Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Kynþroski drengja

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Kynþroski stráka hefst oftast á aldrinum 9 til 15 ára. Það er einstaklingsbundið hvenær kynþroskinn hefst en það stjórnast mest af erfðum þó aðbúnaður einstaklingsins geti einnig haft áhrif á kynþroskann. Flestir strákar ná fullum kynþroska á aldrinum 15 til 18 ára en eftir það eiga þeir samt eftir að hækka. Hvenær strákar verða kynþroska hefur ekkert með karlmennsku að gera. En það er oft snúin tilvera að vera fljótur eða seinn til þroska. Ef áhyggjur eru af kynþroskanum eða hæðarvexti er ráðlagt að hafa samband við heimilislækni eða skólahjúkrunarfræðing. Einnig má fá ráðleggingar á spjallinu hér á síðunni.

Hárvöxtur

Hár byrja að vaxa á líkamanum þegar kynþroskinn fer af stað og er merki þess að líkaminn er að  þroskast.  Hár vex á kynfærum, undir höndum, á fótleggjum, handleggjum, bringu og í andliti (skegg).  Það er misjafnt hvenær líkamshár byrja að vaxa og hversu mikið  vex.

Röddin

Á kynþroskaárunum breytist rödd stráka og byrjar að dýpka. Það er kynhormón karla, testósterón sem veldur breytingunni í röddinni eins og öðrum breytingum sem verða á líkamanum.
Barkakýlið sem staðsett er í hálsinum stækkar og inni í því eru raddböndin sem lengjast og þykkna. Meðan á því stendur getur verið erfitt fyrir stráka að hafa stjórn á röddinni. Hún getur hljómað ýmist skræk, rám eða djúp. Yfirleitt stendur þetta yfir í nokkra mánuði á meðan líkaminn er að venjast því að hafa stóran barka og þykk og löng raddbönd.

Talað er um að strákur sé í mútum þegar röddin hans er að breytast og verður ýmist skræk, rám eða djúp. Flestir strákar ganga í gegnum þessa breytingu og geta því lent í því að röddin breytist þegar verið er að tala við einhvern. Mörgum finnst þetta vandræðalegt en hægt er að hugga sig við það að þetta er alveg eðlilegt og kemur fyrir flesta ef ekki alla stráka.

Svitamyndun

Svitakirtlar eru dreifðir um yfirborð húðarinnar og verða þeir virkari á kynþroskaárunum. Sviti er vökvi sem inniheldur vatn, sölt og úrgangsefni sem myndast í svitakirtlunum. Meginhlutverk svitans er að hafa stjórn á líkamshitanum og losa líkamann við úrgangsefni.

Líkamslykt

Svitinn sjálfur er lyktarlítill en ef hann fær að liggja á húðinni í nokkrar klukkustundir ná bakteríur að starfa í svitanum og það veldur svitalykt. Því er nauðsynlegt að fara reglulega í sturtu, t.d. annan til þriðja hvern dag og alltaf eftir áreynslu. Það er ekki nauðsynlegt að nota alltaf sápu við daglegan þvott og alltaf ætti að nota hana í hófi.

Þykknun undir geirvörtu

Svæðið undir geirvörtunni getur þykknað örlítið á svipaðan hátt og þegar stelpur fá brjóst. Það eru hormón í líkamanum sem valda þessari stækkun. En öfugt við stelpurnar að þá er þetta alltaf tímabundið hjá strákunum og gengur til baka en stelpurnar fá brjóst.

Kynfæri karla

Kynfærin gera karlinum kleift njóta kynlífs með sjálfum sér og/eða öðrum, að framleiða sáðfrumur, sáðvökva og koma þeim í leggöng konu þar sem sáðfrumur geta synt að eggi og frjóvgað það. Hér er að finna upplýsingar um hvað þú getur gert til að efla heilbrigði kynfæranna.

Ytri kynfæri karla

Typpi er notað til kynlífs og þvagláta. Við kynferðislega örvun fer blóð fram í typpið og það harðnar (bólgnar). Þá er talað um að mönnum standi eða þeim rísi hold, einnig er það kallað að hafa standpínu. Inni í typpingu er þvagrásin sem hefur það hlutverk að flytja þvag og sæði út úr líkamanum. Við fullnægingu spýtist sæði út úr typpinu. Ekki er hægt að hafa sáðlát og pissa á sama tíma.

Algengt er að fá litlar hvítar bólur á typpið. Þær eru saklausar og best er að láta þær í friði. Þær fara að sjálfu sér í flestum tilvikum. Gott er að halda svæðinu hreinu og þvo með vatni daglega og þurrka vel á eftir. Ef bólur valda óþægindum, kláða eða þær fara ekki þarf að leita læknis. Ef þú ert óviss má líka alltaf ræða við heilbrigðisstarfsmann í spjallinu hér á síðunni.

Stærð typpa er einstaklingsbundin. Flest typpi eru 7-10 cm í slökun en 10 til 18 cm þegar mönnum stendur. Lögun og litur typpa er einnig mismunandi. Margir strákar hafa áhyggjur af stærð typpisins eða lögun þess. Þessar vangaveltur eru skiljanlegar en í flestum tilvikum alveg ástæðulausar. Staðreyndin er sú að það er heilinn en ekki typpið sem er mikilvægasta kynfærið þegar kemur að því að stunda kynlíf með öðrum. Þú þarft að geta tjáð þínar langanir og hlustað á langanir þess sem þú ert með. Það er í heilanum sem þessi vinna fer fram og hefur ekkert með stærð typpisins að gera.
Stærð, litur og lögun typpisins ákvarðast að erfðaþáttum. Það er ekkert sem hægt er að gera til að stækka eða minnka typpi. Typpið þroskast á kynþroskaárunum og er oftast komið í sína eðlilegu stærð við 18 ára aldur. 

Forhúð kallast lausa húðin sem er fremst á typpinu. Hefð er í sumum menningarsamfélögum að skera forhúðina af. Þetta er kallaður umskurður og er yfirleitt gert þegar strákar eru ungabörn. Oftast eru drengir umskornir af trúarlegum ástæðum. T.d. umskera múslimar og gyðingar sína stráka. Umskurður er ekki algengur á Íslandi en stundum þarf að skera húðina vegna heilsufarsástæðna, t.d. þegar forhúðin er of þröng. 

Pungurinn er poki utan um eistun. Við kynþroskann dökknar pungurinn og skinnið á honum verður krumpað. Húðin í pungnum getur dregist saman þannig að pungurinn virðist lítill og nokkuð harður en svo getur líka slaknað á henni þannig að pungurinn sé sléttur og slakur. Pungurinn breytir stærð sinni til að viðhalda réttu hitastigi, t.d. þegar líkaminn er kaldur þá krumpast pungurinn saman til að halda hitanum inni.

Innri kynfæri karla

Eistun eru tvö og staðsett í pungnum. Eistun eru egglaga og fullþroska verða þau um 5 cm á lengd og 3 cm á breidd. Pungurinn hjálpar til með hitastjórnun í eistum þar sem hitastigið í eistunum verður að vera aðeins kaldara heldur en líkamshiti til að geta búið til sáðfrumur. Á kynþroskaárunum byrja eistun að framleiða sáðfrumur sem eru kynfrumur karla, einnig framleiða þau testósterón (kynhormón karla).

Nauðsynlegt er fyrir stráka að fylgjast með eistum sínum og þreifa á þeim mánaðarlega.  Skoða þarf hvort stærð eistnanna sé að breytast og hvort hnútar finnist á þeim.  Ástæðan fyrir þessu er að krabbamein í eistum getur komið upp hjá strákum á unglingsaldri og því fyrr sem það uppgötvast því betri líkur eru á að lækna það. Hér er að finna leiðbeiningar um sjálfskoðun eistna.

Eistnalyppur liggja ofan á hvoru eista. Hlutverk þeirra er að þroska sáðfrumurnar sem hafa myndast í eistunum.

Sáðrás flytur sáðfrumur frá eistum og út úr typpi við sáðlát.

Sáðblaðra býr til næringarríkan vökva sem gerir sáðfrumum kleift að synda út úr líkamanum.

Blöðruhálskirtill framleiðir vökva með næringarefnum fyrir sáðfrumur. Stækkar með aldrinum.

Sæði

Er hvítur og slímkenndur vökvi sem kemur úr typpi við sáðlát.  Í sæði eru sáðfrumur ásamt vökva frá blöðruhálskirtli og sáðblöðru sem blandast saman í sáðrásinni. Þegar strákur fær sáðlát losna milljónir sáðfruma út úr typpinu, að meðaltali 200-300 milljónir sáðfruma. Aðeins þarf eina sáðfrumu til að frjóvga egg hjá konu til að hún verði þunguð. Eina leiðin til að koma í veg fyrir þungun er að nota getnaðarvarnir.

Áferð og bragð

Sáðfrumurnar sjást ekki í sæðinu með berum augum heldur þarf smásjá til að sjá þær. Sæði er yfirleitt hvítt eða grágult á litinn og er ýmist matt eða gegnsætt. Sæði getur haft salt, beiskt eða sætt bragð. Það getur verið þykkt, kekkjótt og klístrað. Með öðrum orðum þá getur sæði verið mismunandi milli einstaklinga. Bragðið getur meira að segja verið mismunandi og fer það oftast eftir mataræði einstaklingsins, hvort hann reykir, drekkur áfengi eða tekur einhver lyf.

Magn

Meðalmagn við hvert sáðlát er ein teskeið en það getur verið minna hjá sumum og meira hjá öðrum. Ef stutt er síðan strákur hafði sáðlát síðast eru meiri líkur á magnið verði minna. Eins ef það er langt síðan hann hafði sáðlát þá getur magnið orðið meira en svo þarf það ekki endilega að vera þannig. Magn sæðis segir ekkert til um hversu margar sáðfrumur eru í sæðinu.

Sáðlát í svefni - blautir draumar

Að hafa sáðlát í svefni er oft kallað að hafa blauta drauma. Það er eðlilegt og flestir strákar upplifa sáðlát í svefni en það eldist af þeim. Að fá sáðlát í svefni þarf ekki að tengjast kynferðislegum draumum.