Hettusótt er bráð og mjög smitandi veirusýking sem leggst oftar á börn en fullorðna. Sýkingin er yfirleitt hættulaus og gengur fljótt yfir en hún er þekkt fyrir að valda alvarlegum fylgikvillum sérstaklega hjá unglingum og fullorðnum. Flestir fá hettusótt bara einu sinni á ævinni.
Einkenni
Einkenni sjúkdómsins eru oftast væg hjá börnum en leggjast þyngra á unglinga og fullorðna. Helstu einkenni eru hiti, slappleiki, bólga og særindi í munnvatnskirtlum, höfuðverkur, erfiðleikar við að tyggja og lystarleysi.
Unglingar og fullorðnir fá frekar fylgikvilla en börn. Alvarlegir fylgikvillar geta verið, heilabólga, heyrnarskerðing, bólga í brjóstum, briskirtli, eggjastokkum eða eistum. Bólga í síðast töldu líffærunum getur valdið ófrjósemi.
Smitleiðir og meðgöngutími
Smit berst með úða frá öndunarfærum (t.d. með hnerra). Meðgöngutími sjúkdómsins, það er sá tími sem líður frá því að einstaklingur smitast og þar til sjúkdómseinkenni koma fram, er um 2-3 vikur. Sjúkdómurinn getur verið misalvarlegur, sumir eru nánast einkennalausir meðan aðrir geta orðið mikið veikir og fengið fylgikvilla.
Greining
Grunsemdir um sjúkdóminn fást með læknisskoðun, en staðfesting fæst með mótefnamælingu í blóði eða ræktun veirunnar í munnvatni.
Meðferð
Engin sértækt meðferð er til við hettusótt. Einstaklingum með hettusótt er ráðlagt að drekka vel, vera í hvíld og nota verkjalyf. Halda skal börnum heima þar til einkenni sjúkdómsins hafa gengið yfir. Í alvarlegri tilvikum getur þurft að leggja sjúklinga inn á sjúkrahús.
Bólusetning gegn hettusótt hófst hér á landi 1989 sem hluti af barnabólusetningum. Í dag eru börn bólusett gegn hettusótt, mislingum og rauðum hundum í einni sprautu við 18 mánaða og 12 ára aldur. Það gefur góða vörn gegn sjúkdómnum.
Árin 2005, 2006 og 2015 kom upp faraldur hettusóttar á Íslandi. Þá veiktust einkum einstaklingar um tvítugt sem ekki höfðu smitast af hettusótt sem börn eða fengið fullnægjandi bólusetningu gegn sjúkdómnum. Dregið hefur úr algengi sjúkdómsins hér á landi eftir að byrjað var að bólusetja gegn honum 1989. Það eru helst þeir sem fæddir eru fyrir 1989, hafa ekki fengið sjúkdóminn eða eru óbólusettir sem er hætt við að fá hettusótt.
Finna næstu heilsugæslustöð hér.