meðferð hjá sjúkraþjálfara til að auka hreyfigetu í olnboganum
  • Í verstu tilfellum gæti þurft að grípa til skurðaðgerðar

Hvað get ég gert?

Það getur verið tímafrekt að jafna sig af tennisolnboga, sérstaklega ef atvinna fólks kallar á hreyfingu sem veldur álagi á olnboga. Mikilvægt er að hvíla liðinn eins og kostur er og draga úr öllu álagi á þá vöðva sem liggja í kringum hann. Sé tennisolnbogi tengdur íþróttaiðkun getur verið að breyting á tækni eins og t.d. sveiflu, geti dregið úr álagi.   

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ef grunur er um tennisolnboga er mikilvægt að draga úr álagi á lið og forðast þá hreyfingu í einhverja daga sem orsakar verkinn. Ef verkur lagast ekki eftir nokkurra daga hvíld er ráðlagt að leita til heimilislæknis. 

Finna næstu heilsugæslu hér.