Hvað virkar í uppeldi?

Að ala upp barn er eitt mikilvægasta og mest krefjandi verkefni sem foreldrar takast á við í lífinu. Uppeldishlutverkið hefst strax við fæðingu barns og felur í sér að annast það, vernda, kenna því og veita leiðsögn. Markmið góðs uppeldis er að barnið verði heilbrigt, vel aðlagað, hamingjusamt og hafi færni sem kemur því til góða í framtíðinni. Uppeldisfærni er hins vegar hvorki meðfædd né kemur sjálfkrafa, heldur tekur tíma að tileinka sér nauðsynlega þekkingu, kunnáttu og hæfni.
Mikil gróska hefur verið í rannsóknum um uppeldi og hefur því þekking safnast sem bæði fagfólk og foreldrar geta nýtt sér. Þannig höfum við áreiðanlegar upplýsingar um hvaða leiðir eru vænlegri en aðrar til árangurs í uppeldi og hvað er líklegast til að stuðla að velferð barna til framtíðar.

Nokkur atriði sem mælt er með að foreldrar geri

 • Koma sér saman um skipulag uppeldisins og setja sér markmið.
 • Ræða og ákveða hvaða hegðun og færni foreldrum finnst eftirsóknarverð í fari barnsins, núna og þegar barnið kemst á legg.
 • Koma á föstum venjum frá upphafi sem setja ramma um daglegt umhverfi barnsins og veita því öryggi.
 • Gera raunhæfar væntingar til barnsins og gefa skýr skilaboð um til hvers er ætlast af því.
 • Vera vakandi fyrir allri æskilegri hegðun barnsins og bregðast við með athygli, hrósi eða annarri umbun.
 • Velja og fylgja eftir fáum og skýrum reglum sem eru í samræmi við þroska og aldur barnsins.
 • Setja börnum mörk og hjálpa þeim að læra að setja sér eigin mörk.
 • Vinna að því að fyrirbyggja erfiðleika frekar en að bíða þar til vandamál koma upp.
 • Hvetja markvisst til góðrar hegðunar með leiðsögn, kennslu og góðu fordæmi. Þetta þýðir að foreldrar þurfa að vera mjög meðvitaðir um sína eigin hegðun.
 • Muna að börn læra það sem fyrir þeim er haft.

Einnig er mikilvægt fyrir uppalendur að:

 • Verja reglulega tíma með barninu og skipuleggja skemmtilegar samverustundir allrar fjölskyldunnar.
 • Vinna saman að því að leysa verkefni eða vandamál sem koma upp.
 • Passa upp á sig sjálf og makasambandið og hika ekki við að leita aðstoðar sérfróðra fagmanna ef þörf krefur.
 • Vanda sig og styðja hvort annað, jákvæð athygli og hrós sem foreldrar gefa hvoru öðru hafa ekki síður góð áhrif en á börnin!
 • Muna að enginn er fullkominn, hvorki foreldrar né börn og að allir geta gert mistök.

Óheppilegar uppeldisaðferðir geta valdið ýmiss konar erfiðleikum í hegðun og tilfinningalífi barna og ungmenna. Börn sem búa við agaleysi, ósamkvæmni, hörku eða skort á stöðugleika og jákvæðri svörun eru líklegri til að þróa erfiða hegðun en önnur börn. Góð tengsl á milli foreldris og barns, jákvæð samskipti og notkun hróss eru hins vegar ákveðin vörn gegn þróun erfiðrar hegðunar.

+ - Hvað er uppeldi?
 • Uppeldi er það sem gert er til að styðja við þroska barna og kenna þeim hvernig þau eiga að haga sér.
 • Það hvernig fyrirmyndir uppalendur eru og hvernig þeir bregðast við hegðun barna getur ýmist aukið líkurnar á því að börn hegði sér á æskilegan eða óæskilegan hátt.
 • Hægt er að kenna öllum börnum ákveðna hegðun. Það fer hins vegar eftir meðfæddum eiginleikum barna hversu mikið foreldrar og aðrir uppalendur þurfa að hafa fyrir því.
 • Til að uppeldi skili tilætluðum árangri þarf uppalandi að sýna barninu hlýju, gott fordæmi og nota aga á markvissan hátt.
+ - Hvað er agi?
 • Agi snýst ekki bara um að takast á við hegðunarerfiðleika.
 • Árangursríkur agi er þegar barnið fær fyrirmynd, leiðsögn og kennslu frá uppalendum um hvernig skuli hegða sér.
 • Notkun aga gefur barninu staðfestingu á því hvort það er að gera rétt eða rangt.
 • Notkun aga stuðlar að því að börn finni fyrir öryggi og væntumþykju.
 • Agi veitir börnum utanaðkomandi stýringu og mörk sem hjálpar þeim að læra sjálf að stjórna eigin hegðun.
 • Sjálfsagi er mikilvægur fyrir börn í framtíðinni til að takast á við mótlæti og erfiðar tilfinningar s.s. reiði. Sjálfsagi kennir börnum líka tillitsemi og veitir þeim sjálfsöryggi til að standa á eigin sannfæringu.
 • Hafa skal í huga að agi er notaður til að komast að ákveðnu markmiði en ekki markmið í sjálfu sér.
+ - Hvað eru reglur?
 • Reglur eru mikilvægar í uppeldi og nauðsynlegar til að ná góðum aga.
 • Reglur ættu að vera fáar og skýrar, sértækar frekar en almennar og á jákvæðu formi frekar en neikvæðu. Þær ættu að segja hvað á eða má gera, frekar en hvað má ekki.
 • Reglur þurfa að vera vel ígrundaðar og undirbúnar, helst af öllum uppalendum sameiginlega. Gott er að hafa reglurnar sýnilegar t.d. hengja þær upp á vegg.
 • Reglur þurfa að vera sanngjarnar og raunhæfar bæði fyrir foreldra og börn. Annars verður erfitt að fylgja þeim.
 • Ákveða þarf fyrirfram hvernig á að framfylgja reglum og hver viðurlög eru ef regla er brotin. Mikilvægt er að viðurlög beinist að hegðun barnsins en ekki því sjálfu.
 • Tryggja þarf að barnið nái að þekkja og skilja þær reglur sem því er ætlað að fylgja.
 • Gott er útskýra fyrir börnum af hverju reglur eru nauðsynlegar, t.d. með tengingu við íþróttir, umferð eða annað í raunveruleika barnanna.
 • Nauðsynlegt er að framfylgja settum reglum, annars eru þær verri en engar.
 • Reglur ættu að vera leið til að ná ákveðnu markmiði, en ekki að vera reglur reglnanna vegna.

Sérstaklega ber að varast að:

 • Setja reglur sem ómögulegt er að fara eftir.
 • Viðurlög séu of þung miðað við hegðunina eða of áberandi.
 • Missa stjórn á skapi sínu og bregðast við í reiði.
 • Skammast og tuða. Það skilar ekki árangri og veldur öllum pirringi, reiði og leiða.
 • Lenda í þrætum við barnið í hita leiksins um reglur og mörk sem þegar hafa verið ákveðin.
 • Umbuna fyrir óæskilega hegðun. Öll athygli, jafnvel skammir geta virkað sem umbun og því ýtt undir að barnið sýni óæskilega hegðun aftur.
 • Niðurlægja barnið eða hæðast að því. Ekki meiða, hræða eða hóta barninu.
 • Gefa tvöföld skilaboð, t.d. að orð og athafnir stangist á.
 • Vera slæm fyrirmynd með orðum eða hegðun.
 • Svíkja það sem lofað hefur verið eða gefa loforð sem ekki er hægt að standa við.

   

Víða um land halda heilsugæslustöðvar og sveitarfélög uppeldisnámskeið sem Þroska- og hegðunarstöð hefur hannað og heldur utan um. Það er tilvalið að kynna sér hvort námskeið er í boði í þínu nágrenni. Hér má sjá umfjöllun um námskeiðið Uppeldi sem virkar - færni til framtíðar.

Þessi grein var skrifuð þann 09. maí 2017

Síðast uppfært 05. janúar 2021