Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Líkamsmynd barna og unglinga

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Líkamsmyndin er mikilvægur áhrifaþáttur fyrir heilsu og líðan ungmenna. Neikvætt viðhorf til líkama og útlits tengist ýmiskonar vanda, s.s. neikvæðu sjálfsmati, átröskunum og þunglyndi, en einnig hefur komið í ljós að líkamsmynd hefur áhrif á lífsvenjur. Langtímarannsóknir sýna að unglingar sem eru sáttir í eigin skinni, óháð því hvernig þeir eru vaxnir, hugsa betur um sig og hreyfa sig meira en þeir sem hafa neikvætt viðhorf til eigin líkama. 

Það er ábyrgðarhluti allra sem koma að uppeldi barna að ýta undir jákvætt viðhorf þeirra til líkama síns og vinna gegn stríðni, neikvæðum viðhorfum og fordómum vegna holdafars. Hér eru nokkur ráð sem geta nýst í þeim tilgangi:

Allir eru öðruvísi

Kenndu barninu að fjölbreytileiki í líkamsvexti sé eðlilegur. Alveg eins og við erum mismunandi á litinn, höfum ólíkt andlitsfall, hárlit og augnlit, þá erum við líka mismunandi í laginu. Þetta er sjálfsögð staðreynd sem allir ættu að virða.

Útrýmum fordómum

Kenndu barninu að það sé ekki rétt að stríða eða tala illa um aðra vegna þess hvernig þeir líta út. Fordómar vegna útlits og holdafars eru alveg jafn slæmir og skaðlegir og aðrir fordómar. Ef við verðum vör við slíka fordóma þá ber okkur að bregðast við með því að fræða og leiðrétta. 

Vertu góð fyrirmynd

Talaðu jákvætt um líkama þinn og hugsaðu vel um hann. Aldrei tala illa um vaxtarlag þitt svo barnið heyri. Lærðu að þykja vænt um líkama þinn þótt hann sé ekki fullkominn og þannig lærir barnið að bera virðingu fyrir sínum líkama. Vertu góð fyrirmynd.

Heimilið er griðarstaður

Gerðu heimilið að griðarstað fyrir kröfum um líkamsvöxt og útlit. Ekki tala um mat eða hreyfingu á þann hátt að það geti ýtt undir skömm eða vanlíðan. Forðastu að kaupa vörur, tímarit eða annað sem inniheldur sterkan útlitsboðskap. Ræddu opinskátt um óraunhæf útlitsviðmið í samfélaginu og bentu á að allir séu jafnir óháð líkamsvexti. Storkaðu fordómum vegna holdafars hvenær sem þú rekst á þá og skapaðu andrúmsloft mannúðar og virðingar fyrir öllu fólki.  

Líkaminn er góður

Líkamsmyndin er hluti af sjálfsmynd okkar. Kenndu barninu að vera stolt af sínum sérkennum. Aldrei segja neitt neikvætt um líkama barnsins og taktu hart á því ef einhver annar gerir það. Samband barnsins við líkama sinn er heilagt.

Hlustaðu á barnið

Ef barnið lýsir áhyggjum af líkamsvexti sínum er mikilvægt að hlusta. Reyndu að komast að því hvað býr að baki. Varð barnið fyrir neikvæðri reynslu? Hefur það séð eða heyrt eitthvað sem fékk það til að skammast sín fyrir líkama sinn? Sýndu stuðning og ekki líta svo á að holdafar barnsins sé vandamálið. Ef barnið hefur orðið fyrir höfnun vegna þess hvernig það lítur út þá er vandamálið í umhverfinu, ekki hjá barninu. Réttu viðbrögðin felast í því að breyta umhverfinu, ekki barninu.

Hegðun ekki holdafar

Ef þú hefur áhyggjur af lífsvenjum barnsins þíns skaltu horfa á hegðun þess en ekki holdafar. Skapaðu umhverfi þar sem barnið fær næg tækifæri til að borða hollan mat og hreyfa sig sér til ánægju, en gættu þess að nálgast þessar breytingar á afslappaðan hátt. Ekki setja þrýsting á barnið og alls ekki hvetja það til að grennast. Hvorki þú né barnið ættuð að líta á heilbrigðar lífsvenjur sem aðferð til að grennast, heldur eitthvað sem allir þurfa að gera til þess að halda heilsu og líða vel. Það skiptir mestu að upplifun barnsins verði jákvæð þannig að það hafi áhuga á að lifa heilbrigðu lífi til langframa.