Næring 6-12 mánaða

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Þegar barn er orðið sex mánaða gamalt þarf það meiri næringu en brjóstamjólk eða ungbarnablöndu til að fullnægja orku- og næringarefnaþörf sinni. Með aldrinum eykst einnig áhugi barnsins á mat þótt sum börn taki nýrri fæðutegund eða nýju bragði með ákveðinni tortryggni í byrjun. Barnið fer smám saman að borða fjölbreyttan maukaðan mat. Ráðlagt er að skammta smátt fyrst í stað en auka magnið smám saman. Æskilegt er að auka fjölbreytni í fæðuvali tiltölulega hratt eftir sex mánaða aldur. Nauðsynlegt er að öll börn fái D-vítamín (10 míkrógrömm) daglega. Rétt er að bíða með lýsi þar til barnið er farið að fá fasta fæðu, en þá er mælt með að gefa eina teskeið (5 ml) af Krakkalýsi. 

Mælt er með að hafa barn á brjósti út fyrsta árið og lengur ef það hentar móður og barni. Þegar barnið byrjar að borða fasta fæðu eftir sex mánaða aldur getur verið gott að byrja á að gefa því matinn á undan brjóstinu svo það vilji frekar borða hann. Rétt er að minnka pelanotkun hjá þeim börnum sem hafa fengið pela og nota stútkönnu í staðinn og hætta alveg að gefa pela á nóttinni. 

Við sex mánaða aldur eru járnbirgðir barnsins uppurnar og því mikilvægt að barnið fái járn úr fæðunni, fyrst úr járnbættum barnamjölsgrautum og síðan bætast við aðrar járnríkar fæðutegundir. 

Fæðutegundir sem gefa má 6-9 mánaða gömlu barni

  • Kornvörur: Ósætan graut úr haframjöli, byggi, hveiti, rúgi, hirsi. Brauð í litlum bitum með smuráleggi, t.d. lifrarkæfu, smurosti, maukaðri lárperu (avókadó) eða banana. Pasta og hrísgrjón þegar barnið ræður við heldur kornóttari mat.
  • Mjólkurvörur: Móðurmjólk og Stoðmjólk. Nýmjólk og sýrðar mjólkurvörur aðeins í matargerð.
  • Grænmeti: Soðnar kartöflur, rófur, gulrætur, brokkólí, blómkál, maískorn, paprika, grænar braunir o.fl. Notið ferskt eða fryst grænmeti en athugið að allt grænmeti þarf að sjóða.
  • Ávextir: Maukuð epli, perur, melónur, bananar o.fl.
  • Kjöt, fiskur og egg: Nýtt, soðið og maukað kjöt, fiskur og egg.
  • Fita: Matarolía, ósaltað smjör, smjörvi og Krakkalýsi.

Gefið barninu vatn eða móðurmjólk við þorsta.

Mælt er með að gefa eina nýja fæðutegund í einu. Til að byrja með er gefið lítið magn t.d. ein til tvær teskeiðar. Fæðan þarf að vera vel maukuð og "grauturinn" ekki of þykkur. Auka má fjölbreytnina nokkuð fljótt, þ.e. gefa mismunandi tegundir fæðu í litlu magni. Ekki er talin ástæða til þess að börn í áhættuhópum fyrir ofnæmi, þ.e. ungbörn sem eiga foreldra og systkini sem hafa ofnæmi og einnig ung börn sem hafa exem, fresti neyslu hugsanlegra ofnæmisvalda. 

Eftir níu mánaða aldur ættu flest börn að geta borðað með fjölskyldunni á venjulegum matmálstímum. Hafa ber í huga að börn þurfa að borða oftar en fullorðnir, a.m.k. fjórum til sex sinnum á dag. Best er að hafa reglu á máltíðum því ung börn eiga mjög erfitt með að bíða eftir matnum eða vera svöng. Um 500 ml af mjólk og mjólkurvörum er talinn hæfilegur dagskammtur þegar barnið er farið að borða úr öllum fæðuflokkum.

Þegar barnatennur koma upp þarf að huga að tannhirðu. Mælt er með því að gefa barninu ekki sætindi, sykraða drykki eða fæðu. Það skemmir viðkvæmar tennur barnsins og venur það á sætt bragð. Hefur þú skoðað vefinn Hollara val hér á síðunni.

D-vítamín eða lýsi

Líkaminn þarf mismunandi vítamín og steinefni til að vaxa og þroskast. Að jafnaði fá börn nægjanlegt magn af þeim úr næringunni en það gildir þó ekki um D-vítamín. Til að kalk nýtist úr fæðunni og bein þroskist eðlilega er D-vítamín nauðsynlegt. Skortur á því getur valdið beinkröm. Börn með dökkan húðlit, sem búa þar sem sólar nýtur jafn lítið við og á Íslandi, þurfa sérstaklega á D-vítamíni að halda. 

 

Þegar barn byrjar að fá fasta fæðu er hægt að gefa lýsi í stað D-vítamíndropa. Mælt er með að gefa eina teskeið (5 ml) af Krakkalýsi. Æskilegra er að gefa Krakkalýsi en venjulegt þorskalýsi þar sem það inniheldur minna A-vítamín.

D-vítamín er fituleysanlegt vítamín og getur safnast upp í líkamanum sem er óæskilegt. Þess vegna eru gefin út viðmið um efri mörk. Aðeins ætti að gefa umfram skammta af D vítamíni í samráði við lækni. Sjá nánari upplýsingar um D-vítamín á vefsíðu Embættis landlæknis.

 Lýsisflaska

Grautar

Hérlendis hafa hrísmjölsgrautar gefið góða raun sem fyrsta fæða en nú er mælt með að hafa fjölbreytni í vali á ungbarnagrautum. Til viðbótar við hrísmjölsgrauta er ráðlagt að velja grauta úr hirsi og bókhveiti en einnig úr hörfum, rúgi, byggi og hveiti. Ástæðan er sú að vörur úr hrísgrjónum, t.d. grautar og hrísdrykkir, geta innihaldið arsen. Því er ráðlagt að velja grauta úr mismunandi korntegundum og breyta til á milli vörumerkja. Ekki er þó þörf á að útiloka grauta úr hrísmjöli, sjá ráðleggingar varðandi arsen og aðra þungmálma

Mikilvægt er að nota mjöl sem ætlað er ungbörnum og eru ýmsar tegundir grauta á markaði. Æskilegast er að velja járnbættan graut sem er sérstaklega ætlaður ungbörnum og án aukabragðefna en forðast sætar blöndur. Aðeins sumar tegundir eru járnbættar og er því mikilvægt að lesa utan á umbúðir og skoða vel járninnihald. Ef grauturinn er járnbættur koma fram upplýsingar um það í innihaldslýsingu (upptalningu á innihaldsefnum) og getur staðið járn, á ensku iron, á dönsku jern, ferrókarbónat, ferrólaktat eða ferrósúlfat. Ef járn er ekki nefnt í innihaldslýsingu þá er grauturinn ekki járnbættur.

Grauturinn er útbúinn samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. 

Fíngert mauk

Það má byrja að gefa barni á þessum aldri soðið og maukað grænmeti, svo sem kartöflur, gulrætur og rófur, og maukaða ávexti, svo sem banana, epli og perur. Af öðru grænmeti má svo smátt og smátt bæta við spergilkáli (brokkolí), blómkáli, grænum baunum og fleiri tegundum.

Grænmeti og kartöflur þarf að hreinsa vel fyrir suðu, jafnvel afhýða ef ætlunin er að nota soðið. Eins þarf að gæta þess að sjóða matinn það lengi að hann maukist auðveldlega. Hægt er að nota hvítlaukspressu fyrir litla skammta eða töfrasprota til að mauka matinn. Gott er að setja svolítið af soðvatninu og teskeið af matarolíu, ósöltuðu smjöri eða smjörva í stöppuna. Það á alls ekki að salta mat ungbarnsins. Epli má ýmist sjóða og mauka eða skafa með teskeið. Banana er auðvelt að mauka með gaffli. 

Snemma á þessu tímabili má byrja að gefa barninu soðið og vel maukað kjöt (stundum innmat og slátur), fisk, egg, baunir og linsur sem eru járnríkar fæðutegundir. Lifur og lifrarpylsu ætti eingöngu að gefa í hófi, hvorki á hverjum degi né vikulega, en þær vörur innihalda mikið A-vítamín. 

Gott er að nota soðvatnið og olíu, ósaltað smjör eða smjörva til að mauka með og ekki salta mat ungbarnsins. Mikilvægt er að byrja hægt og rólega, gefa lítið í einu til að byrja með. Fljótlega, eða þegar barnið ræður við, má svo fara að gefa brauð í litlum bitum með smuráleggi, t.d. smurosti, lifrarkæfu, maukaðri lárperu (avókadó) eða banana. Mælt er með að gæta fjölbreyti í vali á áleggi þannig að barn fái ekki sama álegg alla daga. Ekki er mælt með brauði með heilum kornum í, en brauð úr grófum mjöltegundum henta vel. 

Tilbúin ungbarnafæða

Mikið er á markaðnum af tilbúnum mat fyrir ungbörn í pökkum, krukkum og nú síðast í pokum. Gæðin eru misjöfn og eru foreldrar hvattir til að kynna sér innihaldslýsingarnar vel.

Glasamatur fyrir ungbörn

Maukaður matur í glerglösum, bæði ávaxtamauk og blandaðar kjötmáltíðir, er vinsæl ungbarnafæða.

Maukið sem hér er á boðstólnum er yfirleitt unnið úr góðu hráefni og er hvorki saltað né blandað aukefnum sem hugsanlega gætu skaðað barnið. Það er því engin ástæða til að tortryggja þessa vöru sérstaklega. Maukið getur komið sér vel þegar mikið liggur við, t.d. á ferðalögum og meðan barnið er ekki farið að borða sama mat og fjölskyldan. Hins vegar mælir margt á móti því að nota tilbúið mauk alla daga en slíkar vörur eru yfirleitt mikið maukaðar og einhæfar.

Pokamatur fyrir ungbörn

Ungbörn sem fá ungbarnamat í pokum (skvísum) sjúga matinn í sig og fá því minni æfingu í að tyggja, þau upplifa ekki lykt og útlit matarins. Því er ekki mælt með að nota slíkt nema endrum og sinnum. Þetta á sérstaklega við eftir 8-9 mánaða aldur þegar barnið þarf að læra að borða venjulegan mat og þjálfa sig í að tyggja og kyngja grófari fæðu en er í fíngerðu maukinu. 

Bíða með venjulega kúamjólk til drykkjar

Ef börn þurfa mjólk til viðbótar við móðurmjólkina eða í staðinn fyrir hana eftir sex mánaða aldur er mælt með stoðblöndu, t.d. íslenskri Stoðmjólk. Stoðmjólk er líkari móðurmjólk að samsetningu en venjuleg kúamjólk og hæfir því barninu betur. Stoðmjólkin inniheldur minna prótein en kúamjólk og er járnbætt.

Mörg börn fá ekki nægilegt járn á þessum aldri, en járnskortur getur haft áhrif á þroska barnsins og heilsu. Því er mælt með Stoðmjólk til viðbótar við móðurmjólkina, eða í staðinn fyrir hana, ef barn er ekki á brjósti til tveggja ára aldurs, m.a. til að tryggja járnneysluna. Hins vegar er rétt að vekja athygli á að Stoðmjólk, rétt eins og ungbarnablanda, er gerð úr kúamjólk. Þau börn sem hafa ofnæmi eða óþol fyrir kúamjólk hafa það því einnig fyrir ungbarnablöndu og Stoðmjólk.

Ráðlagt er að bíða með að gefa barninu venjulega kúamjólk (nýmjólk) til drykkjar þar til að er orðið ársgamalt. Fái barnið ekki Stoðmjólk eða aðra járnbætta mjólk þarf að huga að því að það fái nægjanlegt járn úr annarri fæðu. 

Hæfilegt magn af mjólk

Eftir því sem fjölbreytnin eykst minnkar mjólkurmaturinn. Fyrir þau börn sem eru ekki á brjósti eru um 500 ml af Stoðmjólk talinn hæfilegur dagskammtur þegar barnið er farið að borða fjölbreytt fæði, bæði heita aðalmáltíð, ávexti, grænmeti og graut.

Ráðlagt er að bíða með skyr, súrmjólk, jógúrt, aðrar sýrðar mjólkurvörur og kúamjólk sem máltíð eða út á grauta til eins árs aldurs en í lagi að nota í matargerð. Ekki er mælt með fituskertum mjólkurvörum, t.d. léttmjólk, fjörmjólk, undanrennu, skyri eða léttsýrðum mjólkurvörum, fyrir ungbörn vegna þess hve fitusnauðar og próteinríkar þær eru.

Að sjálfsögðu er ekki mögulegt að mæla mjólkina ofan í brjóstabörnin enda engin ástæða til slíks. Næringarefni úr brjóstamjólk nýtast óvenju vel og því er ákjósanlegt að barnið sé áfram á brjósti. 

Óæskileg fæða fyrir ungbörn

Börnum á fyrsta ári ætti ekki að gefa fituskertar mjólkurvörur, svo sem léttmjólk, undanrennu, fjörmjólk og skyr. Flestar tegundir grænmetis má gefa ungum börnum en þó er rétt að forðast rabbarbara vegna oxalsýru og spínat, sellerí, rauðrófur og fennel vegna mikils magns nítrats í þessum fæðutegundum. 

Unnar kjötvörur og önnur tilbúin fæða, sem ekki er sérstaklega ætluð börnum er óæskileg og forðast ber að nota salt í mat barna. Lifur og lifrarpylsu ætti að gefa í hófi, hvorki á hverjum degi né vikulega, en þær vörur innihalda mikið A-vítamín.

Mikilvægt er að vara við að gefa börnum hnetur, brjóstsykur, poppkorn eða aðra harða bita sem gætu staðið í þeim. Hörfræ og sólblómafræ ætti eingöngu að gefa í hófi, en þau innihalda mikið magn af þungmálminum kadmíum. Einnig ber að forðast sætindi eða sykraðan mat, sérstaklega ber að vara við notkun sætra drykkja, þar með talið hreinna ávaxtasafa, svo sem epla-, appelsínu- eða sólberjasafa. 

Foreldrar eru einnig varaðir við að gefa börnum yngri en 12 mánaða hunang þar sem það getur innihaldið dvalargró Clostridium botulinumsýkilsins og börn geta fengið bótúlisma og veikst alvarlega af því. Ef notuð eru frosin ber er ráðlagt að sjóða þau til að koma í veg fyrir sýkingar. Rétt er að takmarka magn rúsína sem ungum börnum er gefið við hámark 50 g á viku vegna sveppaeiturs sem getur verið til staðar í þeim. Einnig er rétt að benda á að nota kanil í hófi, en mikið magn af kúmaríni, sem er í kanil, getur valdið skaða á lifur hjá ungum börnum. 

Jurtafæði fyrir ungbarnið

Ef börn fá hvorki kjöt né fisk þarf að vanda fæðuval þeirra sérstaklega því það er viss hætta á að einstök næringarefni verði af skornum skammti í fæðunni. Mælt er með að ræða við starfsfólk ung- og smábarnaverndar í slíkum tilfellum til að tryggja að börnin fái öll nauðsynleg næringarefni.

Jurtafæði getur veitt ungbarninu næga næringu, svo framarlega sem það fær mjólk og mjólkurmat og járnbætta grauta, auk annarrar fæðu úr jurtaríkinu. Strangt jurtafæði án mjólkur og eggja (e. vegan) er hins vegar ekki viðunandi næring fyrir ungbarnið nema sérstök kunnátta eða ráðgjöf komi til. Ef móðir sem er með barn á brjósti borðar eingöngu jurtafæði án mjólkur eða eggja getur skort ákveðin næringarefni í móðurmjólkina, sérstaklega B12 vítamín. Dagleg fjölvítamíntafla með B12 vítamíni getur komið í veg fyrir að brjóstamjólk jurtaneytenda verði of vítamínsnauð. 

Hér getur þú lesið nánar um jurtafæði

Ofnæmi

Móðir með barn á brjósti ætti ekki að útiloka fæðutegundir úr eigin mataræði í því skyni að fyrirbyggja ofnæmi hjá barninu. Í dag bendir ekkert til þess að þótt móðir forðist ákveðnar fæðutegundir verndi það gegn eða seinki ofnæmi og óþoli hjá barni. Ef hún hefur sjálf greinst með fæðuofnæmi þarf hún eingöngu að útiloka þær fæðutegundir sem hún er sjálf með ofnæmi fyrir og þá vegna eigin heilsu.

Ekki er ástæða til að fresta innleiðingu á fæðutegundum hjá barninu eða útiloka þær, jafnvel þótt mikið sé um ofnæmi í fjölskyldunni, nema ofnæmi hafi þegar verið staðfest. Mikilvægar fæðutegundir á ekki að útiloka úr mataræðinu án samráðs við heilbrigðisstarfsfólk í ung- og smábarnavernd sem vísa foreldrum með barnið til næringarfræðings/næringarráðgjafa áður en farið er að útiloka einstaka fæðutegundir. 

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.