Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Upphaf brjóstagjafar

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Flestar konur eru líkamlega færar um að hafa barn sitt á brjósti. Hjá sumum konum kemur brjóstagjöfin af sjálfu sér en hjá öðrum tekur það lengri tíma. Næði, góð næring og nægileg hvíld skipta miklu máli til að brjóstagjöfin gangi vel. Stærð brjósta hefur ekki áhrif á mjólkurmyndun.

Þegar barn er lagt á brjóst þá örvast mjólkurframleiðslan. Því oftar sem barnið er lagt á brjóst þeim mun meiri mjólk myndast. Rétt er að gefa ungbarni brjóst þegar það biður um það, líka á nóttinni, sérstaklega á meðan mjólkurframleiðslan er að fara í gang. Það er eðlilegt að ungbarn drekki 8-12 sinnum á sólarhring.

Merki um að ungbarn fái nóga mjólk:

  • Barnið er ánægt og sælt eftir gjöf.
  • Barnið nær fæðingarþyngd innan tveggja vikna.
  • Blautar bleiur 6-8 stk. á dag.
  • Gular hægðir 3-8 sinnum á dag fyrstu vikurnar.

Ljósmóðir í síma 513-1700 alla virka daga milli 10-12

Breytingar á brjóstum á meðgöngu

Breytingar á brjóstum eru oft fyrstu merki um þungun. Ekki er þörf á að undirbúa brjóstin eða geirvörtur fyrir fæðingu barnsins.

Brjóstin eru byggð upp af kirtilvef og fituvef. Á fyrstu vikum meðgöngu byrja þroskabreytingar í brjóstum sem konur finna mismikið fyrir. Mjólkurkirtlarnir þroskast, broddurinn myndast og það getur lekið úr brjóstunum. Þau stækka og þrútna og brjóstin eru viðkvæm.  

Geirvörtur eru mismunandi að stærð, lögun og lit. Það er ekkert til sem heitir of litlar eða of stórar geirvörtur. Liturinn á geirvörtunum er frá því að vera ljósbleikur húðlitur yfir í að vera næstum svartur. Á meðgöngu dökkna geirvörturnar og geirvörtubaugurinn. 

Barnið lærir að sjúga það sem því er boðið og því skiptir gerð og útlit brjóstanna og geirvartanna ekki máli. Flatar eða inndregnar geirvörtur valda sjaldan vandkvæðum við brjóstagjöf. Stærð þeirra hefur ekkert með hæfileikann til mjólkurframleiðslu að gera.

Fyrstu dagarnir

Í fyrstu fær barnið broddinn sem er þykkur og rjómagulur að lit. Þó magnið sé lítið eru gæðin mikil. Broddurinn er fullur af mótefnum, næringarefnum og kaloríum og nægir barninu fyrstu dagana. Smám saman eykst magnið og brjóstamjólkin þroskast. Sog barnsins örvar mjólkurmyndunina og mjólkurlosun. 

Á fyrsta sólarhring fer barnið að meðaltali 4-5 sinnum á brjósti og getur gjöfin tekið 20-40 mínútur. Barnið tekur til sín 7-14 ml (1-2 tsk) í hverri gjöf.

Á öðrum sólarhring fer gjöfum fjölgandi og stundum geta gjafir verið með mjög stuttu millibili (keðjugjafir). Síðan fer barnið að jafnaði 8-12 sinnum á brjóst á sólarhring.

Mjólkurmagnið sem barnið drekkur eykst smám saman og í lok fyrstu vikunnar er barnið að drekka 70-90 ml í einni gjöf. Barnið sýgur ekki endilega stöðugt. Það er algengt að það taki sér hlé meðan á gjöf stendur. Það er merki um að mjólkin flæði vel úr brjóstunum.

Eðlilegt er að geirvörturnar verði aumar fyrstu vikuna en móðirin á ekki að finna sviða eða stingi á meðan barnið sýgur. Það er merki um að barnið er ekki að taka brjóstið rétt. Taka þarf barnið af brjóstinu og reyna aftur. Setja má fingur upp í munnvik barnsins til þess að losa sogið. Ef það koma sár eða blöðrur þarf að leita aðstoðar sem fyrst.

Stálmi

Á 3.-5. degi eftir fæðingu þegar broddmjólkin er að breytast í fullþroska mjólk getur komið stálmi. Brjóstin hitna og þéttast og eru aum viðkomu. Orsökin er aukið blóðflæði til brjósta vegna mjólkurmyndunar. Þrotinn getur verið það mikill að það geti verið erfitt fyrir barnið að ná góðu taki á brjóstinu til að drekka. 

Besta meðferðin við stálma er að barnið sjúgi vel. Ráðlagt er að leggja barnið oft á brjóst (1-3 tíma fresti allan sólarhringinn), tryggja gott grip og reyna að slaka á. Forðast allar ábótagjafir og snuðnotkun á þessum tíma. Ef barnið nær ekki að taka brjóstið þá er mælt með því að móðirin mjólki sig og gefi barninu mjólkina á annan hátt, t.d. með staupi, fingurbjörg eða sprautu (helst ekki nota pela vegna hættu á sogvillu hjá svona ungu barni). Sjá nánar um handmjólkun undir Farsæl brjóstagjöf.

Það er hægt að nota kalda bakstra til að minnka óþægindi. Kælingin getur hjálpað til að móðurinni líður betur en kælingin minnkar blóðflæði til brjóstanna sem stuðlar að minni þrota. Ekki er mælt með heitum bökstrum sem geta gert einkennin verri. Venjulega gengur þetta yfir á 24-48 klst. en getur tekið allt að viku. 

Ef barnið sýgur brjóstið lítið eða sjaldan, tekur geirvörtuna skakkt eða fær þurrmjólkurábót, getur stálminn orðið óeðlilegur.

Hormónar

Prólaktín er mjólkurmyndandi hormón. Því oftar og meira sem barnið sýgur því meira prólaktín losnar og því meiri mjólk myndast.

Oxýtósín er mjólkurlosandi hormón. Oxýtósín losnar þegar móðirin hugsar um barnið og þegar barnið sýgur brjóstið. Það ýtir undir kærleikstilfinningu móðurinnar til barnsins.