Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Hand-, fót- og munnsjúkdómur

Kaflar
Útgáfudagur

Hand-, fót og munnsjúkdómur eða blöðrumunnbólga með útbrotum (e. hand, foot and mouth disease) er algengur veiru sjúkdómur hjá ungum börnum en fullorðnir geta einnig smitast.

Einkenni

  • Hálssærindi
  • Hiti
  • Minnkuð matarlyst
  • Sár í munni
  • Húðútbrot með blöðrum á höndum og fótum og/eða koki

Sjúkdómurinn byrjar yfirleitt með vægri hitahækkun, lystarleysi, almennum slappleika og særindum í háls.

Um 1-2 dögum eftir að hiti kemur myndast sár í munni. Sárin byrja sem rauðir dílar sem þróast yfir í blöðrur og síðan í sár á tungu, góm og innanverðum kinnum en er þó yfirleitt helst í kokinu. Sárin geta verið sársaukafull og gera það erfitt að drekka og borða.

Húðútbrot myndast með rauðum skellum sem eru oftast staðsett í lófum og á iljum. Útbrot geta einnig myndast á rasskinnum. Sárin verða að blöðrum sem virðast hvít eða gráleit á lit. Sumir einstaklingar fá einungis útbrot í munni eða húðútbrot, meðan sumir fá bæði. 

Hand-, fót- og munnsjúkdómur

Smitleiðir

  • Hluti þeirra barna sem smitast eru einkennalaus en geta smitað frá sér
  • Snertismit með beinni snertingu við vessa frá nefi, hálsi, blöðrum og með hægðum
  • Smithætta er allt frá nokkrum dögum áður en einkenni koma fram, þangað til að útbrot eru horfin
  • Veiran skilst út með hægðum í allt að 6 vikur eftir að einkenni eru horfin

Algengt er að sjúkdómurinn gangi í litlum faröldrum einkum á haustin.  Tími frá smiti þar til einkenni koma fram er 3-8 dagar. Í mjög sjaldgæfum tilfellum getur veiran valdið heilahimnubólgu. Möguleiki er að smitast oftar en einu sinni. 

Greining

Útbrot hand-, fót og munnsjúkdóms eru einkennandi og byggir greiningin á þeim. Erfitt getur verið að greina sjúkdóminn hjá börnum ef þau hafa ekki sígild einkenni. Einstaka sinnum er tekið veirustrok úr hálsi eða sári til að staðfesta greiningu.

Meðferð

  • Engin sérstök meðferð er til gegn veirunni. Sjúkdómurinn er oftast mildur og í flestum tilfellum jafna einstaklingar sig á 7-10 dögum.
  • Einkennameðferð felst í því að draga úr óþægindum sem geta fylgt sýkingunni. Það getur verið hjálplegt að nota verkjalyf eins og paracetamol og íbúprófen og gefa lyf sem minnka sársauka vegna sára í munni, t.d. deyfigel og sprey. 

Hvað get ég gert?

  • Reglulegur handþvottur dregur verulega úr hættu á smiti, einkum eftir bleyjuskiptingar hjá börnum
  • Huga þarf vel að hreinlæti í umhverfi sýktra með vönduðum þrifum á snertiflötum
  • Gæta að vökvainntekt til að koma í veg fyrir þurrk
  • Gefa börnum mjúkan og/eða kaldan mat eins og jógúrt eða íspinna en forðast heitan og kryddaðan mat
  • Halda skal barni heima þar til hitalaust í sólarhring og útbrot í rénun
  • Hafðu samband við þína heilsugæslu ef þörf er á frekari útskýringum og ráðleggingum

Finna næstu heilsugæslu.

Hvenær skal leita aðstoðar?

  • Einkenni eru mikil og þú hefur áhyggjur
  • Einkenni eru ekki batnandi eftir 7-10 daga
  • Grunur vaknar um heilahimnubólgu
  • Barnið er orðið þurrt, s.s.
    • Þurr munnur, og/eða þorsti
    • Ekki pissað eða bleytt bleyju í 4-6 klst hjá 0-3 mánaða börnum, 6-8 klst hjá 3-12 mánaða börnum og í 12 klst eða meira hjá 1 árs börnum og eldri
    • Engin tár þegar barnið grætur

Barnshafandi konur

Forðast nána snertingu við alla sem eru með einkenni þó hætta fyrir meðgönguna eða barnið sé lítil, vegna þess að:

  • Hár hiti á fyrstu þremur mánuðum meðgöngu getur verið skaðlegur fóstri
  • Ef móðir greinist skömmu fyrir fæðingu getur barnið fæðst með væg einkenni
  • Talaðu við heimilislækni eða ljósmóður ef þú hefur verið í samskiptum við einhvern með hand-, fót- og munnsjúkdóm