Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Forvarnargildi flúors

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Ein besta vörnin sem vitað er um í baráttunni við tannskemmdir er flúor ásamt hollu mataræði og vandaðri tannhirðu. Flúor herðir glerung tannanna og getur gert við byrjandi tannskemmd. Hér á landi er lítið af flúor í drykkjarvatni ólíkt því sem er í mörgum löndum, þar sem vatn er flúorríkara frá náttúrunnar hendi eða honum er bætt í drykkjarvatnið. Hér á landi er því nauðsynlegt að fá flúor eftir öðrum leiðum. Flúor má fá úr flúortannkremi, flúorskoli, flúorsogtöflum og flúortyggjói. Tannlæknar geta flúorpenslað tennurnar með flúorlakki. Flúor er sérlega mikilvægur börnum því tennurnar eru viðkvæmari þegar þær eru nýkomnar upp. 

Flúortannkrem

Allir ættu að bursta tennur með flúortannkremi tvisvar á dag alveg frá því að fyrsta tönnin lítur dagsins ljós. Best er að nota bursta með mjúkum hárum og eftir tannburstun ætti ekki að skola munninn það dugar að skyrpa og leyfa flúornum að vera í munninum lengur og vinna sitt gagn.

Ráðlagt magn flúortannkrems og styrkur flúors í tannkremi (ppmF) fer eftir aldri:

  • Börn að 3ja ára aldri: ¼ af nögl litla fingurs á barni, (1000-1350 ppm F)
  • Börn 3 til 5 ára: nöglinni á litla fingri, (1000 -1350 ppm F)
  • 6 ára og eldri: 1 cm, (1350 – 1500 ppm F)

Flúorskol

Gott er að skola munninn með flúorlausn (0,2%NaF), einu sinni i viku frá 6 ára aldri. Best er að skola alltaf sama vikudag til að auðvelda að muna eftir skolinu. 10 ml af flúorlausn er velt í munni í um það bil tvær mínútur og skyrpt á eftir. 

Er flúor skaðlegur?

Flúor er eitt algengasta frumefni jarðar og finnst mjög víða í mismunandi samböndum við önnur efni. Flúor í því magni sem mælt er með í tannhirðu er skaðlaus og mjög gagnlegur og nauðsynlegur heilbrigði tanna. Eins og fjölmörg önnur efni sem eru í umhverfi okkar, getur flúor verið skaðlegur í miklu magni. Þetta á líka við um fjölmörg vítamín og steinefni sem nauðsynleg eru. Í miklu magni eru þau skaðleg.  Flúor í því magni sem er mælt með í tannhirðu er skaðlaus en hins vegar mjög gagnlegur og nauðsynlegur heilbrigði tannanna. Flúor í of miklum mæli getur valdið útlitsbreytingum á yfirborði tannanna en þær eru ekki skaðlegar. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér betur áhrif flúors á manninn hefur Vísindavefurinn skoðað þann þátt.