Fimmta veikin (e. slapped cheek syndrome) er veirusýking sem orsakast af veiru sem kallast Parvoveira B19. Um vægan sjúkdóm er að ræða sem gengur venjulega yfir af sjálfu sér. Oftast ganga einkennin yfir á um þremur vikum og þarfnast ekki sérstakrar meðferðar. Sjúkdómurinn getur dreifst eða skollið á sem faraldur en hann getur einnig birst sem stakt tilfelli. Flestir fullorðnir hafa mótefni gegn þessum sjúkdómi en hann getur reynst þeim erfiðari en börnum. Fimmta veikin getur reynst þunguðum konum alvarleg vegna áhrifa á rauð blóðkorn fósturs.
Einkenni
Aldur og heilsufars ástand hefur mikið um það að segja hversu alvarleg einkenni eru. Þau geta verið mjög væg og aðeins með útbrotum en oft er mikill slappleiki í nokkra daga áður en útbrot koma fram. Algeng og þekkt einkenni fimmtu veikinnar eru:
- Hár hiti
- Nefrennsli
- Hálsbólga
- Höfuðverkur
- Roði eða útbrot á annarri kinn eða báðum (fullorðnir fá venjulega ekki útbrot í andlit)
- Liðverkir og stirðleiki einkum hjá fullorðnum sem geta varið í margar vikur
Eftir nokkurra daga slappleika geta útbrot orðið áberandi á andliti, bol og á útlimum. Útbrot geta verið upphleypt og algengt er að kláði fylgi þeim. Útbrot í andliti dofna venjulega innan 2ja vikna en útbrot á bol geta varið lengur eða í allt að fjórar vikur. Hjá fullorðnum geta liðverkir varið mun lengur, jafnvel löngu eftir að önnur einkenni eru horfin.
Smitleið
Veiran berst auðveldlega með úðasmiti, þegar smitað fólk hóstar eða hnerrar í umhverfið. Parvoveiran getur líka borist með blóði og þungaðar konur sem fá veiruna í sig geta borið hana yfir í fóstrið.
Til að draga úr smiti er nauðsynlegt að:
- Gæta vel að reglulegum handþvotti; með volgu vatni og sápu
- Nota bréf til að snýta sér í og henda því strax í ruslið
- Henda rusli með snýtiklútum út hið fyrsta
- Það er óhætt að fara til vinnu og í skóla þegar útbrot koma fram því þá er fólk hætt að smita
- Sjúkdómurinn smitast auðveldlega svo það er mikilvægt að skóli/leikskóli viti ef barn er greint með hann
Meðgöngutími, tími frá því að fólk smitast þar til einkenni koma fram er um 7-14 dagar. Smithætta er nokkrum dögum áður en útbrot koma fram. Talið er að um 20% smitaðra sýni engin einkenni og því erfitt að komast hjá smiti.
Greining
Venjulega þarf ekki að fara með barn til læknis vegna fimmtu veikinnar nema einkenni séu þeim mun alvarlegri. Greining byggist á einkennandi útbrotum í andliti. Þá má einnig taka blóðprufur til að staðfesta mótefni fyrir parvovírus B19. Líkaminn myndar varanlegt ónæmi fyrir sjúkdómnum svo fólk fær hann bara einu sinni um ævina. Bæði börn og fullorðnir ættu að vera heima í rólegheitum á meðan slappleikinn varir því þá er mesta smithættan. Þegar útbrot eru komin fram er óhætt að fara til vinnu og í skóla.
Meðferð
Venjulega þarf ekki að fara með barn til læknis vegna fimmtu veikinnar nema einkenni séu þeim mun alvarlegri. Meðferð felst í að draga úr einkennum eins og háum hita, kláða og liðverkjum.
Hvað get ég gert?
Það sem gott er að hafa í huga þegar barn er með fimmtu veikina:
- Tryggja næga hvíld
- Gæta að vökvainntekt til að koma í veg fyrir þurrk
- Nota hitalækkandi lyf eins og parasetamol (panodil) við höfuðverk, liðverkjum og háum líkamshita
- Nota rakagefandi krem á húð, til að draga úr kláða
- Hægt er að fá mild ofnæmislyf við kláða í lyfjaverslunum án lyfseðils
- Barn getur mætt aftur í leikskóla/skóla þegar það er orðið hitalaust og því líður vel.
Síðbúnar fylgikvillar geta átt sér stað hjá fólki með veiklað ónæmiskerfi eins og langvinnt blóðleysi (e. chronic anemia) sem þarf að meðhöndla.
Í neyðartilfellum
- Hafið samband við heilsugæsluna ef einkenni eru alvarleg
- Hringið í 112 ef um öndunarerfiðleika er að ræða
Finna næstu heilsugæslustöð hér.