Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Ráð við mótþróa og erfiðri hegðun

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Börn sem fá tíð reiðiköst vantar upp á færni til að sýna sveigjanleika og takast á við mótlæti og/eða aðlaga sig að breyttum kröfum eða aðstæðum. 

Ráð fyrir uppalendur

Velja baráttumálin

Ef barnið sýnir hegðun sem er hættuleg þarf að stöðva hana og umbera ef að skapofsakast fylgi því. Í sumum tilfellum er hægt að nota virka hlustun eða samningaviðræður til að ná fram sveigjanleika hjá barninu og fyrirbyggja þannig skapofsakast. Ef um hegðun er að ræða sem skiptir í raun ekki máli, geta foreldrar ákveðið að velja baráttumálin og leyfa barninu að ráða í þeim tilfellum.

Virk hlustun

Virk hlustun felur í sér að umorða það sem barnið segir. Við slíka umorðun er gott að bæta við tilfinningaorðum sem lýsa þeirri upplifun sem barnið virðist vera að ganga í gegnum. Með þessari aðferð upplifir barnið að:

  • Hlustað er á það sem það hefur að segja og það tekið til greina
  • Reynt er að skilja það
  • Virk hlustun kemur í veg fyrir rifrildi og ágreining við barnið, sem yfirleitt leiðir til þess að barnið verður ennþá æstara.

Með virkri hlustun aukast líkurnar á að barnið opni og tjái sig enn frekar um það sem er að angra það. Þannig má komast að sameiginlegri niðurstöðu um lausn vandans og stuðlað að bættum samskiptum.

Jákvætt viðmót

Mikilvægt er að nálgast barnið með jákvæðu viðmóti, s.s. að halda stillingu, hækka ekki róminn og sýna ekki svipbrigði þegar það sýnir mótþróa eða ögrandi hegðun. Munum að fullorðnir eru fyrirmyndir barnanna hvað hegðun varðar.

Hrósa fyrir samvinnu

Gæta þarf að hrósa fyrir samvinnu, hversu sjálfsögð sem okkur þykir hún eða hversu lítil sem hún er – og að sama skapi gæta þess að mótþrói verði ekki til þess að barnið fái sínu fram. Hægt er að kenna æskilegri aðferðir til þess að fá það sem maður vill eða til að tjá reiði.

Hrósa fyrir jákvæða hegðun

Gott er að einsetja sér að taka eftir jákvæðri og hlutlausri hegðun, sem og þeirri hegðun sem er andstæð erfiðu hegðuninni sem verið er að glíma við. T.d. ef við ætlum að taka á ókurteisi, þarf að nýta hvert tækifæri til að benda barninu á að nú sé það kurteist. Best er að hunsa minniháttar hegðunarvanda, en grípa tækifærið til að sýna jákvætt viðmót um leið og hegðunin hættir.

Hafa einfaldar og hnitmiðaðar útskýringar

Langar útskýringar um ástæður þess að barn eigi að fara eftir fyrirmælum bjóða upp á rökræður og valdabaráttu. Reglur þurfa að vera fáar og einfaldar og gott samræmi á milli umönnunaraðila.

Fleiri gæðastundir

Hafa reglulegar gæðastundir hjá barni og foreldri. Mælt er með 20-30 mínútum á fyrirfram ákveðnum tíma nokkrum sinnum í viku. Í þessum gæðastundum fær barnið óskipta, jákvæða athygli foreldris og ræður því hvað er gert. Slíkar samverustundir draga úr tilhneigingu barna til að sækja sér athygli með óæskilegri hegðun.