Fara á efnissvæði
Fara á efnissvæði

ME sjúkdómur

Kaflar
Útgáfudagur

ME sjúkdómur (e. myalgic mncephalomyelitis) er taugaónæmissjúkdómur sem veldur bólgum í heila og mænu með vöðvaverkjum. Sjúkdómurinn hefur áhrif á mörg líffærakerfi. Helsta einkenni ME er yfirþyrmandi þreyta eða örmögnun en orsök sjúkdómsins er óþekkt. 

Nánar

Sjúkdómurinn hefur áhrif á líkamann í heild. Hann hefur hamlandi áhrif á ýmsu starfsemi líkamans, sem dæmi taugakerfi, ónæmiskerfi og efnaskipti. Líkaminn hefur því skerta getur til að framleiða orku og starfa sem áður. Sjúkdómurinn getur lagst á fullorðna sem og börn. Flestir fá ME eftir veirusýkingar. 

Einkenni

Einkenni geta verið margvísleg en helstu einkenni eru:

  • Örmögnun - Gerir það að verkum að jafnvel athafnir daglegs lífs verða erfiðar 
  • Svefnerfiðleikar - Svefnleysi, svefnhöfgi, upplifun um skert svefngæði, þreyta eða stirðleiki þegar fólk vaknar
  • Truflun við hugsanir, minni og einbeitingu, stundum kallað heilaþoka
  • Flensulík einkenni - Til dæmis hár hiti, höfuðverkur og verkir í liðum eða vöðvum.

Einkennandi fyrir sjúkdóminn eru svokölluð PEM köst (e.post exertional malaise). Þegar einkenni versna eftir líkamlegt, félagslegt eða andlegt álag. Matarboð eða ferðalag getur framkallað PEM kast. Einkenni geta komið fram fyrirvaralaust allt að nokkrum dögum eftir álag.

PEM köst geta staðið yfir frá nokkrum klukkustundum í nokkra mánuði í senn. Þróttleysi er þá gríðarlegt og takmörkuð orka er til þess að horfa á sjónvarp eða lesa bók vegna skynfæraálags.

Önnur einkenni geta verið:

  • Beinverkir
  • Fæðuóþol
  • Hálssærindi án hálsbólgu
  • Hjartsláttaróregla
  • Hita eða kuldahrollur
  • Höfuðverkur
  • Ljósfælni
  • Svimi

Greining

Ekki er til formleg rannsókn sem greinir ME en greining fer eftir einkennum og fellst í því að útiloka aðra kvilla sem gæti verið að valda þeim.

Einkenni ME geta einnig fylgt öðrum sjúkdómum eða kvillum og því getur tekið tíma að fá greiningu.

Meðferð

Meðferð er sérsniðin að einkennum hvers og eins. Ekki er til lækning en til eru meðferðir sem geta hjálpað til við að hafa stjórn á sjúkdómseinkennum og minnka einkenni.

Meðferð felur í sér:

  • Orkustjórnun/virkniaðlögun - hjálpar fólki að stjórna daglegu lífi svo það geti nýtt orkuna sem best án þess að gera einkennin verri og þar af leiðandi örmagnist síður.
  • Hugræna atferlismeðferð
  • Lyfjameðferð: Sem dæmi við verkjum 
  • Meðferð við svefntruflunum 

Hvað get ég gert?

  • Forðast mikið álag jafnvel þótt það sé tilkomið af jákvæðum og skemmtilegum viðburðum
  • Setja tímatakmörk á athafnir
  • Hlusta á líkamann - Forgangsraða og velja vandlega verkefni
  • Skrifa niður í dagbók virkni og einkenni og þannig fylgjast með framgangi sjúkdóms
  • Borða hollan og næringarríkan mat – Fólk með ME á það til að vera vannært þar sem orka er lítil og í PEM köstum er takmörkuð geta til að nærast og halda niðri fæðu

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leita til heilsugæslu ef:

Grunur er um ME sjúkdóm

Fræðslumyndband um ME sjúkdóm