Háfjallaveiki (e. acute mountain sickness, AMS) getur átt sér stað þegar ferðast er upp í mikla hæð á skömmum tíma. Andrúmsloftið þynnist þegar ofar dregur og öndunarerfiðleikar geta gert vart við sig þar sem súrefnisupptaka minnkar. Háfjallaveiki getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér ef ekkert er viðhaft.
Háfjallaveiki er ekki einungis þekkt á meðal fjallgöngufólks. Ferðalangar sem eiga leið um borgir sem eru meira en 2.500 m yfir sjávarmáli geta einnig fundið fyrir veikinni. Hægt er að veikjast af háfjallaveiki hvenær sem er á lífsleiðinni. Aldur, kyn og líkamlegt hreysti hafa ekki áhrif á líkurnar á að veikjast af háfjallaveiki.
Einkenni
Einkenni háfjallaveiki koma fyrst fram eftir 6-24 tíma dvöl í meira en 2.500 m yfir sjávarmál. Einkennin minna á almenn veikindi og eru oft verri á nóttinni.
- Höfuðverkur
- Ógleði
- Svimi
- Þreyta
- Lystarleysi
- Mæði
Auk þess geta komið fram alvarleg einkenni:
- Máttleysi
- Skortur á samhæfingu
- Rugl ástand
- Ofskynjanir
- Bláar varir eða húð
- Öndunarerfiðleikar, einnig í hvíld
- Brjóstverkur
- Þrálátur hósti. Hósta upp bleiku eða hvítu, froðukenndu slími.
Fólk með alvarlegri einkenni áttar sig ekki alltaf á veikindunum. Það getur haldið því fram að ekkert sé að og vilja vera látin í friði.
Meðferð
Ef grunur er um háfjallaveiki er mælt með að:
- Stoppa og hvíla sig á staðnum
- Bíða með hækkun næstu 24-48 tímana
- Taka inn verkjalyf
- Drekka vel af vatni
- Sleppa tóbaki, áfengisdrykkju og hreyfingu
Gott er að láta ferðafélagana vita af líðan og einkennum, jafnvel þótt þau séu væg. Þegar fólk fær háfjallaveiki er hætt við að það vanmeti aðstæður.
Bíða skal með hækkun þar til einkennin eru alveg horfin. Óhætt er að halda hækkuninni áfram þegar fullum bata er náð en með varkárni.
Forvarnir
Best er að fyrirbyggja háfjallaveiki með því að hækka sig rólega upp yfir 2.500 m hæð. Alla jafna tekur það líkamann nokkra daga að aðlagast hæðinni. Einnig er hægt að:
- Reyna að fljúga ekki beint á svæði í mikilli hæð
- Hvílast í 2-3 daga, stoppa á leiðinni og aðlagast hæðinni áður en haldið er áfram í yfir 2.500 m hæð
- Forðast meira en 300-500 m hækkun á dag
- Hafa hvíldardag við hverja 600-900 m hækkun eða 3-4 hvern dag
- Drekka vel af vatni
- Sleppa áfengis drykkju og tóbaks notkun
- Forðast líkamleg erfiði fyrstu 24 tímana
- Borða létta máltíð með mikið af hitaeiningum
Hvað get ég gert?
- Ef einkennin versna eða lagast ekki eftir sólarhrings hvíld skal fara í lægri hæð ef hægt er. Viðmiðið er 300 til 1.000 metra lækkun til að draga úr einkennum.
- Eftir 2-3 daga ætti líkaminn að hafa aðlagast hæðinni og vera laus við einkenni. Þá ætti að vera óhætt að halda ferðalaginu áfram ef einkennin hafa ekki verið alvarleg.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leita þarf læknishjálpar ef að einkennin hverfa ekki eða versna. Ef að alvarlegri einkenni gera vart við sig þarf að fara niður eins fljótt og hægt er.
Þá gæti þurft að gefa viðkomandi súrefni og/eða lyf til að vinna bug á háfjallaveikinni.
Á ferðalögum í mikilli hæð er ráðlagt að vera með eftirfarandi lyf meðferðis:
- Paracetamól og íbúprófen við höfuðverk.
- Acetazolamíð, dregur úr einkennum háfjallaveiki. Lyfseðilsskylt lyf.
- Dexamethasone, steralyf sem dregur úr einkennum háfjallaveiki. Lyfseðilsskylt lyf.
- Ráðlagt er að panta tíma hjá lækni með góðum fyrirvara, hægt er að panta tíma með því að hringja á næstu heilsugæslu.