Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Iðraólga

Kaflar
Útgáfudagur

Iðraólga (e. Irritable bowel syndrome IBS) er truflun á starfsemi meltingarvegsins og er oft kallað ristilkrampar. Yfirleitt er talað um ævilanga greiningu en einkenni koma almennt fram í köstum. Með aukinni þekkingu á sjúkdómsmynd og heilbrigðum lífsstíl er hægt að minnka líkur á einkennum. 

Einkenni

Einkenni eru ekki samfelld heldur koma í köstum. Misjafnt er milli fólks hversu tíð köstin eru. Helstu einkenni eru:

  • Maga og/eða ristilkrampar – yfirleitt verri eftir máltíðir og batna eftir hægðalosun
  • Hægðatregða
  • Niðurgangur
  • Uppþemba 

Einnig geta komið fram önnur einkenni: 

  • Bakverkir 
  • Erfiðleikar með hægðastjórnun 
  • Erfiðleikar með þvaglát svo sem tíð þvaglát, skyndileg þvaglátatilfinning eða ná ekki að tæma þvagblöðruna
  • Ógleði 
  • Slím rennur frá endaþarmi 
  • Vindgangur 
  • Þreyta og orkuleysi 

Orsök

Ástæða iðraólgu er ekki þekkt að fullu en grunur liggur á að þarmar og ristill séu viðkvæm fyrir þáttum sem örva meltinguna. Fæða fer þá of hægt eða of hratt niður meltingarveginn og frásog vatns truflast sem veldur hægðavandamálum. Annað sem getur haft áhrif á iðraólgu:

  • Aðrir sjúkdómar í meltingarvegi
  • Hormón, sem dæmi geta konur fundir fyrir auknum einkennum fyrir tíðarblæðingar 
  • Kvíði og/eða streita 
  • Ofurviðkvæmar taugar í meltingaveginum 
  • Óþol eða ofnæmi fyrir fæðutegund
  • Fjölskyldusaga getur verið áhættuþáttur

Ákveðinn matur eða drykkur geta komið af stað uppþoti í meltingaveginum, sem dæmi:  

  • Áfengi
  • Sterkur eða fituríkur matur 
  • Súr matur
  • Kaffi og aðrir koffín drykkir

Greining

Greining byggist á ítarlegri sjúkdómssögu. Einnig getur verið nauðsynlegt fyrir lækni að framkvæma ýmsar rannsóknir til þess að útiloka aðra sjúkdóma. Dæmi um rannsóknir:  

  • Blóðprufa 
  • Ítarleg sjúkdómssaga
  • Líkamsskoðun 
  • Magaspeglun
  • Ristilspeglun
  • Saursýni

Hjálplegt er að gefa lækni góða sjúkdómssögu. Sem dæmi er gott að fylgjast með einkennum og halda skrá yfir hvaða einkenni koma fram, hvenær dags, hversu oft, hefur ákveðin fæða áhrif á einkenni og hversu lengi þau hafa verið til staðar. 

Meðferð

Ekki er til lækning við kvillanum en meðferð snýr að einkennameðferð og reyna að fyrirbyggja köst.

Dæmi um einkennameðferð:

  • Lyfjagjöf
  • Verkjalyf
  • Heitir bakstrar

Árangursrík leið til að fækka ristilkrömpum:

Hvað get ég gert?

Ekkert eitt virkar fyrir alla og því er gott að prófa sig áfram með hvað hentar hverju sinni

  • Borða hollan og hreinan mat, forðast feitan og/eða sterkan mat
  • Borða reglulega yfir daginn og ekki borða máltíðir hratt
  • Draga úr streitu
  • Kvíðastillandi meðferð
  • Halda dagbók yfir þá fæðu sem þú ert að borða og skrá ef koma fram einkenni
  • Stunda reglubundna hreyfingu 
  • Taka inn meltingagerla
  • Takmarka koffín neyslu, áfengisnotkun og gosdrykkju 

Leiðir til að minnka uppþembu og/eða vindgang: 

  • Borða trefjaríka fæðu
  • Borða ferska ávexti en forðast þurrkaða
  • Forðast fæðu sem er erfitt að melta svo sem poppkorn, maís og baunir
  • Forðast hrátt grænmeti eins og brokkolí, blómkál og lauk, betra er að sjóða og mýkja fæðuna fyrir neyslu
  • Forðast vörur sem innihalda sorbitól
  • Tyggja fæðu vel

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leita til næstu heilsugæslu ef: 

  • Blæðing frá endaþarmi 
  • Blóðugur niðurgangur 
  • Fæðubreytingar og/eða lyf úr apóteki eru ekki að minnka óþægindi 
  • Hörð fyrirferð eða bólga í kvið 
  • Óútskýrt þyngdartap á stuttum tíma
  • Lítil fæðuinntaka til þess að forðast einkenni 

Finna næstu heilsugæslu hér