Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Mjólkuróþol

Kaflar
Útgáfudagur

Mjólkuróþol (e. lactose intolerance) er þegar líkaminn á erfitt með að melta mjólkursykur (laktósa) í mjólkurvörum. Þetta stafar af minnkaðri virkni eða skorti á ensíminu laktasa sem brýtur niður mjólkursykur í meltingarveginum. Þetta veldur því að mjólkursykurinn frásogast ekki í þörmunum og fer ómeltur niður í ristilinn þar sem bakteríur geta nýtt sér hann. Mjólkuróþol og mjólkurofnæmi er ekki sami hluturinn og er mjólkuróþol mun algengara.

Einkenni

Einkenni mjólkuróþols koma fram innan nokkurra klukkustunda eftir neyslu matar eða drykkja sem innihalda mjólkursykur. Einkenni geta verið:

 • Vindgangur
 • Niðurgangur
 • Uppþemba
 • Krampar og verkir í maga
 • Óhljóð frá maga
 • Ógleði

Alvarleiki einkenna fer eftir því magni mjólkursykurs sem neytt hefur verið. Sumir geta drukkið lítið glas af mjólk án þess það kalli fram einkenni meðan aðrir geta jafnvel ekki notað mjólk í kaffið.

Greining

Greining á mjólkuróþoli fer fram með því að skrá einkenni og mataræði og reyna að skoða hvort samhengi er á milli einkenna og þeirra fæðu sem borðuð er. Stundum er samhengið mjög skýrt sérstaklega ef einkennin koma um leið eða rétt eftir að viðkomandi borðar það sem hann er með óþol fyrir. En oft koma einkennin mun síðar og þá getur verið erfiðara að átta sig á samhenginu.

Einkenni mjólkuróþols geta verið svipuð einkennum annarra sjúkdóma, svo það er mikilvægt að leita til heimilislæknis til að fá greiningu áður en mjólk og mjólkurafurðir eru teknar úr mataræði. 

Hvað get ég gert?

Einstaklingar með mjólkuróþol þurfa að sneiða hjá matvælum með mjólkursykri (laktósa). Mismunandi er milli einstaklinga hversu miklar mjólkurvörur þeir þola. Hver og einn þarf að finna út hvaða mat viðkomandi þolir og lesa innihaldslýsingar matvæla vel. Mjólkurvörur eru oft kalkríkar svo þegar sneitt er hjá þeim er mikilvægt að tryggja að nægjanlegt kalk og D-vítamíni sé í fæðunni.

Forðast matvæli sem innihalda:

 • Mjólk
 • Mjólkurduft
 • Mjólkursykur(laktósa)
 • Mysu
 • Mysuprótein
 • Sýrðan rjóma

Mjólkurvörur sem innihalda lítinn mjólkursykur og matvæli sem þolast oft vel:

 • Laktósafríar mjólkurvörur
 • Cheddar, svissneskur og mozzarella-ostur
 • Smjör
 • Jógúrt
 • Möndlu-, soja- og hrís-haframjólk

Hægt er að kaupa góðgerla sem hjálpa til við niðurbrot mjólkursykurs án lyfseðils í apóteki. Sumum gagnast að taka þessa góðgerla. Einnig getur dregið úr einkennum mjólkuróþols með tímanum með því að smá bæta mjólkursykri inn í mataræðið.