Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Leiðir til að efla líkamsmynd

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Það er margt í umhverfi okkar sem getur haft neikvæð áhrif á líkamsmyndina, s.s. óraunhæf útlitsviðmið í fjölmiðlum, tísku og heilsurækt, samanburður við útlit annarra, t.d. á samfélagsmiðlum, þrýstingur um megrun eða vöðvauppbyggingu, stríðni eða misrétti í tengslum við líkamsþyngd o.fl.

Mun heillavænlegra og heilsusamlegra, svo ekki sé minnst á ódýrara, er að efla jákvætt viðhorf til líkama síns en að keppa að hinu fullkomna útliti. Við búum í líkama okkar alla ævi og því skiptir miklu máli að okkur líði vel þar. 

Hér fyrir neðan eru nokkur ráð sem nýta mál til þess að efla jákvæða líkamsmynd:

Taktu eftir áhrifavöldunum

Vertu vakandi fyrir því hvernig umhverfið hefur áhrif á þig og haltu þig frá þeim áhrifavöldum sem þér finnst auka óánægju með líkama þinn, hvort sem það eru ákveðnir einstaklingar, samfélagsmiðlar, tímarit, sjónvarpsefni, líkamsræktarstöðvar o.fl. Reyndu í staðinn að umgangast fólk, sækja staði og njóta afþreyingarefnis sem lætur þér líða vel með sjálfa(n) þig.

Varastu útlitssamanburð

Ekki bera þig saman við aðra. Það er tilgangslaust og lætur þér bara líða illa. Það er enginn í heiminum eins og þú og þú getur aldrei orðið eins og einhver annar – sem betur fer.

Æfðu jákvætt sjónarhorn

Hvað er það fyrsta sem þú sérð þegar þú lítur í spegil? Beinirðu sjónum ósjálfrátt að því sem þú telur galla í eigin fari? Forðastu jafnvel að líta i spegil? Með þessu getur þú verið að viðhalda neikvæðri sýn á líkama þinn. Snúðu dæminu við. Æfðu þig í því að standa fyrir framan spegil og horfa á líkama þinn með því hugarfari að finna allt sem er jákvætt við hann. Mundu að fegurðina er að finna í augum sjáandans.

Fallegt útlit er margbreytilegt

Það er ekki til nein ein uppskrift að fallegu útliti þótt margir reyni að telja okkur trú um það. Vertu þú sjálf(ur) og leggðu áherslu á það sem þú ert ánægð(ur) með í eigin fari.

Þú ert meira en útlit þitt

Ekki láta útlitið vera miðpunktinn í lífi þínu og mundu að það eru fleiri og mikilvægari eiginleikar í þínu fari. Gerðu lista yfir þá kosti og hæfileika sem þú býrð yfir sem koma útliti ekkert við. 

Taktu eftir öðru en útliti í farin annarra

Vendu þig á að hlusta á það sem fólk segir án þess að hugsa um hvernig það lítur út. Taktu eftir því hvernig fólk tjáir sig, hvernig svipbrigðin eru, hvaða venjur fólkið í kringum þig hefur tamið sér o.s.frv. Áherslan á útlit mun ekki aðeins minnka í lífi þínu heldur mun sýn þín á fólkið í kringum þig víkka til muna.

Taktu útlitsviðmiðum með fyrirvara

Hugmyndir okkar um gott útlit og „réttan“ vöxt eru alltaf að breytast. Þær sveiflast með tískunni rétt eins og sniðið á gallabuxum. Þetta er því enginn algildur sannleikur. Það er líka gott að muna að margir hafa hag af því að halda á lofti óraunhæfum útlitsviðmiðum í von um að selja okkur „lausnir“ á meintum útlitsbrestum. Þú getur ákveðið hvort þú ætlar að fylgja þessum viðmiðum eða fara eigin leið.

Hafðu jákvæð áhrif

Þú hefur áhrif á fólkið í kringum þig alveg eins og aðrir hafa áhrif á þig. Ef þú samþykkir ekki ósanngjörn útlitsviðmið heldur tileinkar þér frjálslegri og fjölbreytilegri hugmyndir um útlit og líkamsvöxt mun það hafa áhrif á þá sem umgangast þig og hvetja fleiri til að gera slíkt hið sama.

Hugsaðu vel um þig

Komdu vel fram við líkama þinn og hugsaðu um hann af væntumþykju og umhyggju. Veldu mat sem lætur þér líða vel. Hreyfðu þig til að finna fyrir gleði og lífsorku. Veldu föt sem þér finnst þægilegt að klæðast og henta líkama þínum. Að umgangast líkamann af velvild og bera virðingu fyrir þörfum hans hjálpar þér að mynda jákvæð tengsl við líkama þinn.

Vertu á varðbergi

Áhyggjur, vanlíðan, skömm og minnimáttarkennd yfir eigin útliti getur tengst alvarlegum vanda á borð við átraskanir, þunglyndi og líkamsskynjunarröskun (body dysmorphic disorder). Ef áhyggjur þínar af líkamsvexti þínum eða útliti valda þér mikilli vanlíðan eða hafa hamlandi áhrif á virkni þína í daglegu lífi, s.s. að sækja skóla eða vinnu, eða hitta annað fólk, skaltu íhuga að leita eftir aðstoð fagfólks. Ræddu þessi mál á heilsugæslustöðinni þinni og biddu um að verða vísað á fagaðila sem geta hjálpað þér.