Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Kynþroski stúlkna

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Kynþroski stúlkna getur hafist á aldrinum 8-18 ára. Þetta er mikið aldursbil og oft erfitt fyrir þær sem eru fyrstar í sínum félagahópi að takast á við kynþroskann en það er ekki síður erfitt að vera sú síðasta sem byrjar með blæðingar í hópnum. Á þessu tímabili skiptir máli að muna að við erum ólík, misstór og misjafnlega fljót að þroskast. Það eru einkum erfðir sem ráða hraða kynþroskans þó aðbúnaður, næring og sjúkdómar geti einnig haft áhrif þar á. Ef áhyggjur eru af kynþroskanum eða hæðarvexti er um að gera að leita til fagfólks og fá ráðleggingar. Þú getur leitað til heilsugæslunnar, skólahjúkrunarfræðings eða notfært þér spjallið hér á síðunni. 

Brjóst

Á kynþroskatímabilinu byrja brjóst að myndast hjá stelpum. Brjóstin þroskast í tveimur skrefum. Fyrsti hluti þroskans kemur á kynþroskaaldrinum þegar brjóstin stækka en seinna þroskaferli brjóstanna kemur ef kona verður barnshafandi. Í brjóstunum er mikið af mjólkurkirtlum og þegar kona verður barnshafandi valda hormón því að mjólkurkirtlarnir verða virkir og byrja að framleiða mjólk um leið og barnið kemur í heiminn.

Myndun brjósta

Það er því mjög mismunandi hvenær brjóstin byrja að myndast. Þetta getur gerst frá 8-13 ára. Algengast er að brjóstin byrji að myndast um 10-11 ára aldurinn. Myndun brjósta byrjar sem smá bólga undir geirvörtunum. Á meðan brjóstin eru að þroskast/stækka er eðlilegt að finna fyrir eymslum í þeim. Þá finnst sumum gott að vera í toppi eða brjóstahaldara til stuðnings. Brjóstin eru um 4-5 ár að þroskast. Lögun og stærð brjósta hverrar konu breytist meðal annars eftir þyngd konunnar, erfðum og við meðgöngu og barnsburð.

Stærð brjósta

Eins og allt annað á líkamanum eru brjóst mismunandi og ólík á milli kvenna. Sumar eru með stór brjóst og aðrar lítil brjóst. Hægra og vinstra brjóst sömu konu geta verið mismunandi, sérstaklega á meðan þau eru að þroskast. Flestir sættast við líkamann sinn eins og hann er en þó eru alltaf einhverjir sem eiga erfitt með það. Sumar konur vilja vera með stærri brjóst og vilja láta stækka þau. Svo eru einnig konur með stór brjóst sem finna fyrir vanlíðan og verkjum vegna stærðar brjóstanna og vilja láta minnka þau. Stærð brjóstanna segir þó ekkert til um það hvernig þeim gengur að framleiða mjólk fyrir ungabörn. 

Sjálfskoðun brjósta

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið meðal kvenna. Líkur á lækningu eru meiri ef meinið finnst snemma. Því er ráðlegt að konur skoði brjóst sín reglulega til dæmis mánaðarlega.

Finnist hnútur í brjóstinu er rétt að fara strax til heimilislæknis á þinni heilsugæslustöð. Hnútur í brjósti er ekki endilega merki um krabbamein. Þeir geta verið meinlausir með öllu.

Inn á vef bleiku slaufunnar er að finna myndband og leiðbeiningar um sjálfskoðun brjósta.

Hárvöxtur

Þegar hár byrja að vaxa á líkamanum er það merki um að hann sé að þroskast. Hár vex á kynfærum (skapahár), undir höndum, á fótleggjum og handleggjum. Það er misjafnt eftir einstaklingum hversu mikið af líkamshárum vex og hvenær þau byrja að vaxa, oftast er það á aldrinum 9-13 ára.

Svitamyndun

Svitakirtlar eru dreifðir um yfirborð húðarinnar og verða þeir virkari á kynþroskaárunum. Sviti er vökvi sem inniheldur vatn, sölt og úrgangsefni sem myndast í svitakirtlunum. Meginhlutverk svitans er að hafa stjórn á líkamshitanum og losa líkamann við úrgangsefni.

Líkamslykt

Svitinn sjálfur er lyktarlítill en ef hann fær að liggja á húðinni í nokkrar klukkustundir ná bakteríur að starfa í svitanum og það veldur svitalykt. Því er nauðsynlegt að fara reglulega í sturtu, t.d. annan til þriðja hvern dag og alltaf eftir áreynslu. Það er ekki nauðsynlegt að nota alltaf sápu við daglegan þvott og alltaf ætti að nota hana í hófi.

Kynfæri kvenna

Kynfærin gera konunni kleift njóta kynlífs með sjálfri sér og/eða öðrum, að framleiða egg, vernda og næra frjóvgað egg þar til fóstur er fullþroskað og fæða barn. Heilbrigði kynfæranna skiptir allar konur miklu máli. Hér er að finna upplýsingar um hvað þú getur gert til að efla heilbrigði kynfæranna þinna.

Ytri kynfæri kvenna

Er sá hluti kynfæranna sem sést utan á líkamanum Ytri kynfæri lýsingarmynd

Skapabarmar kallast svæðið kringum leggangaopið.

Snípur er lítið og næmt líffæri, staðsett fyrir ofan þvagrásaropið. Í snípnum er mikið af taugaendum sem gerir hann næman fyrir snertingu. Við örvun snípsins fá konur oft fullnægingu.

Meyjarhaft er þunn himna sem hylur leggangaopið við fæðingu. Tilgangur meyjarhaftsins er að verja leggöngin fyrir utan að komandi óhreinindum. Við unglingsaldur er oft lítið eftir af meyjarhaftinu nema smá húðflipar en það sem eftir er fer við fyrstu kynmök. Lítillega getur blætt þegar meyjarhaftið fer. 

Innri kynfæri kvenna

Eru sá hluti kynfæranna sem eru inni í líkamanum, neðst í kviðarholinu og sjást því ekki með berum augum.

Innri kynfæri kvenna lýsingarmynd

 

 

Eggjastokkar eru tveir og geyma eggfrumurnar. Stelpur fæðast með þúsundir eggja í eggjastokkunum en þeir byrja ekki að starfa fyrr en á kynþroskatímabilinu. Við kynþroska hafa hormón áhrif á eggjastokkana og eggin byrja að þroskast. Eitt egg losnar mánaðarlega út í eggjaleiðarann og er það kallað egglos.
Eggjastokkarnir eru kallaðir kynkirtlar þar sem þeir framleiða kynhormón kvenna, estrógen og prógesterón.

Eggjaleiðarar eru tveir og tengja saman leg og eggjastokka. Þeir eru um 10 cm. á lengd og svipaðir á breidd og spaghetti. Þeir eru holir að innan og inní þeim eru lítil bifhár sem ýta egginu áfram.

Leg er holur vöðvi sem getur stækkað mikið. Legið er einn sterkasti vöðvinn í líkama konu og þar vex fóstur eftir getnað þegar kona er barnshafandi.

Legháls er á mótum legganga og legs og er mjög þröngur. Hann víkkar um 10 cm til að barn komist í gegn við fæðingu.

Leggöng eru hol, teygjanleg göng sem opnast í legið. Leggöng eru um 8-12 cm á lengd. Þau geta stækkað og dregist saman og í gegnum þau fæðist barn. Í leggöngunum er næmt svæði oft nefnt G bletturinn. G bletturinn er rétt innan við leggangaopið að framanverðu upp við lífbeinið. Við örvun G blettsins fá konur oft fullnægingu.

Egglos

Við kynþroska byrja eggjastokkar að þroska egg sem eru til staðar í eggjastokkum við fæðingu. Heiladingullinn, er staðsettur í heilanum. Hann framleiðir hormón sem örva eggjastokkana til að framleiða kynhormón. Kynhormónin þroska eggið og losa það úr eggjastokknum í eggjaleiðarann í hverjum mánuði, það kallast egglos. Eggið ferðast síðan eftir eggjaleiðaranum í átt að leginu. Ef ekkert sæði fer inn í konuna til að frjóvga eggið þá þornar eggið upp og fer út úr líkamanum tveimur vikum síðar með tíðablóði.

Tíðahringurinn

Eðlilegur tíðahringur getur verið frá 21 til 35 dagar. Tíðahringurinn er að meðaltali 28 dagar. Tíðarhringurinn lýsingarmynd

Fyrsti dagur tíðahringsins er sá dagur þegar blæðingar byrja. Miðað við 28 daga tíðahring gildir eftirfarandi:
Á 7. degi byrja eggjastokkar að þroska egg og undirbúa egglos.
Á 11-16 degi verður egglos það er að egg losnar úr eggjastokk í eggjaleiðara. Eftir það ferðast egg frá eggjaleiðara og niður í leg.
Slímhúð legsins þykknar til að taka á móti frjóvguðu eggi. Frjóvgist eggið ekki þynnist slímhúðin á ný og blæðingar byrja.
Óháð lengd tíðahringsins líða um það bil 14 dagar frá egglosi að næstu blæðingum. 
Þetta ferli á sér stað hjá konum þangað til þær hætta að hafa blæðingar við tíðahvörf. Íslenskar konur hætta að meðaltali við 51 árs aldur að hafa blæðingar. 

Á Kynfræðslulvefnum má sjá hreyfimynd af tíðahringnum.

Blæðingar

Blæðingar koma í einu sinni á hverjum tíðahring þegar stelpa er orðin kynþroska. Það fer eftir lengd tíðahringsins hversu langt er á milli blæðinga en hjá festum koma þær mánaðarlega. Með blóðinu losnar egg og slímhúð legsins út úr líkamanum.

Fyrstu blæðingarnar
Algengast er að stelpur fái sínar fyrstu blæðingar á aldrinum 11-13 ára. Sumar stelpur geta þó byrjað á blæðingum 8 ára en aðrar ekki fyrr en 18 ára. Fyrstu blæðingar eru yfirleitt mjög litlar hjá stelpum og oftast er það brúnn blettur sem kemur í nærbuxurnar. Þegar stelpa byrjar að hafa blæðingar er það merki um að hún sé orðin kynþroska og að allir hlutar kynfæranna séu byrjaðir að starfa eðlilega. Hún getur því orðið ólétt ef hún hefur samfarir við strák án þess að nota getnaðarvarnir.

Lengd blæðinga
Blæðingar hjá flestum konum standa í 3 til 7 daga og koma á um það bil 28 daga fresti. Það er mismunandi eftir konum hvað tíðahringurinn þeirra er langur en svo getur tíðahringurinn einnig verið mislangur á milli tímabila hjá sömu konu. Konur hafa blæðingar á meðan þær eru frjóar. Íslenskar konur hætta að meðaltali við 51 árs aldur að hafa blæðingar. Sumar hætta fyrr og aðrar síðar.

Magn tíðablóðs
Það er misjafnt hversu mikið blóð kemur í hverjum blæðingum en oftast er það ekki nema hálfur bolli. Þetta blóðtap hefur því sjaldan áhrif á líkamann en getur þó gert það ef járn skortir í fæðuna. Konur sem borða fjölbreyttan mat samkvæmt ráðleggingum þurfa ekki að hafa áhyggjur af blóðskorti.

Hægt er að nota dömubindi, túrtappa eða álfabikar til að taka við blóðinu meðan á blæðingum stendur. Þó að stelpa sé á blæðingum getur hún gert allt sem hún gerir þegar hún er ekki á blæðingum, þar á meðal farið í leikfimi. Mikilvægt er að gæta hreinlætis meðan á blæðingum stendur. Hér eru leiðbeiningar um hreinlæti kynfæra kvenna.

Óreglulegar blæðingar
Mjög algengt er að blæðingar séu óreglulegar fyrstu 2 árin eftir að þær byrja. Það þýðir að þá koma blæðingarnar ekki einu sinni í mánuði. Stundum geta liðið allt að 2-3 mánuðir á milli blæðinga. Það getur tekið stelpu ca. 2 ár að fá reglulegan tíðahring, þangað til er líkaminn að aðlagast hormónum. Það er gott að merkja blæðingar inn á dagatal til að fylgjast með tíðahringnum.

Fyrirtíðaverkir - tíðaverkir
Kallast verkir sem sumar konur finna fyrir í kviðnum nokkrum dögum fyrir blæðingar og stundum meðan á þeim stendur. Það eru efni í líkamanum (prostaglandín) sem valda þessum verkjum með því að láta sléttu vöðvana í leginu dragast saman. Þessir verkir geta verið mismiklir hjá konum. Bólumyndun í húð, aum brjóst, þreyta og verkir í baki geta m.a. fylgt fyrirtíðaverkjum.
Gott ráð við tíðaverkjum er að setja hitapoka yfir neðri hluta kviðsins, nudd á neðri hluta baksins eða taka verkjatöflur. Hreyfing hefur líka góð áhrif á tíðaverki.

Útferð
Ljóst eða gulleit slím kemur frá leggöngum. Þetta kallast útferð og er hluti af eðlilegri starfssemi legganganna. Vegna hormónabreytinga er eðlilegt að útferð hefjist hjá stúlkum um 6 mánuðum áður en blæðingar byrja. Hér er að finna góð ráð þegar kemur að hreinlæti. Ef útferð er illa lyktandi og/eða kláði eða sviði fylgir þá er ráðlegt að leita læknis eða ráðfæra sig við hjúkrunarfræðinginn hér.