Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Sjálfsmynd ungmenna

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Sjálfsmyndin er í sífelldri þróun alla ævi í takt við breytilegan þroska og aðstæður. Á unglingsárunum verða ungmenni oft meðvituð um eigin sjálfsmynd og fara að velta fyrir sér spurningum eins og: Hver er ég? Hvers virði er ég? Hvað skilgreinir mig? Hverjir eru mínir styrkleikar? Hverjir eru mínir veikleikar? Hvað finnst öðrum um mig?

Á þessu æviskeiði er eðlilegt að ungmenni vilji upplifa nýja hluti, máta sig við ólíka hópa og prófa sig áfram með fatastíl, tónlist, vinasambönd o.s.frv. Það er mjög eðlilegt að ungmenni séu leitandi á þessu tímabili, efist stundum um sjálf sig og viti ekki hvað þau vilja. Tilfinningalífið er oft sveiflukennt, vinasambönd breytast, ástarsambönd myndast og taka enda og áhugamál taka nýja stefnu.

Það er bæði eðlilegt og æskilegt að unglingar leiti vaxandi sjálfstæðis enda er markmiðið á endanum að þau beri ábyrgð á eigin lífi. Þau þurfa hins vegar að finna fyrir stuðningi og aga samhliða því axla aukna ábyrgð og taka sjálfstæðar ákvarðanir innan þess ramma sem viðmið og reglur fjölskyldunnar segja til um. 

Er unglingurinn minn með slæma sjálfsmynd?

Mikilvægt er að gera greinarmun á eðlilegum tilfinningum, eins og depurð og pirringi, sem allir finna fyrir í einhverjum mæli og alvarlegri merkjum um neikvætt sjálfsálit eða skort á sjálfstrausti. Það er ekki nema eðlilegt að mörgum finnist erfitt að fóta sig í nýjum veruleika unglingsáranna en aukinn þroski og reynsla leiða slíkt yfirleitt farsællega til lykta.

Aftur á móti ef eitthvað af eftirfarandi á við um barnið eða unglingurinn er mikilvægt að leita aðstoðar.

  • Virðist almennt hafa litla trú á sjálfum sér
  • Talar neikvætt um sig
  • Á erfitt með að taka hrósi
  • Kennir sér um allt sem miður fer
  • Virðist ekki þekkja eða viðurkenna eigin verðleika

Neikvætt sjálfsálit spáir fyrir um þróun alvarlegs vanda, s.s. þunglyndis, átraskana, félagskvíða, sjálfsvígshugsana og vímuefnaneyslu.

Mikilvægt að ungmenni búi við skilning, hlýju og öryggi. Þau þurfa að vita að þau geti leitað til fjölskyldu, vina eða jafnvel fagfólks ef við á. Þau hafa nú þroska til að þekkja betur tilfinningar sínar og geta jafnvel sjálf haft frumkvæði að því að leita eftir aðstoð og stuðningi ef þeim finnst þau þurfa.