Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Heilaslag

Kaflar
Útgáfudagur

Heilaslag (e.stroke) er skerðing á heilastarfsemi sem verður vegna truflunar á blóðflæði til heila. Heilaslag getur annað hvort verið vegna þess að æð stíflast og er þá talað um heilablóðfall eða vegna þess að æð rofnar og heilablæðing verður.

Heilaslag er önnur algengasta dánarorsök á vesturlöndum og ein algengasta orsök fötlunar meðal fullorðinna einstaklinga.

Afleiðingar heilaslags geta verið mjög alvarlegar og jafnvel lífshættulegar. Það getur skipt sköpum að koma einstaklingi undir læknishendur eins fljótt og unnt er þegar grunur er um heilaslag svo meðferð geti hafist.

Ef þig grunar að einhver hafi fengið heilaslag hringdu þá strax í 112.

Hér má lesa um forvarnir gegn heilabilun.

Einkenni

Við heilaslag koma einkenni yfirleitt strax í ljós og þau geta versnað hratt á stuttum tíma. Heilafrumur byrja strax að skemmast og það hefur áhrif á starfsemi líkamans. Rétt viðbrögð eru mikilvæg til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar. 

Helstu einkenni:

 • Sjóntruflanir
 • Tvísýni, skert sjónsvið
 • Skyndilegt máttleysi eða lömun útlima, jafnvel í öðrum helmingi líkamans
 • Máttleysi eða lömun í andliti
 • Truflun á hreyfigetu eða jafnvægi
 • Erfiðleikar við tal, þvoglumæli
 • Erfiðleikar við að skilja aðra

Orsakir

Heilinn þarf eins og önnur líffæri súrefni og næringu sem berast með blóði upp í höfuð. Ef truflun verður á þessu blóðflæði eða það stöðvast alveg byrja heilafrumur að deyja strax.

Afleiðingin getur orðið alvarleg fötlun eða dauði. Heilaslag er algengara hjá eldra fólki en þeim sem yngri eru og spilar ástand æða þar inn í.

Helstu tegundir heilaslags

 • Heilablóðþurrð vegna blóðtappa sem myndast í æð vegna æðakölkunar eða æðasjúkdóma. Heilablóðþurrð getur líka orðið vegna blóðtappa sem hefur borist frá frá hjarta eða hálsslagæðum. Um 85% allra heilaslaga eru vegna þess að æð stíflast.
 • Heilablæðing verður þegar æðar í heilanum rofna. Ýmsir sjúkdómar geta valdið heilablæðingu og má nefna prótein útfellingar sem verða samfara öldrun og margra ára háþrýstingi sem veikir æðaveggi.
 • Lítið áfall eða TIA (e. transient ischaemic attack) er skammvinn truflun á blóðflæði til heila. TIA er viðvörunarmerki sem þarf alltaf að taka alvarlega til að koma í veg fyrir alvarlega heilablæðingu síðar.

Áhrifaþættir

Eftirfarandi þættir geta aukið líkur á heilaslagi:

Hvað get ég gert?

Ef grunur er um heilaslag er mikilvægt að halda ró sinni. Nauðsynlegt að fylgjast með öndunarvegi þar til hjálp berst.

FAST prófið er viðurkennt um allan heim til að greina upphafseinkenni heilaslags. FAST-prófið stendur fyrir face, arms, speech, time á ensku. Það inniheldur þrjár einfaldar spurningar sem gott er miða við þegar verið er að átta sig á hvort einstaklingur hafi fengið heilaslag:

 • F (face) Biðja einstakling að brosa - er munnur eða auga sigið?
 • A (arm) Biðja einstakling að halda höndum uppi – getur einstaklingur lyft báðum höndum?
 • S (speech) Biðja einstakling að fara með einfalda setningu – getur viðkomandi talað skýrt og skilur hann hvað þú ert að segja við hann
 • T (time)  Hringja strax í 112 ef þig grunar heilablóðfall

Greining

Heilaslag þarf að meðhöndla á sjúkrahúsi. Þar er greiningin gerð en hún felst meðal annars í eftirfarandi:

 • Heilsufarssögu
 • Líkamsskoðun
 • Taugaskoðun
 • Blóðprufu
 • Myndgreiningu

Finna næstu heilsugæslustöð eða bráðamóttöku hér.

Meðferð

Tegund heilaslags, alvarleiki, staðsetning þess og orsakaþættir hafa áhrif á hvaða meðferð er beitt í hverju tilviki fyrir sig.

Tíminn skiptir öllu máli í meðferðinni þegar um stíflu í æð er að ræða. Því fyrr sem hún hefst þeim mun minni líkur eru á heilaskemmdum. Að koma einstaklingi sem fyrst á sjúkrahús svo hefja megi segaleysandi meðferð getur haft úrslitaáhrif á framtíð viðkomandi. Þá er gefið lyf í æð og reynt að hafa áhrif á tappann eða stífluna.

Séu heilablæðingar stórar er í ákveðnum tilfellum gripið til skurðaðgerða. 

Afleiðingar heilaslags geta verið vægar en einnig alvarlegar og jafnvel valdið dauða. Margir þurfa að takast á við heilabilun á mismunandi stigum eftir heilaslag. 

Hér er hægt að finna upplýsingar um réttindi við veikindi.