Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Hvað er líkamsmynd?

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Líkamsmynd er hluti af sjálfsmynd fólks og snýr að hugsunum, skynjunum og tilfinningum þess til eigin líkama. Hún mótast, rétt eins og sjálfsmyndin, í gegnum samskipti okkar við umhverfið þar sem við lærum m.a. hvað þykir æskilegt og hvað ekki hvað varðar líkamlegt útlit og virkni og hvernig okkar eigin líkami fellur að þeim viðmiðum. 

Líkamsmynd karla og kvenna

Almennt sýna rannsóknir að stúlkur og konur séu með neikvæðari líkamsmynd en drengir og karlar. Þetta er rakið til samfélagslegs þrýstings sem ríkt hefur í garð kvenna í gegnum tíðina um að uppfylla ströng útlitsviðmið, svo sem að vera grannar, leggjalangar og mittismjóar. Rannsóknir hafa um áratuga skeið sýnt að stór hluti kvenna er óánægður með líkama sinn og beitir ýmsum aðferðum til að breyta líkama sínum og útliti.

Þetta þýðir þó ekki að drengir og karlmenn séu undanskildir áhyggjum af útliti og líkamsvexti og hafa kröfur í þeirra garð farið vaxandi á undanförnum áratugum. Sem dæmi hafa leikföng og hetjur ungra drengja á borð við Ofurmennið og Köngulóarmanninn orðið mun vöðvastæltari með árunum en þeir voru í upphafi. Þessar áherslur endurspegla áhyggjur drengja og karla af líkamsvexti sem snúa helst að því að finnast þeir ekki nógu stæltir, skornir og sterkbyggðir. 

Skiptir jákvæð líkamsmynd máli?

Líkamsmyndin hefur margvísleg áhrif á líðan, heilsu og lífsgæði okkar. Slæm líkamsmynd tengist m.a. lágu sjálfsmati, kvíða, aukinni hættu á þróun átraskana og þunglyndis, minni hreyfingu, óheilbrigðum matarvenjum og minni ánægju af kynlífi. Það er því mikilvægur hluti af almennri heilsueflingu að stuðla að jákvæðri líkamsmynd í samfélaginu og skapa aðstæður sem auðvelda fólki að lifa sátt í eigin skinni ævina á enda. 

 

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína