Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Tannáta

Kaflar
Útgáfudagur

Skaðlegar bakteríur í munni mynda sýru sem ásamt matarleifum og slími myndar tannsýklu. Tannsýklan liggur helst þar sem tennur og gómur mætast og svo á milli tannanna. Bakteríur tannsýklunnar nærast á sykri og framleiða sýru sem leysir upp glerung tannar á ákveðnu svæði og tannskemmd eða hola myndast í tönninni. Algengast er að þetta gerist þar sem óhreinindi fá að liggja óhreyfð á tönnunum. 

Einkenni

Helstu einkenni tannskemmda er tannverkur eða tannpína. Erfitt er fyrir leikmann að sjá byrjandi skemmd á eigin tönnum en þó má sjá hvítan mattan lit undir tannsýklunni ef vel er að gáð. Hér má sjá hvernig byrjandi skemmdir líta út á þessu stigi.

Tannskemmd

Hvað get ég gert?

Tannhirða

Besta leiðin til að koma í veg fyrir tannskemmdir er að halda tönnunum hreinum. Það er best gert með því að bursta tennurnar að minnsta kosti tvisvar á dag. Sjá leiðbeiningar um tannhirðu hér.

Flúornotkun

Flúor herðir glerung tannanna og getur gert við byrjandi skemmdir í glerungi. Notaðu tannkrem með flúor og skolaðu munninn með flúorlausn að minnsta kosti vikulega. Hér má lesa nánar um forvarnargildi flúors.

Reglubundið eftirlit hjá tannlækni

Eftirlit með tönnum er nauðsynlegt til að viðhalda heilbrigði þeirra. Það er mismunandi hversu oft er mælt með að fara í eftirlit. Tannlæknir metur það hverju sinni en það er lágmark að fara einu sinni á ári. Sjá nánar um reglubundið eftirlit hér.

Dragðu úr sykurneyslu

Sykur í matnum nærir bakteríurnar í tannsýklunni. Því er gott að draga úr sykuráti og sérstaklega þarf að huga að því að vera ekki sífellt að narta í sætindi. Gamla slagorðið um að sífellt nart skemmi tennur á alveg jafn vel við núna eins og áður. 

Hér má lesa meira um hollar neysluvenjur.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ef þú kemur auga á mattar hvíta bletti á tönnum eða færð tannverk leitaðu þá strax til tannlæknis. Byrjandi skemmdir í glerungi má oft laga með flúormeðhöndlun og bættri tannhirðu og bættum neysluvenjum. Tönn sem er byrjuð að skemmast þarf að laga eins fljótt og hægt er til að lágmarka skaðann.