Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Augnbólga og roði í augum

Kaflar
Útgáfudagur

Bólga og roði í augum eru algeng vandamál, sérstaklega meðal barna. Oftast er um að ræða einkenni veirusýkingar sem fylgja gjarnan kvefi.

Bæði bólga og roði í augum jafna sig oftast af sjálfu sér en í sumum tilvikum þarf þó að leita læknis sem greinir þá orsök og veitir viðeigandi meðferð.

Helstu ástæður augnbólgu og roða í augum

 • Sýking af völdum veira eða baktería.
 • Ofnæmisviðbrögð líkamans.
 • Erting eða aðskotahlutur hefur komið í augað.
Tárubólga

Tárubólga er bólga í slímhúð augans eða augnhvítunni. Oftast kemur hún í bæði augun þó undantekningar séu á því.

Algengast er að tárubólga sé af völdum veirusýkinga sem ekki er hægt að meðhöndla með sýklalyfjum. Tárubólga sem fylgir gjarnan kvefpestum lagast yfirleitt af sjálfu sér. 

Helstu einkenni:

 • Graftarkennd útferð úr augum
 • Augun oft límd saman á morgnana
 • Roði í slímhúð eða augnhvítu
 • Pirringur í augum
 • Leki úr auganu
Hvarmabólga

Bólga eða þroti í augnloki kallast hvarmabólga. Hvarmabólga er í flestum tilvikum hluti af kvefeinkennum og er alveg saklaus.

Hvarmabólga getur einnig verið vegna sjúkdóma eins og flösuexems eða rósroða en það er sjaldgæft.

Helstu einkenni:

 • Sviði í augum
 • Pirringur í auga eða augum
 • Kláði, sérstaklega ef ofnæmi er til staðar
 • Roði í augum
 • Bjúgur á hvörmum

Hvarmabólga er mjög algeng og langoftast hættulaus. Einkenni geta þó verið erfið og stundum getur slímhimna augans vaxið inn á hornhimnuna og valdið vandræðum.

Oftast lagast hvarmabólga af sjálfu sér. Einkennin geta þó varað lengi, jafnvel ævilangt. 

Þau sem hafa þráláta hvarmabólgu ættu að vera í eftirliti hjá augnlækni.

Ofnæmisbólgur

Ofnæmisviðbrögð koma oft í augu og lýsa sér svipað og sýking í auga.

Helstu einkenni:

 • Mikill roði í og við auga
 • Útferð úr auganu ýmist í formi tára eða sem klístraður vökvi
 • Augun límd saman að morgni
 • Kláði eða bruna tilfinning í auganu
 • Önnur almenn ofnæmiseinkenni eins og kláði og hnerri geta líka verið til staðar

Ofnæmisbólgur í augum lagast ef ofnæmisvaldurinn hverfur. Það er hins vegar ekki alltaf einfalt að finna út hver hann er.

Til eru augndropar til að nota í þessum tilvikum sem læknar þurfa að skrifa upp á.

Ofnæmislyf eins og Lórítin má kaupa án lyfseðils í apótekum en dugi þau ekki þarf læknir að skrifa uppá önnur lyf.

Herpes simplex

Herpes simplex augnsýking er veirusýking sem getur valdið sársauka og roða í augum. Það er mikilvægt að fá meðferð því það getur stundum haft áhrif á sjónina.

Helstu einkenni:

 • Augnverkir
 • Blöðrur eða útbrot á augnlokinu eða húðinni í kringum augað
 • Bólgið augnlok
 • Ljósnæmi
 • Roði í eða við auga
 • Útferð úr auganu ýmist í formi tára eða sem klístraður vökvi
 • Þokusýn eða aðrar breytingar á sjón

Herpes simplex augnsýking hefur oftast aðeins áhrif á annað augað.

Meðferð fellst í veiruhamlandi lyfjum, stundum er einnig notuð sterameðferð til að minnka bólgu.

Ef verkur er í auga eða sjóntruflanir skal leita strax til heimilislæknis. 

Meðferð

Meðferð fer eftir eðli einkenna en oftast lagast augnsýkingar af sjálfu sér og því ekki þörf á sérstakri meðferð. Læknir getur ákveðið að skrifa út sýklalyf í formi dropa eða áburðar þegar um bakteríusýkingu er að ræða. 

Hvað get ég gert?

 • Halda svæðinu í kringum augun hreinu. Þvo með volgu vatni og bómull eða mjúkum bómullarklút. Hreinsa gröft og klístur af augnlokum. Mikilvægt er að strjúka í átt að augnkrók. 
 • Táravökvi (gervitár) sem kaupa má án lyfseðils í apótekum hjálpar. Hann inniheldur sýkladrepandi og heftandi efni.
 • Þvo hendur reglulega með sápu.
 • Þvo koddaver og þvottastykki úr heitu sápuvatni.
 • Til þess að koma í veg fyrir smit ætti ekki að láta aðra nota sömu handklæði, koddaver og þvottastykki og sá sem er með augnsýkingu án þess að þvo þessa hluti með heitu sápuvatni.
 • Ekki deila augnlyfjum, augnsnyrtivörum eða öðru sem snertir augun með öðrum.
 • Forðast að nudda augun.
 • Setja bakstur, kaldan eða heitan, á augun ef þig klæjar.
 • Notir þú augnlinsur er gott að gefa þeim frí á meðan augun jafna sig.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Þó yfirleitt séu bólgur og roði í augum saklaus og lagist af sjálfsdáðum með góðri umhirðu þarf að hafa í huga að sumar augnsýkingar krefjast læknismeðferðar.

Leitaðu til heilsugæslunnar eða augnlæknis ef eftirfarandi einkenni eru til staðar. Oft má komast fljótt til augnlæknis í þessum tilvikum.

 • Þú notar augnlinsur og ert með blett á augnlokinu ásamt einkennum um augnbólgu. Þú gætir verið með ofnæmi fyrir linsunum
 • Einkennin hafa ekki horfið á tveimur vikum.

Leitaðu strax til augnlæknis eða á bráðamóttöku ef eftirfarandi einkenni eru til staðar:

 • Við augnslys og ef aðskotahlutur hefur stungist í auga.
 • Breytingar eru á sjón eða sjónsviði.
 • Mikill höfuðverkur.
 • Annað eða bæði augu eru dökk rauð.
 • Verkur er í auga ásamt roða og bólgum.
 • Birtufælni er til staðar eða vont er að vera í birtu.
 • Barn sem er yngra en mánaðargamalt er með bólgur eða roða í augum.

Oft má komast strax til augnlæknis ef þessi einkenni eru til staðar.

Athugið að tilvísun þarf frá heimilislækni ef farið er með barn til læknis svo heimsóknin fáist greidd af Sjúkratryggingum.

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku.

Forvarnir

Stór hluti augnsýkinga er fylgifiskur kvefpesta. Þær smitast á milli manna með beinni og óbeinni snertingu en geta líka borist með loftbornu smiti.

Flestar augnsýkingar berast í augun með höndunum. Því er góður handþvottur mjög mikilvægur til að koma í veg fyrir augnsýkingar.

Þau sem eru með sýkingu í augum ættu ekki að nota sömu handklæði og aðrir.

Börn sem eru með augnsýkingu í tengslum við kvef geta farið í daggæslu eða skóla ef þau eru hitalaus og líður vel.