Mjólkurofnæmi (e. milk allergy) er þegar ónæmiskerfi líkamans ræðst gegn ákveðnum próteinum í mjólkinni. Það er mun sjaldgæfara en mjólkuróþol en þá þolir líkaminn illa mjólkursykur (laktósa). Mjólkurofnæmi er eitt algengasta fæðuofnæmi barna en talið er að 2-3% barna undir 3 ára aldri séu með ofnæmi fyrir kúamjólk. Sjaldgæfara er að það hafi áhrif á börn sem eru eingöngu á brjósti vegna kúamjólkur í mataræði móðurinnar sem berst þá til barnsins í gegnum brjóstamjólkina. Líklegt er að um 80% barna með mjólkurofnæmi vaxi upp úr því fyrir 16 ára aldur.
Í kúamjólk eru um 20 mismunandi tegundir próteina. Þau mjólkurprótein sem talið er að séu algengustu ofnæmisvaldarnir í mjólk eru lactóglóbúlín, lactalbúmín og kasein sem er mysupróteinið.
Einkenni
Einkenna verður venjulega fyrst vart þegar kúamjólk bætist við fæðu barns, annað hvort í pela eða þegar barn byrjar að borða fasta fæðu. Ýmis einkenni geta fylgt mjólkurofnæmi og eru þau mjög einstaklingsbundin en algengustu einkennin eru:
- Húðviðbrögð - s.s. rauð kláðaútbrot eða þroti í vörum, andliti og kringum augu
- Meltingartruflanir – s.s. magaverkur, uppköst, magakrampar, niðurgangur eða hægðatregða
- Nefrennsli eða stíflað nef
- Exem sem lagast ekki við hefðbundna meðferð
Alvarlegri og sjaldgæfari einkenni sem geta komið skyndilega geta verið:
- Þroti í munni eða hálsi
- Önghljóð, hósti, mæði og erfið, hávær öndun
- Blæðingar í meltingarvegi og blóðtap með hægðum
Greining
Við greiningu er mikilvægt að fá nákvæma sögu; hvað var borðað og hvenær, hvaða einkenni komu fram, hversu lengi þau stóðu og hvað gert var til að draga úr þeim. Mjólkurofnæmi er hægt að greina með húðprófi og RAST-prófi sem er blóðprufa. Þó er oft ekki eingöngu hægt að styðjast við þessi próf við greininguna heldur er sjúkdóms-og fæðissagan einnig mikilvægur þáttur í greiningunni.
Hvað get ég gert?
Eina meðferðin við mjólkurofnæmi er að útiloka alla kúamjólk og mjólkurmat úr fæðunni. Sumir þola að borða mjólk í litlu magni sem hefur verið hituð mikið t.d. í bökuðu brauði og kökum. Mikilvægt er að lesa vel innihaldslýsingar á matarumbúðum því mjólkurprótein er að finna í ýmsum unnum matvælum.
Þegar forðast á allar mjólkurvörur er mikilvægt að tryggja að viðkomandi fái nægjanlegt kalk. Nauðsynlegt er að nota kalkbættar matvörur í staðinn fyrir mjólk. Smábörnum eru oft gefin amínósýrumjólk í staðinn fyrir mjólk. Amínósýrumjólk er kalkbætt þurrmjólk sem inniheldur eingöngu amínósýrur sem eru byggingareiningar próteina og eru ekki ofnæmisvaldandi. Kalkbættar mjólkurvörur sem hægt er að nota í stað kúamjólkur eru m.a. hafra-, hrís-, möndlu- og sojamjólk. Ef þessar kalkbættu matvörur eru ekki notaðar í staðinn fyrir mjólk þá þarf að hugsa um að taka inn kalkviðbót.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Vakni grunur um mjólkurofnæmi er rétt að leita til heilsugæslunnar.
Við alvarlegum ofnæmisviðbrögðum eins og öndunarerfiðleikum er nauðsynlegt að leita á bráðamóttöku eða hringja í 112.
Þeir sem eiga á hættu að fá alvarleg ofnæmisviðbrögð eða bráðaofnæmi ættu að ganga með Medic-alert armband og Epi-pen (adrenalín penna).
Finndu næstu heilsugæslu hér.