Frunsa

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Frunsa/áblástur (e. cold sores) er klasi af litlum vökvafylltum blöðrum sem koma oftast fram á eða í kringum varir en geta einnig komið fram annarsstaðar í andliti. Á nokkrum dögum breytast blöðrurnar í sár sem gróa oftast innan 12 daga og þarfnast venjulega engrar meðferðar.

Veiran herpes simplex 1 (HSV-1) veldur frunsum. Eftir að einstaklingur smitast af veirunni þá sest hún að í líkamanum. Hún liggur í dvala á milli þess sem hún brýst fram og veldur endurteknum frunsum, oft þegar ónæmiskerfið er undir álagi eins og við kvef, streitu eða tíðarblæðingar kvenna.

Frunsur eru smitandi frá því fyrstu einkenna verður vart og þar til hrúður hefur myndast.

Einkenni

Einkenni eru einstaklingsbundin og fá sumir engin einkenni meðan aðrir geta fengið eftirfarandi einkenni:

 • Hiti, hálsbólga, beinverkir og vanlíðan fylgja oft þegar frunsa myndast í fyrsta skiptið en sjaldan við endurtekna frunsumyndun.
 • Munn- og hálssærindi geta verið til staðar.
 • Kláði eða eymsli fylgja oft fyrsta sólarhringinn áður en frunsan myndast.
 • Litlar vökvafylltar blöðrur breytast í sár á nokkrum dögum sem þorna og hrúður myndast.

Tíðni frunsusýkinga lækkar yfirleitt með aldrinum.

Smitleiðir

Herpes veiran smitast auðveldlega milli manna við nána snertingu. Flestir smitast í æsku en fólk getur smitast hvenær sem er ævinnar. Smit verða yfirleitt í gegnum kossa eða með því að deila mataráhöldum. Einnig er hægt að fá frunsu með því að stunda munnmök við einstakling sem er með kynfæraáblástur en þá er um aðra tegund veirunnar að ræða.

Það tekur yfirleitt á bilinu nokkra daga til nokkrar vikur þar til að fyrstu einkenni koma fram. Mesta er hættan á smiti fyrsta sólarhringinn eftir að einkenni koma fram. Eftir að sárin byrja að þorna og hrúður að myndast er ólíklegt að smita aðra.

Einstaklingur sem einu sinni hefur smitast af Herpes veirunni smitast ekki aftur þó hann sé í snertingu við einstakling með einkenni frunsu. Sá sem er með veiruna í líkamanum en enginn einkenni, smitar ekki aðra.

Hvað get ég gert?

Engin meðferð læknar frunsur en eftirfarandi ráð geta linað óþægindi eða stytt tíma einkennanna.

 • Forðastu að snerta frunsuna, bæði til að flýta fyrir að hún grói og einnig til að minnka smithættu. Ef frunsa er snert skaltu þvo hendur með sápu
 • Best er að sárið fái að þorna í friði og því ætti að forðastu að vera með förðun, dagkrem, varasalva eða plástra á frunsunni þar sem það seinkar batanum
 • Veirulyf er hægt að fá í apóteki án lyfseðils. Ef þau eru notuð strax þegar fyrstu einkenna verða vart geta þau mögulega hægt á fjölgun veirunnar svo einkenni verði vægari og tíminn sem hætta er á smiti styttri
 • Sinkkrem (Zinkpasta) á frunsu getur létt á einkennum og flýtt fyrir að hún þorni
 • Sumum finnst ágætt að sjúga ísmola til þess að minnka óþægindi
 • Við miklum verkjum eða bólgu má taka paracetamól eða ibúprófen
 • Ekki kyssa eða deila hlutum eins og handklæði, varalit, kremum eða hnífapörum, við annan einstakling meðan frunsa er til staðar
 • Varastu sérstaklega að kyssa eða knúsa nýbura og ungabörn þar sem þau eru mjög viðkvæm fyrir herpes sýkingu
 • Notaðu sólarvörn á frunsu (SPF ≥ 15) ef þú ert úti í sól
 • Forðastu sítrusávexti og saltríkan mat, slíkt getur ert sárið
 • Fjölbreytt fæði, hreyfing og nægur svefn styrkir ónæmiskerfi líkamans

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ráðlagt er að leita til heilsugæslunnar ef:

 • Frunsa er ekki batnandi innan 10 daga
 • Frunsa er mjög stór og henni fylgir mikil vanlíðan
 • Bólga eða sár er í munni
 • Þú ert barnshafandi og ert að fá frunsu í fyrsta skipti er rétt að ræða við ljósmóður
 • Nýfætt barn sem er allt að sex vikna gamalt fær blöðrur í eða við munn
 • Einkenni í auga benda til sýkingar af völdum herpes simplex
 • Frunsur koma ítrekað með miklum einkennum og vanlíðan
 • Ef þú ert með veiklað ónæmiskerfi, t.d. vegna langvinnra veikinda

Finna næstu heilsugæslu

Forvarnir

Eftirfarandi þættir minnka líkur á að fá herpes veiruna:

 • Forðast nána snertingu við einstakling sem er með einkenni frunsu
 • Forðast að deila mataráhöldum, glösum, vatnsflöskum, handklæðum, varasalva eða rakvélum við einstakling með einkenni frunsu
 • Handþvottur er mikilvægur til þess að koma í veg fyrir smit

Eftirfarandi þættir minnka líkur á að fá frunsu hjá þeim sem þegar eru smitaðir af herpes veirunni:
• Forðast streitu
• Góður svefn – þreyta veikir ónæmiskerfið og eykur líkur á veikindum
Holl næring
• Að nota sólarvörn á varir (SPF≥15) getur minnkað líkur á að frunsa brjótist fram

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.