Mýgulusótt

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Mýgulusótt eða gulusótt (e. yellow fever) er veirusjúkdómur sem er landlægur í Mið- og Suður Ameríku, sumum ríkjum Afríku og víðar. Vel er fylgst með útbreiðslu mýgulusóttar og er mikilvægt að skoða þær tilkynningar út frá ferðatilhögun hverju sinni.

Einkenni

Fyrstu einkenna gulusóttar verður oft vart 3-6 dögum eftir að fólk fær veiruna í sig. Þekkt einkenni eru:

• Hár hiti og vanlíðan
• Ógleði og/eða uppköst
• Höfuðverkur
• Beinverkir
• Lystarleysi
• Viðkvæmni við birtu

Fjórðungur þeirra sem fá veiruna í sig finna einnig fyrir alvarlegri einkennum:

 • Gula (gulur húðlitur og gul hvíta í augum)
 • Blæðing frá munn- og nefholi, augum eða eyrum
 • Blóðug uppköst
 • Blóðugur niðurgangur

Orsök

Moskítóflugur bera veiruna í fólk með biti. Veiran er landlæg í mörgum löndum og moskítóflugur sem bera hana finnast í borgum og í dreifbýli. Þær bíta allan sólarhringinn en þó aðallega yfir daginn. Moskítóbit geta einnig valdið öðrum lífshættulegum sjúkdómum. Gulusótt smitast ekki á milli manna.

Greining

 • Lýsing á nýafstöðnu ferðalagi og aðstæðum þar
 • Lýsing á einkennum
 • Blóðprufa til að greina sýkinguna

Ef grunur vaknar um gulusótt á ferðalagi þar sem sjúkdómurinn er landlægur skal án tafar leita læknisaðstoðar. Verði einkenna vart eftir að komið er heim úr ferðalagi skal hafa samband við næstu heilsugæslustöð.

Meðferð

• Engin lækning er til við gulusótt.
• Veikindi standa oftast yfir í 3-4 daga.
• Margir ná fullum bata en dánartíðni er há meðal þeirra er fá alvarleg einkenni
• Á meðan á veikindum stendur er mikilvægt að tryggja næga vökvainntekt, notast við hitalækkandi- og verkjalyf eins og parasetamol og ibúfen

Forvarnir

 • Bólusetning er öruggasta vörnin gegn mýgulusótt. Það tekur líkamann 10 daga að mynda mótefni.
 • Forðast moskítóbit. Með því móti má koma í veg fyrir fjölda sjúkdóma.
 • Sum ríki gera kröfu um að ferðafólk sé bólusett gegn mýgulusótt og hafi meðferðis alþjóðlegt skírteini því til staðfestingar.
 • Mælt er með að kynna sér vel reglur þeirra landa sem ferðast er til.
 • Á netspjalli Heilsuveru er hægt að óska eftir bólusetningaráætlun fyrir ferðalög til annarra landa. 
Bóluefnið
 • Bólusetning gegn gulusótt veitir ævilanga vörn og því ekki þörf á örvunarbólusetningu síðar.
 • Bóluefnið inniheldur lifandi en veiklaðar veirur.  Það veldur því að fólk t.d. á ónæmisbælandi meðferð er ráðið frá því að þiggja bólusetningu.
 • Ekki er mælt með því að gefa bóluefnið eftir sextugt. 
 • Ef bólusetning er ekki ráðlögð þarf fólk að hafa læknisvottorð því til staðfestingar.
Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.