Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Kransæðasjúkdómar

Kaflar
Útgáfudagur

Kransæðasjúkdómur (e. coronary heart disease) einkennist af þrengingum í kransæðum. Kransæðar eru þrjár: hægri kransæð, vinstri kransæð og bakveggskvísl. Þær liggja utan á hjartavöðvanum og flytja súrefnisríkt blóð til hjartavöðvans. Þrengingar verða í kransæðunum þegar fita og kalk safnast innan á æðaveggjunum. Við það kemst minna súrefnisríkt blóð til hjartavöðvans og veldur það einkennum eins og brjóstverk. Við kransæðastíflu sem einnig er kallað hjartaáfall verður algjör lokun á kransæð og kemst þá ekkert súrefnisríkt blóð til ákveðins svæðis hjartavöðvans.  

Einkenni

Kransæðasjúkdómur getur í upphafi haft lítil einkenni þar til marktæk þrengsli hafa orðið í kransæðum. Stundum er kransæðastífla fyrsta einkenni kransæðasjúkdóms.

 Algengasta einkennið er brjóstverkur en hann getur birst á mismunandi hátt:  

  • Þyngsli, farg eða herpingur fyrir miðju eða vinstra megin í brjóstkassa, öxlum, á milli herðablaða eða ofarlega í kvið
  • Leiðni getur verið út í axlir, handleggi eða upp í háls og kjálka
  • Verkur verður oft við líkamlegt eða andlegt álag en lagast við hvíld  

Einkenni geta líka verið almennri: 

  • Mæði
  • Þrekleysi
  • Ógleði
  • Sviti
  • Hræðsla
  • Kvíði

Orsakir

Orsök kransæðasjúkdóms er æðakölkun og þróast sjúkdómurinn á löngum tíma. Bólga myndast í æðavegginn og fita og kalk festist innan í æðunum. Við það þrengjast kransæðar og minna blóð kemst til hjartavöðvans. Súrefnisskortur í hjartavöðvanum veldur brjóstverk. 

Áhættuþættir

Suma áhættuþætti er hægt að hafa áhrif á með breyttum lífsstíl en aðra ekki. Séu margir áhættuþættir til staðar er aukin áhætta á kransæðasjúkdómi.

Áhættuþættir sem ekki er hægt að hafa áhrif á:  

  • Erfðir (fjölskyldusaga um kransæðasjúkdóm)
  • Aldur
  • Kyn (kvenhormón eru verndandi)

Áhættuþættir sem hægt er að hafa áhrif á:

  • Hár blóðsykur
  • Hár blóðþrýstingur
  • Hreyfingarleysi
  • Hækkuð blóðfita
  • Ofþyngd
  • Óholt mataræði
  • Reykingar
  • Streita

Greining

Ef grunur er á þrengingu á kransæðum skal leita til læknis. Dæmi um rannsóknir sem gerðar eru til að staðfesta greiningu:

  • Áreynslupróf
  • Blóðprufur
  • Hjartalínurit
  • Hjartaþræðing
  • Tölvusneiðmynd af kransæðum

Meðferð

Lyfjameðferð: Við greiningu á kransæðasjúkdómi þarf oftast blóðþynningu og blóðfitulækkandi lyf. Ef blóðþrýstingur er hár eru einnig notuð blóðþrýstingslækkandi lyf. 

Fólk sem hefur þekktan kransæðasjúkdóm getur tekið inn Nitroglycerin tungurótartöflur við brjóstverk. Þessar töflur fást án lyfseðils í apótekum. Hverfi brjóstverkur ekki innan 15 mínútna þrátt fyrir inntöku Nitroglycerin skal hringja beint í 112.

Kransæðavíkkun: Leiði hjartaþræðing í ljós þrengingu er gerð kransæðavíkkun og jafnvel sett stoðnet sem heldur æðinni opinni. Ef mögulegt er að víkka æðina þar sem þrengslin eru er það gjarnan gert í sömu rannsókninni svo ekki sé þörf á annarri.

Opin hjartaaðgerð: Ef ekki er unnt að víkka kransæðar við hjartaþræðingu er grípið til opinnar hjartaaðgerðar sem kallast hjáveituaðgerð.

Mikil áhersla er lögð á heilbrigðan lífsstíl. 

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku hér

Forvarnir

Vera reyklaus
Auka við hreyfingu
Draga úr áfengisneyslu
Fylgjast reglulega með blóðfitu, blóðþrýstingi og blóðsykri
Hollt mataræði
Taka inn lyf samkvæmt læknisráði

Viltu breyta venjum þínum?

Hvað get ég gert?

Mikilvægt er að hafa yfirsýn og stjórn á þremur þáttum: BlóðfituBlóðsykri og Blóðþrýstingi eða B-in 3 (3B). 

Blóðfita - er fituefni/kólesteról í blóðinu. Hátt kólesteról eykur einnig hættu á hjartaáfalli og heilablóðfalli.

Blóðsykur - HbA1C er langtíma blóðsykursmæling sem sýnir þér meðaltalið á blóðsykursgildi þínu síðustu mánuðina.

Blóðþrýstingur - Hækkaður blóðþrýstingur eykur hættu á hjartaáfalli, heilablóðfalli og nýrnasjúkdómum.

Hægt er að bóka tíma á næstu heilsugæslustöð í mælingar.