Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Sólbruni

Kaflar
Útgáfudagur

Útfjólubláir geislar sólarinnar geta valdið sólbruna. Sólbruni getur verið mildur roði og húðin flagnar. En hann getur einnig verið djúpur þannig að húðin bólgnar og vessafylltar blöðrur koma á hana með tilheyrandi hættu á sárum og sýkingum. 

Að koma í veg fyrir sólbruna er mikilvægt því þeir sem sólbrenna eru í meiri hættu en aðrir að fá húðkrabbamein síðar á ævinni. Hér eru upplýsingar um hvernig koma má í veg fyrir sólbruna

Hvað get ég gert?

Þegar þú gerir þér grein fyrir að þú ert að sólbrenna þarf strax að bregðast við með því að:

  • Hylja svæðið sem er að brenna fyrir sólinni. Fara inn úr sólinni ef það er hægt eða fara í föt sem skýla brennda svæðinu.
  • Kæla svæðið sem er að brenna. Þetta er gott að gera með vatni t.d. svöl sturta eða leggja blautt stykki á svæðið og halda því blautu og köldu. 
  • Nota Aloe vera gel á brennda svæðið.
  • Drekka vel af vökva til að koma í veg fyrir ofþornun.
  • Ef þörf er á má taka verkjalyf eins og paracetamól eða íbúprófen. 
  • Halda húðinni rakri með Aloe vera kremi eða geli þar til einkenni eru horfin.

Oftast eru sólbrunar þannig að hægt er að meðhöndla þá heima. Ef bruninn er ekki þeim mun verri grær húðin á vikutíma. 

Hvenær skal leita aðstoðar?

Sólbruni getur verið svo slæmur að ástæða sé til að leita til heilsugæslunnar til að fá aðstoð og sérhæfða meðferð. Ef eitthvað af eftirfarandi á við skaltu leita til næstu heilsugæslu eftir aðstoð.

  • Brennda svæðið er stór hluti líkamans og þú hefur áhyggjur af brunanum.
  • Djúpur bruni með vessafylltum blöðrum og/eða bólgu í húðinni, sér í lagi ef brennda svæðið er stórt.
  • Hækkaður líkamshiti - yfir 38°C.
  • Vanlíðan eins og höfuðverkur, slappleiki, lystarleysi og ruglástand sem getur bent til sólstings.

Finna næstu heilsugæslustöð.

Forvarnir

Vertu sólklár og komdu í veg fyrir að þú og þínir brennið í sólinni. Hér má lesa um börnin og sólina, sólkrem og hvernig koma má í veg fyrir sólbruna.