Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Skarlatssótt

Kaflar
Útgáfudagur

Skarlatssótt (e. scarlet fever) er smitsjúkdómur sem orsakast af streptókokka bakteríu af flokki A. Bakterían getur einnig valdið hálsbólgu og eru langflestir sem fá skarlatssótt einnig með einkenni streptókokkahálsbólgu. Einkennandi fyrir sjúkdóminn eru rauð útbrot sem koma fram þegar bakterían gefur frá sér eiturefni.

Skarlatssótt er algengust meðal barna og unglinga undir 18 ára en fullorðnir geta einnig fengið sjúkdóminn.

Einkenni

Fyrstu einkenni skarlatssóttar eru flensulík einkenni:

 • Hálssærindi og bólgnir hálskirtlar
 • Hiti ≥38.5C
 • Útbrot á líkama geta komið fram 12-48 klukkustundum seinna

Útbrot byrja oftast á bringu og kvið en dreifast síðan um líkamann. Útbrotin eru eins og litlar bólur á líkamanum sem geta valdið því að húðin verður gróf viðkomu eins og sandpappír.

Önnur einkenni:

 • Hvítar skellur aftast í hálsi
 • Rauð og bólgin tunga, getur einnig komið eins og litlar bólur á tunguna sem minnir á jarðaber 
 • Rauðar kinnar, andlitið verður örlítið bleikt en fölvi umhverfis munn

Smitleiðir

 • Sjúkdómurinn smitast auðveldlega milli manna með dropasmiti, það er þegar einstaklingur sem er smitaður hóstar eða hnerrar út í andrúmsloftið.
 • Skarlatssótt getur borist með beinni snertingu eins og handabandi, kossi eða faðmlagi. Einnig er hægt að smitast með því að snerta hluti sem hinn veiki hefur snert eins og leikföng eða handklæði.
 • Skarlatssótt er smitandi nokkrum dögum fyrir veikindi og þar til 24 klukkustundir eru liðnar frá því að fyrsti sýklalyfjaskammtur er tekinn.
 • Án sýklalyfja getur fólk verið smitandi í 2-3 vikur eftir að einkenni koma fram.
 • Börn geta borið sjúkdóminn en verið einkennalaus og eru þrátt fyrir það smitandi.

Greining

Greining byggir á sjúkdómseinkennum með því að skoða háls, tungu og útbrot. Einnig er hægt að taka strok úr hálsi til að greina streptókokka með hraðprófi.

Meðferð

Sjúkdómurinn er meðhöndlaður með sýklalyfjum en ekkert bóluefni er til gegn skarlatssótt. Mikilvægt er að klára sýklalyfjaskammtinn þrátt fyrir að einkenni séu farin. Útbrotin hverfa oftast á 3-5 dögum. 

Börn ættu að vera heima þar til þau eru orðin hitalaus og líðan er orðin góð. Ráðlagt er að vera heima í að minnsta kosti í sólarhring eftir að sýklalyfjameðferð hefst.

Forvarnir
 • Reglulegur handþvottur, sérstaklega eftir hósta eða hnerra og áður en matur er meðhöndlaður
 • Hnerra og hósta í bréfþurrku og farga sem fyrst
 • Ekki deila borðbúnaði, handklæði né öðru slíku með einstaklingi sem er með einkenni skarlatssóttar

Hvað get ég gert?

 • Borða mjúka fæðu ef um einkenni hálsbólgu er að ræða
 • Drekka vel
 • Kláðastillandi meðferð, krem eða töflur
 • Taka hitalækkandi verkjalyf 

Hvenær skal leita aðstoðar?

Ráðlagt er að leita til heilsugæslunnar ef um eitt eða fleiri ofangreind einkenni er að ræða.

Finna næstu heilsugæslu hér.