Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Fyrstu dagarnir eftir fæðingu

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Meðgangan og fæðingin er afstaðin og barnið er komið í heiminn. Það tekur tíma að aðlagast breyttum aðstæðum. Það er ekkert ólíklegt eða óeðlilegt við það að fjölskyldan sé dösuð og jafnvel hálfringluð.  Allt er þetta hálf óraunverulegt og getur virst yfirþyrmandi.

Fæðing reynir mikið á, bæði tilfinningalega og líkamlega og hormónastarfsemin breytist mikið fyrstu dagana eftir hana. Hversdagurinn rennur upp en margt hefur breyst. Það þarf að sjá fyrir þörfum barnsins og ef til vill tekur brjóstagjöfin meiri tíma en gert var ráð fyrir. Verkir eða óþægindi geta fylgt ef það hefur þurft að sauma eftir fæðinguna. Fjölskylda og vinir vilja koma í heimsókn til að líta á nýfædda barnið.

Sumar konur hafa áhyggjur af því að þær finna ekki til móðurástar strax eftir fæðingu en það er eðlilegt. Rétt eins og með önnur sambönd í lífinu þurfa tengslin að þróast. Það er ekki alltaf ást við fyrstu sýn. Það sama getur átt við karla, föðurástin getur látið bíða eftir sér eða komið smámsaman.

Sumar konur finna fyrir leiða eða depurð eða verða grátgjarnar í kringum þriðja dag eftir fæðingu. Þetta á sérstaklega við ef fæðingin var erfið og konan er þreytt eða hefur einhverjar áhyggjur. Ef til vill finnst henni hún ekki standa sig nægilega vel eða geta hugsað um barnið sitt eins og hún vildi.
Þetta er það sem kallað er sængurkvennagrátur (baby blues). Grátur er helsta einkennið og oftast er það eitthvað smávægilegt sem grætir konuna. Þetta ástand varir oftast stuttan tíma og hverfur jafnskjótt og það hófst. Þetta er saklaus kvilli og gengur yfir á nokkrum dögum. Talið er að allt að 80% kvenna finni fyrir þessu í einhverjum mæli.

Ef til vill veit pabbinn/makinn ekki almennilega hvernig hann á að bregðast við þessum aðstæðum. Rétt eins og móðirin upplifir hann líka töluvert spennufall eftir þennan stórviðburð sem fæðingin er. Hann getur líka fundið fyrir sveiflum í tilfinningalífi. Fyrst og fremst finnur hann fyrir miklu stolti og margir lýsa ótrúlegum létti þegar allt hefur gengið vel og ánægjunni sem fylgir því að tilkynna fæðingu barnsins.

Það tekur tíma að kynnast barninu og smám saman læra foreldrarnir að þekkja venjur barnsins. Ástartilfinningar bæði föður og móður og sú örvun sem þau veita barninu fer ekki síst eftir tækifærum til að halda á því, hjala við það og njóta samveru með því. Margir foreldrar lýsa því hversu mikil gleði og friðsæld getur fylgt því að liggja og horfa á barnið sitt í ró og næði.

Gefið ykkur tíma til þess að hafa barnið nálægt ykkur eins mikið og þið getið. Þannig getið þið gefið því þá hlýju, umönnun og það öryggi sem það þarfnast. Njótið stundanna með barninu, haldið á því, lyktið af því og snertið það.

Það mikilvægasta sem nýbökuð móðir/foreldrar gera eftir fæðingu er að hugsa vel um sig, barnið sitt og fjölskylduna. Í byrjun er mikilvægt að einbeita sér að því að kynnast barninu, hvíla sig vel og sofa og koma brjóstagjöfinni vel af stað. Leyfið því að taka þann tíma sem þarf, það getur tekið nokkra mánuði áður en lífið er komið í fastar skorður á ný.