Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Kynþroskaaldurinn

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Kynþroskaaldurinn er það tímabil þegar kynfærin byrja að þroskast og starfa. Líkaminn breytist úr líkama barnsins í líkama fullorðins einstaklings sem getur fjölgað sér.  

Það er mismunandi milli einstaklinga hvenær kynþroskinn byrjar, hann getur byrjað um 8 ára aldurinn hjá einhverjum en ekki fyrr en 18 ára hjá öðrum.  Algengast er þó að kynþroskinn byrji 11-13 ára og yfirleitt hefst kynþroskinn heldur fyrr hjá stelpum en strákum.  

Þau börn sem efast eða eru fullviss um að kynvitund þeirra samræmist ekki því kyni sem barninu var úthlutað við fæðingu ræða það gjarnan á þessu tímabili eða hafa gert það áður. Mikilvægt er að hlusta og taka mark á upplifun þeirra í þessu sem öðru.

Kynþroskatímabilið varir frá einu ári upp í fimm ár.  

Stelpur eru orðnar kynþroska þegar þær byrja að hafa blæðingar.

Strákar eru orðnir kynþroska þegar þeir fá sáðlát.

Hvað stjórnar kynþroskanum?

Hormón eru efni í líkamanum sem valda þeim breytingum sem verða við kynþroskann.  Í höfðinu er kirtill sem heitir heiladingull sem sendir frá sér hormón sem berst til kynkirtlanna. Kynkirtlarnir, eggjastokkar hjá stelpum og eistu hjá strákum, hefja þá framleiðslu kynhormóna.  Kynhormón kvenna er estrógen og kynhormón karla er testósterón.

Kynhormónin berast með blóðinu á ýmsa staði í líkamanum og valda breytingum.

Hvað geta foreldrar gert?

Fólk hefur mismunandi viðhorf til ýmissa mála er tengjast því að verða kynþroska. Mikilvægt er að foreldrar skoði þessi viðhorf sín og ræði þau sín á milli til þess að geta deilt skoðunum sínum með barninu. Það mikilvægasta er að vera til staðar fyrir unglinginn og geta rætt málin af hreinskilni og heiðarleika.

Foreldrar geta deilt eigin reynslu af kynþroskaárunum.
Hvernig voru tilfinningarnar, vaxtarverkirnir og bólurnar? Hvað var erfitt og hvað var gaman? 

Unglingar upplifa sumir miklar tilfinningasveiflur á kynþroskaaldrinum og stutt getur verið á milli þess að hlæja og gráta. Foreldrar þurfa á þessu tímabili eins og öðrum að læra að þekkja viðbrögð barna sinna og vera til staðar fyrir þau og hjálpa þeim í þroskabrautinni. Þó vinirnir fái oft á tíðum meiri tíma á þessum aldri þá eru foreldrarnir og fjölskyldan bakhjarlinn sem allir unglingar þurfa á að halda. 

Foreldrar þurfa að hefja umræðuna

Mikilvægt er að hafa frumkvæði að umræðum um kynþroskann. Sumum börnum finnst óþægilegt að spyrja foreldra sína um þær breytingar sem fylgja kynþroskanum. Þau leita frekar svara á netinu eða hjá vinum og fá oft ekki áreiðanlegar upplýsingar. Þegar foreldrar hafa opnað umræðuna er auðveldara fyrir barnið að ræða það sem því liggur á hjarta.

Foreldrum finnst eins og börnunum oft erfitt að hefja þessa umræðu en ef vel er að gáð eru tækifærin út um allt. Það þarf bara að koma auga á þau og nota þau til að hefja umræðuna. Umræða í fjölmiðlum og á netmiðlum gefur mörg tækifæri til að hefja kynþroskaumræðuna.

Foreldrar sem hafa frumkvæði að því að ræða við börnin um kynþroskann og allt sem honum viðkemur gefa börnum sýnum þau skilaboð að það sé í lagi að spyrja og leita til foreldranna með mál sem viðkoma kynþroskanum. Foreldrar þurfa ekki að hafa svör við öllu á reiðum höndum en saman geta börn og foreldrar ef til vill fundið svörin á netinu, hjá skólahjúkrunarfræðingi eða á spjallinu hér á síðunni.

Hér er áhugaverður texti um sjálfsmynd unglinga.