Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Legslímuflakk

Kaflar
Útgáfudagur

Legslímuflakk (e. endometriosis) er ástand þar sem vefur sem líkist legslímhúð vex annars staðar í líkamanum, oftast í grindarholi. Orsakir sjúkdómsins eru óþekktar. Helstu einkenni eru miklir kviðverkir einkum í kringum blæðingar. Mörg önnur almenn einkenni eru þekkt og því er greining flókin og getur tekið langan tíma. Meðferðir felast aðallega í verkjastillingu og að koma í veg fyrir skerðingu á daglegu lífi. 

Einkenni

Sjúkdómurinn er langvarandi, einkenni endómetríósu eru breytileg milli einstaklinga og geta verið mismunandi milli mánaða og ára hjá sömu manneskju.

Algengustu einkenni legslímuflakks eru kviðverkir í kringum tíðablæðingar. Önnur þekkt og algeng einkenni eru:  

  • Miklar blæðingar 
  • Slæmir tíðaverkir 
  • Verkir á meðan eða eftir kynlíf  
  • Vandamál tengd meltingarfærum 
  • Bakverkir með leiðni niður í fætur 
  • Þreyta og vanmáttartilfinning 
  • Andleg vanlíðan 
  • Ófrjósemi 

Hjá mörgum minnka einkenni eftir tíðahvörf vegna minni estrógen framleiðslu.

Orsakir

Í eðlilegum tíðahring verða blæðingar ef engin frjóvgun hefur átt sér stað. Þá hrörnar legslímið og skilst út um leggöng. Af óþekktum orsökum getur legslím sloppið eða komist úr leginu og tekið sér bólfestu í kviðarholinu. Nafn sjúkdómsins, legslímuflakk, er því mjög lýsandi fyrir ástandið. Slímhúð sem sleppur frá legi getur fundist á ýmsum stöðum en þeir helstu eru: 

  • Kviðarhol 
  • Lífhimna 
  • Eggjastokkar 
  • Eggjaleiðarar 
  • Ristill 
  • Þvagblaðra 
  • Þind 
  • Lungnaþekja 

Tíðablæðingar hafa áhrif á legslím hvar sem það er í líkamanum. Með tímanum getur slímhúð sem hefur flakkað á rangan staði orðið til þess að blöðrur og samgróningar myndast sem getur valdið miklum verkjum og óþægindum.  

Áhættuþættir

  • Byrja snemma á tíðarblæðingum
  • Fara seint á breytingarskeið
  • Fjölskyldusaga, fleiri en einn ættingi með endómetríósu
  • Hafa ekki fætt barn
  • Hafa stuttan tíðarhring
  • Hátt gildi estrógens í líkama
  • Lár líkamsstuðull
  • Miklar tíðarblæðingar sem standa í meira en 7 daga
  • Stuttur tíðarhringur, innan 27 dagar

Greining

Þar sem einkenni eru breytileg og ólík á milli einstaklinga getur tekið langan tíma að greina sjúkdóminn. Til að unnt sé að greina sjúkdóminn rétt þarf að útiloka aðra sjúkdóma. Rannsóknarferlið getur meðal annars innihaldið: 

  • Ítarlega heilsufarssögu  
  • Kviðarholsspeglun 
  • Ómun af æxlunarfærum  
  • Ristilspeglun 
  • Röntgenmynd af lungum
  • Segulómun af kvið 
  • Skoðun hjá kvensjúkdómalækni  

Meðferð

Þar sem einkenni legslímuflakks eru mjög ólík á milli einstaklinga þá er meðferð að sama skapi mismunandi. Áherslan er lögð á að ná góðri verkjastillingu og í þeim tilgangi er notast bæði við verkjalyf og hormónalyf sem draga úr hinum miklu áhrifum tíðahringsins. Í einstaka tilfellum er gripið til skurðaðgerðar en aðeins þegar lyfjameðferð hefur ekki sýnt tilætlaðan árangur.

Legslímuflakk getur haft mikil áhrif á líf og líðan. Langvarandi verkir geta skert lífsgæði og oft þarf þverfaglegt teymi fólks til að bæta lífsgæðin eins og kostur er. Til viðbótar við heimilislækna og hjúkrunarfræðinga koma kvensjúkdómalæknar, sálfræðingar, félagsráðgjafar og sjúkraþjálfarar oft að þeirri meðferð sem sett er upp í samráði við sjúklinginn.

Hvað get ég gert?

Ef áhyggjur vakna er ráðlagt að leita til heilsugæslunnar. Hver og einn verður að finna út hvað hentar og reynist best. Á heilsugæslunni starfar teymi fagfólks sem getur aðtoðað fólk við að ná betri stjórn á aðstæðum og er reiðubúið að veita stuðning í vegferð að heilbrigðara og innihaldsríkara lífi..   

Það er mikilvægt öllum að ástunda heilbrigt líferni þ.e.a.s. að neyta ráðlagðrar næringar, stunda hreyfingu reglulega, tryggja góðan nætursvefn og huga að andlegri líðan.

Hægt er að hafa samband við hjúkrunarfræðing á heilsugæslunni, á netspjalli á heilsuvera.is eða í síma 1700. 

Hér finnur þú næstu heilsugæslustöð.