Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Meltingaróþægindi og hreyfing

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Flestir sem stunda íþróttir kannast eflaust við það að hafa einu sinni eða oftar fundið fyrir meltingaróþægindum í tengslum við þjálfun eða keppni. Í raun er um nokkuð algengt og hvimleitt vandamál að ræða sem, auk þess að valda viðkomandi ónotum, getur bitnað á árangri og jafnvel orðið til þess að hætta þarf keppni. Einkenni geta verið allt frá vægum kviðverkjum til mikilla verkja, ógleði, brjóstsviða, uppþembu, niðurgangs og uppkasta.

Orsakir meltingaróþæginda geta verið næringartengdar, lífeðlisfræðilegar, t.d. tengt streitu eða kvíða eða af völdum hreyfingarinnar sjálfrar.

Næringartengdir þættir sem geta valdið meltingaróþægindum

  • Of stuttur tími á milli máltíðar og áreynslu
  • Magn trefja, fitu og próteina of mikið í síðustu máltíð fyrir áreynslu
  • Of mikil vökvainntaka stuttu fyrir áreynslu
  • Vökvaójafnvægi
  • Of mikið sykur- eða kolvetnamagn í næringu sem neytt er við áreynslu (hýpertónískar lausnir)
  • Notkun bólgueyðandi lyfja fyrir keppni

Lífeðlisfræðilegir þættir sem geta valdið meltingaróþægindum

  • Við þjálfun eykst blóðflæði til vöðva og húðar og á sama tíma verður veruleg minnkun á blóðflæði til meltingarvegar sem getur orsakað ónot og krampa.
  • Aukin losun streituhormóna getur haft áhrif á þarmahreyfingar og orsakað niðurgang og önnur óþægindi
  • Mikill hristingur magans við hlaup, hopp og aðra hreyfingu sem veldur endurteknum höggum á líkamann getur valdið magaóþægindum

Aðrar undirliggjandi orsakir

Í sumum tilvikum geta meltingaróþægindi átt sér undirliggjandi orsakir sem tengjast ekki þjálfun eða áreynslu. Má þar nefna iðraólgu, aðra ristilsjúkdóma og bólgur, slímseigju sjúkdóm, fæðuofnæmi og fæðuóþol. Sé grunur um slíkt er ráðlagt að leita til læknis.

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína