Fara á efnissvæði
Fara á efnissvæði

Róandi lyf og svefnlyf

Kaflar
Útgáfudagur

Róandi- og svefnlyf eru lyfseðilsskyld og eingöngu afhent í apóteki með ávísun frá lækni. Þau eru aðallega ætluð til meðferðar við miklum kvíða og svefnleysi og geta verið áhrifarík til skamms tíma.

Lyfin henta til notkunar í stuttan tíma en langvarandi notkun án viðeigandi ástæðu getur valdið meiri vanda en meðferðin átti að leysa. Aukaverkanir eru algengar og geta haft áhrif á daglegt líf.

Þessi lyf teljast til ávana- og fíknilyfja og geta valdið líkamlegri eða andlegri vanabindingu við langvarandi notkun án læknisfræðilegrar ástæðu.

Ef meðferð er stöðvuð skyndilega geta komið fram fráhvarfseinkenni eins og kvíði, vanlíðan eða svefntruflanir.

Dæmi um algeng róandi lyf og svefnlyf:

  • Alprazólam (Tafil)
  • Brómazepam (Broman)
  • Klórdíazepoxíð (Librax, Risolid)
  • Klónazepam (Rivotril)
  • Díazepam (Stesolid)
  • Flúnítrazepam (Rohypnol)
  • Flúrazepam (Dalmadorm)
  • Nítrazepam (Mogadon)
  • Oxazepam (Sobril)
  • Tríazólam (Halcion)
  • Zolpídem (Stilnoct, Zovand)
  • Zopiclone (Imovane)
Áður en byrjað er að nota róandi og svefnlyf

Áður en meðferð með svefn- og róandi lyfjum hefst þarf að hafa eftirfarandi í huga:

  • Lyfið er notað í stuttan tíma ásamt öðrum úrræðum, til dæmis ráðgjöf eða samtalsmeðferð
  • Í upphafi meðferðar þarf að gera áætlun um niðurtröppun ef við á
  • Viðvarandi notkun eykur hættu á þoli, ávana og fráhversfeinkennum.
  • Skyndileg stöðvun getur leitt til fráhvarfseinkenna

Ráðlagt er að fá leiðbeiningar um akstur frá heilbrigðisstarfsfólki áður en meðferð hefst. 

Áfengi og önnur slævandi lyf geta aukið líkur á aukaverkunum og skal forðast samhliða notkun svefnlyfja og róandilyfja.

Að draga úr notkun róandi og svefnlyfja

Langvarandi notkun róandi lyfja og svefnlyfja getur haft í för með sér óæskileg áhrif svo sem:

  • „Heilaþoku“
  • Tilfinningadofa
  • Einbeitingarskort
  • Versnun á kvíða eða þunglyndi.
  • Erfiðara að takast á við daglegar aðstæður.

Með tímanum myndast oft þol og lyfið hefur minni áhrif. Þá þarf gjarnan hærri skammta, sem eykur líkur á aukaverkunum sem geta haft áhrif á aksturshæfni, til dæmis:

  • Sljóleiki
  • Skert athygli
  • Hægara viðbragð

Margir sem nota þessi lyf til lengri tíma óska eftir að draga úr notkun þeirra – til dæmis vegna aukaverkana eða ef ástæða notkunar hefur minnkað. Slíkt getur tekið á sérstaklega eftir langa notkun.

Fráhvarfseinkenni sem geta komið fram ef skyndilega er hætt að taka lyfið.

  • Kvíði
  • Skjálfti
  • Hraður hjartsláttur
  • Ógleði
  • Svefntruflunir
  • Krampar
  • Geðræn einkenni

Til að minnka líkur á þessum einkennum þarf að minnka skammtinn af lyfinu smám saman.

Heilbrigðisstarfsfólk getur veitt ráðgjöf og sett saman einstaklingsmiðaða áætlun sem tekur mið af líðan og aðstæðum. Reglulegt eftirlit og samtal tryggja öryggi í ferlinu og breytingar á áætlun eru gerðar í samráði við viðkomandi.

Niðurtröppun getur tekið nokkrar vikur eða mánuði, eftir því hversu lengi lyfið hefur verið notað. Mikilvægt er að forðast skyndilega stöðvun.

Aukaverkanir róandi og svefnlyfja

Róandi- eða svefnlyf jafnvel í litlum skömmtum getur haft slæmar aukaverkanir þar sem þau hafa áhrif á heilastarfsemina og hægja á taugaviðbrögðum. Þekktar aukaverkanir svefn- og róandi lyfja: 

  • Áhrif á minni og einbeitingu
  • Aukin þreyta og syfja yfir daginn
  • Byltuhætta
  • Slysahætta á heimili og í umferðinni.
  • Þvagleki

Hér má sjá nánari upplýsingar um aukaverkanir lyfja.

Aðrar leiðir sem geta hjálpað við að hætta á lyfjameðferð

Á meðan unnið er að því að minnka notkun róandi lyfja eða svefnlyfja getur verið gagnlegt að nýta önnur úrræði til að draga úr einkennum eins og svefnleysi eða kvíða. Slíkar aðferðir geta styrkt niðurtröppun og dregið úr líkum á fráhvarfseinkennum.

Ráð til að bæta svefninn

Aðferðir til að draga úr streitu

Viðbrögð við streitu

Núvitund getur verið öflug til að draga úr streitu, kvíða og þunglyndi

Svefnnámskeið í hugrænni atferlismeðferð getur líka hjálpað